Saving Iceland Saving the wilderness from heavy industry 2017-04-10T15:35:28Z http://www.savingiceland.org/is/feed/atom/ WordPress friendoficeland <![CDATA[Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar]]> http://www.savingiceland.org/?p=11117 2017-04-10T15:35:28Z 2017-03-07T18:23:38Z Atli Þór Fanndal

Lundúnarlögregla hefur fallist á að greiða sjö konum skaðabætur vegna framferðis flugumannsins Mark Kennedy sem árum saman njósnaði um anarkista og umhverfissinna víðsvegar í Evrópu. Þar líkur kafla í langri sögu þessa furðulega máls. Mark Kennedy njósnaði meðal annars um aðgerðarsinna á Íslandi í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Íslensk lögregluyfirvöld hafa opinberlega haldið því fram að þau hafi enga vitneskju haft um veru hans hér á landi. Þær yfirlýsingar standast ekki skoðun. Ljóst er að lögregla vissi ekki aðeins af Kennedy hér á landi heldur hafði af honum afskipti. Þá kom ítrekað fram í tengslum við Kárahnjúkavirkjun að lögreglu bærust upplýsingar um mótmælendur frá erlendum lögregluyfirvöldum.

Fjallað var um Mark Kennedy í tímaritinu Man magasín í maíhefti árið 2015. Þar var ítarlega farið yfir málið og sýnt fram á hve lítið haldbært er að finna í fjarstæðukenndum yfirlýsingum íslenskra lögregluyfirvalda um málið. Umfjöllun Man er hér endurbirt í heild sinni.

Mark Stone kom hingað til lands árið 2005 í hópi umhverfisverndarsinna. Ætlunin var að taka þátt í mótmælum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hér á landi tók Stone þátt í tveimur beinum mótmælaaðgerðum við Kárahnjúka, í júlí 2005, en fór skömmu síðar af landi brott. Örfáum árum seinna, árið 2010, var Stone afhjúpaður sem Mark Kennedy. Flugumaður á launum hjá Lundúnarlögreglu sem hafði það hlutverk að villa á sér heimildir og njósna um umhverfisverndarhreyfingar og anarkista víða um Evrópu.

Kennedy eyddi sjö árum í leynum meðal umhverfisverndarsinna og anarkista víða um Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi en mest á Bretlandseyjum. Áður en upp um hann komst hafði hann ferðast til allavega 22 Evrópulanda, átti í kynferðissambandi við fjölda kvenna og lögregla hafði meðal annars afskipti af honum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Þau afskipti hafa íslensk löggæsluyfirvöld ekki viðurkennt. Hins vegar benda gögn málsins til að það sé ekki sannleikanum samkvæmt. Þar á meðal eru ljósmyndir af aðgerðum Saving Iceland sem sýna afskipti lögreglu.

Aðgerðir lögreglu

Árið 2008 lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Í henni er sleppt að minnast á mál sem staðfest er að áttu sér stað og voru skráð í málaskrá. Það sem þó kemur fram gefur mynd af þeim aðgerðum sem lögregla stóð fyrir á tímabilinu. 19 mál eru sögð finnast í málaskrá lögreglu. 219 lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Það skal tekið fram að aðgerðirnar eru yfir þrjú sumur og ekki er átt við einstaka lögreglumenn. 83 einstaklingar höfðu réttarstöðu grunaðra. 104 voru handteknir og 14 sviptir frelsi. Leitað var í tjaldbúðum mótmælenda og þær rýmdar. Skýrslan minnist raunar ekki á þetta utan eins atviks þar sem sagt er að fíkniefni hafi fundist. Hið rétta er að pípa fannst og aðgerðirnar voru fleiri en ein. Lögregla neitar fyrir húsleitir og leit í bifreiðum en greinir frá því að hafa fundið búnað til að mótmæla í bílum ferðalanga. Myndbandsupptaka er til af lögreglurassíu í tjaldbúðum mótmælenda þar sem ítrekað var neitað að sýna leitarheimild. Tilraun var gerð til að vísa fjölda fólks úr landi og ferðamenn spurðir út í stjórnmálaskoðanir þeirra við komuna hingað til lands. Það er viðurkennt í skýrslunni.

