Archive for March, 2013

Mar 23 2013

Skandallinn, ropið og ríkið


Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega á Smugunni.

Í leikriti sínu, Stjórnleysingi ferst af slysförum, dregur ítalski absúrdistinn Dario Fo upp alltragíkómíska mynd af stöðu skandalsins og dæmigerðum eftirmálum hans í lýðræðisríkjum. Aðalpersóna verksins — vitfirringurinn svonefndi, dulbúinn sem hæstaréttardómari — bendir á að sé skandalnum einfaldlega leyft að koma upp á yfirborðið og velkjast dálítið um milli tannanna á fólki, gefist því færi á að „fá útrás, reiðast, hrylla við tilhugsunina… ,Hverjir halda þessir stjórnmálamenn eiginlega að þeir séu?‘ ,Úrþvætti!‘ ,Morðingjar!‘ Og svo verður fólk ennþá reiðara og svo, rop! Örlítið, frelsandi rop til að létta undir félagslegri meltingartruflun þess.“

***

Stuttu fyrir útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis á orsökum efnahagshrunsins 2008 fóru höfundar hennar mikinn í fjölmiðlum og vöruðu beinlínis við innihaldi hennar — sögðust hafa tárast við ritunina og mældu með því að almenningur fengi nokkra daga frí frá vinnu til að jafna sig eftir lesturinn. Þáverandi dómsmálaráðherra lét líka í sér heyra, hvatti til stillingar og fullvissaði óttaslegna þegna um að lögreglan væri vel í stakk búin til að bregðast við upplausn þeirri sem mögulega kæmi til í kjölfar opinberrar útgáfu skýrslunnar. Óeirðir lágu í loftinu — í það minnsta var ýjað að slíku. Alltumlykjandi var sú hugmynd að skandallinn væri ein meginorsök samfélagslegrar hreyfingar og umbrots — að hægðir úrþvættanna, sem við það væru að vella upp og flæða loksins ofanjarðar um samfélagið, hlytu bara að koma á stað einhverri hreyfingu.

En skýrslan kom út án varanlegra áhrifa. Vísar klukkurnar hættu ekki að snúast, hversdagurinn er að mestu óbreyttur og hjól atvinnulífsins valta enn sem áður yfir það sem í vegi þeirra stendur. Lesendur skýrslunnar gátu aftur á móti skemmt sér yfir þeirri vitneskju að fyrrum bankastjóri nokkur hafi verið fær um að innbyrgða þjóðarbakkelsið með ótrúlegum hætti — stóran súkkulaðisnúð í einum munnbita. Read More