Íslensk stjórnvöld og umhverfisverndarsamtök – frá Ríó til Ríó
Eftir Árna Finnsson. Upphaflega birt í Tímariti Máls og Menningar, 2. hefti 2012.
Dagana 20.–22. júní verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, Ríó +20, en þá verða liðin 20 ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Enn er óljóst hvort þjóðarleiðtogar sæki ráðstefnuna, enda forðast þeir alþjóðlegar ráðstefnur er gætu leitt til niðurstöðu sem væri langt undir væntingum, sbr. Kaupmannahafnarráðstefnuna í desember 2009. Ekki bætir úr skák að þemu Ríó +20 hafa þótt heldur óspennandi fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta til sín taka í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla.
Til þess að auka aðsókn þjóðarleiðtoga – og þar með pólitískt vægi Ríó +20 – hafa augu manna beinst að lífríki hafsins – hinu bláa hagkerfi – sem er ógnað vegna rányrkju, eyðingu kórala og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk, að viðbættri eyðileggingu strandsvæða og súrnun sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.1
Sú hugmynd að verndun hafsins verði eitt af helstu þemum Ríó +20 nýtur vaxandi stuðnings. Hvort hún dugir til að laða að þjóðarleiðtoga er óvíst á þessu stigi máls, en fyrir 20 árum sóttu 120 þjóðarleiðtogar ráðstefnuna í Ríó. Hvað Ísland varðar er ljóst að enginn forsætisráðherra í sögu lýðveldisins hefur fjallað jafn vandlega um umhverfismál í áramótaávarpi sínu og Jóhanna Sigurðardóttir gerði sl. gamlárskvöld. Borið saman við árið 1992 hefur málflutningur íslenskra stjórnvalda gjörbreyst.2
Afstaða og stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart umhverfisverndarsamtökum hefur tekið afgerandi breytingum frá því fyrir 20 árum. Þær breytingar voru staðfestar í fyrra þegar Alþingi fullgilti Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.3 Read More