Gleneagles

Í júlí 2005 var fundur G8 ríkjanna haldinn í Gleneagles í Skotlandi. Staðfest er að Mark Kennedy var þar en kom til Íslands skömmu síðar vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þá þegar hafði Kennedy starfað í leynum meðal umhverfissinna í um tvö ár. Til Íslands kom hann í hópi aðgerðarsinna sem komu til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn byggingu Kárahnjúka.
„Á þessum tíma er stóriðjustefnan í einskonar helreið um allt hálendi Íslands,“ segir Ólafur Páll Sigurðsson, hvatamaður að tjaldbúðum Saving Iceland. „Andstaða náttúruverndarsinna á Íslandi hafði hálfpartinn verið brotin á bak. “ – Hvernig þá? „Flestir voru örmagna eftir baráttuna um björgun Eyjabakka,“ segir Ólafur. „Kárahnjúkavirkjun var greinilega orðin óstöðvandi þannig að fólk var orðið vonlítið. Út frá mínum bæjardyrum séð var samt alls ekki hægt að gefast upp. Það varð að berjast gegn þessari virkjun þó ekki væri nema út af síðari tímum, öllum hinum virkjununum sem voru áformaðar. Það var einfaldlega ekki hægt að leggja bara skottið aftur á milli lappanna. Ég kallaði því út lið frá útlöndum, þannig að meirihlutinn voru útlendingar í þessum fyrstu mótmælabúðum. Það hljóp auðvitað dálítið fyrir hjartað á þjóðernissinnuðum Íslendingum,“ segir Ólafur. Hann segir lögreglu hafa sýnt mótmælendum einstaka vanvirðingu. Þau hafi verið áreitt og meðferð hafi almennt verið slæm og mótuð af fyrirlitningu lögreglu. „Það fór samt auðvitað eftir einstaklingum hvað heiftin gagnvart okkur var mikil. Hún var kannski mest meðal þeirra sem voru hæst settir í lögreglunni.“

Fátt um svör

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og þáverandi innanríkisráðherra, óskaði árið 2011 eftir upplýsingum lögreglu um málefni Kennedy. Í skýrslunni [sjá greiningu Saving Iceland á skýrslunni og viðbrögðum ráðherra hér] kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna. Þá segir í túlkun ráðherra á skýrslunni að: „Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar. Embættið leggur jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.“

Upplýsingar erlendis frá

Morgunblaðið fjallaði í apríl árið 2005 um „ráðstefnu herskárra anarkista í Skotlandi.“ Vitnað er til fréttar Sunday Times þar sem vitnað var til tveggja Íslendinga, þar á meðal Ólaf, sem blaðamaðurinn hitti aldrei, auk Rúnars Guðbrandsson, leikstjóra, sem var á fundinum. „Tveir Íslendingar voru meðal hóps herskárra anarkista í Skotlandi sem héldu nokkurra daga ráðstefnu um síðustu helgi til þess að skipuleggja mótmælaaðgerðir sem eiga að skapa glundroða á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í júlí [2005],“ segir í frétt Morgunblaðsins. Fundurinn var liður í skipulagningu G8 mótmælanna í Gleaneagle. Í frétt Times segir að á fundinum hafi Íslendingarnir verið til að skipuleggja mótmælaaðgerðir gegn vatnsaflsvirkjun næsta sumar af fullri alvöru, og sagði að þeir hefðu mætt á þennan fund til þess að læra hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Greinin vakti töluverða athygli í Bretlandi líka enda fjallaði hún að mestu um væntanleg mótmæli vegna G8 fundarins í Skotlandi. „Þetta er bara einhver della,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að þetta hafi fyrst og fremst verið forvitni og fræðilegur áhugi sem hafi hvatt hann til þess að sækja ráðstefnuna.
Að auki virðist lögreglan hér á landi hafa fengið uplýsingar í gegnum samstarf sitt við lögregluna í Bretlandi. Í grein sinni Spellvirkjar og mótmælendur, sem birtist árið 2006 í Lögreglublaðinu, ári eftir veru Kennedy hér á landi, skýrir Gísli Jökull Gíslason, þáverandi ritstjóri blaðsins, frá þessum tengslum: „Vegna reynslu frá því í fyrra þá var samstarf á milli íslensku og bresku lögreglunnar en starfsbræður okkar í Englandi hafa mikla reynslu af slíkum aðgerðum og hafa þróað með sér skilvirkar starfsaðferðir. Höfðu þeir líka haft fréttir af því í Englandi að framkvæmdir á Íslandi höfðu vakið athygli á meðal herskárra hópa spellvirkja.“
MAN óskaði upplýsinga hjá lögreglu um málefni Mark Kennedy hér á landi. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn endaði símtal við blaðamann skyndilega er Mark Kennedy bar á góma og óskaði fyrirspurnar í tölvupósti. Rúmri viku síðar var fyrirspurn blaðsins svarað með hlekk í nýlegt svar lögreglu við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2014. Efnislega er svarið hið sama og Ögmundur fékk árið 2011.

Nýjar upplýsingar

Ýmislegt hefur þó verið upplýst um starfsemi Mark Kennedy síðan 2011. Breskir græningjar hafa staðið í ströngu á vettvangi breska þingsins og í borgarstjórn London við að falast eftir upplýsingum frá lögreglu vegna njósna um aðgerðarsinna. Upplýst hefur verið að lögregludeildin sem Mark Kennedy tilheyrði njósnaði meðal annars um þingmenn og kjörna fulltrúa græningja. Þá hefur Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, lagt mikla vinnu í að upplýsa mál Kennedy í heimalandinu. Árið 2013 kom út bókin Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem fjallar um málefni breskra leynilögreglumanna og þá sérstaklega Mark Kennedy. Í bókinni má finna upplýsingar um aðgerðir Kennedy hér á landi. Þá kemur fram að hann kom hingað til lands með ‘Megan’ sem var kærasta hans til lengri tíma. Megan taldi ávallt að hún væri í sambandi með aðgerðarsinnanum Mark Stone. Í sömu bók kemur fram að hann hafi átt í samskiptum við aðrar konur, þar á meðal á Íslandi. Þetta var staðfest af fjölda viðmælenda blaðsins. Ögmundur Jónasson sagði í samtali við MAN að hann hefði sem ráðherra heyrt sögur af kynferðissambandi Kennedy við aðra mótmælendur á Íslandi. Enginn hafi hins vegar gefið sig fram eða kært slíkt atvik á Íslandi. Í desember árið 2011 hófu átta konur málaferli gegn breskum yfirvöldum vegna þessa. Kennedy er ekki eini breski leyniþjónustumaðurinn sem um ræðir. Dæmi er um konur sem ólu mönnunum börn og áttu í löngu sambandi við flugumenn áður en þeir hurfu. Mikilvægt er þó að bresk yfirvöld hafa viðurkennt að Mark Kennedy var njósnari á þeirra vegum. Íslenska lögreglan ætti því að geta aflétt eigin trúnaði.

Höfðu afskipti af Kennedy

Þrátt fyrir loðin svör íslenskra lögregluyfirvalda er ljóst að lögreglan hafði afskipti af Kennedy hér á landi. Nokkur fjöldi mynda (smellið á myndirnar til að stækka þær) er til af Kennedy hér á landi. Sumar eru úr hans eigin fórum en hann deildi þeim með öðrum aðgerðarsinnum. Þar á meðal mynd sem tekin var 14. júlí árið 2005, skömmu eftir að hann kom til landsins. Um tveimur vikum síðar tók Kennedy þátt í aðgerðum við Kárahnjúka þar sem aðgerðarsinnar hlekkjuðu sig við vinnuvélar. Stafrænar myndavélar skrá svokallað ‘metadata’ á allar myndaskrár. Meðal þeirra upplýsinga sem finna má í ljósmyndaskrám eru upplýsingar um tegund myndavélar, ljósopsstillingu ásamt dagsetningu og tíma þegar mynd var tekin. Tvær ljósmyndir vekja sérstaka athygli séu þessar upplýsingar skoðaðar. Annars vegar mynd þar Kennedy sést hlaupa að stjórnklefa vinnutækis og svo mynd þar sem Mark Kennedy er ásamt tveimur lögreglumönnum. Tímastimpill myndanna sýnir að þær eru teknar með aðeins nokkurra mínútna millibili, þann 26. júlí 2005. Það er sami dagur og seinni aðgerðir Saving Iceland voru á Kárahnjúkum.

Kennedy gaf lögreglunni falleinkun

Ítarlega lýsingu er að finna á aðgerðum Saving Iceland þennan dag í bókinni, Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem og í bækling sem gefinn var út af Saving Iceland samtökunum. Þar skrifar meðal annars Mark Kennedy sjálfur um eigin reynslu.

Hann segir minnstu hafa munað að alvarlegt slys hefði orðið vegna gáleysis lögreglumanna sem hvatt hafi starfsmann til að ræsa risavaxið vinnutæki sem hópur aðgerðarsinna var tjóðraður við. „Lögreglan skipaði verkstjóra að segja bílstjóra að ræsa vél vinnuvélar sem mótmælendur höfðu tjóðrað sig við,“ skrifar hann og bætir við að vélin sem um er að ræða sé Volvo A35D, risavaxið tæki. Hann lýsir því hvernig hann óttaðist að tækið myndi hrökkva í gír og taka rikk með hóp fólks tjóðrað við vélina. „Aðgerðir lögreglu á tímabilinu voru reknar áfram af vanþekkingu og algjöru sinnuleysi gagnvart öryggi fólks.“ Fjöldi vitna sem blaðið ræddi við staðfesta að Kennedy sjálfur hljóp upp að stjórnklefa vinnuvélarinnar, reif lykla úr startara og kastaði út, frá vélinni. Það er í samræmi við ljósmyndir af atvikun. Í bókinni Undercover segir frá því að Kennedy hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu vegna þess að Megan, kona sem hann átti í löngu kynferðissambandi við, var tjóðruð við vinnuvélina og hann óttaðist að hrykki vélin í gírinn lifði hún það ekki af. Kennedy brást ókvæða við. Til ryskinga kom á milli hans og lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglu af honum. Kennedy var leiddur á brott af tveimur lögreglumönnum með hendur fyrir aftan bak. Þetta staðfestir önnur ljósmynd.

Lögreglan sem ekkert veit

Í skýrslu lögreglu til dómsmálaráðherra er fjallað um mál 026-2005-000712, 26. júlí árið 2005, sama dag og myndirnar af Kennedy eru teknar. Ein frelsisvipting og þrjár handtökur eru sagðar hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðirnar. Annarsstaðar er því haldið fram að erlendir ríkisborgarar hafi alla jafna verið beðnir um vegabréf og þau ljósrituð. Það vekur því furðu að maðurinn sem þekktur var sem Mark Stone, hafi alla tíð sloppið við þessa skráningu. Árið 2007 ferðaðist Kennedy til Berlínar og heimsótti umhverfisverndarsinna þar í borg. Komið hefur fram, í svörum við fyrirspurnum Hunko, í þýska þinginu að til landsins hafi Kennedy, í einhverjum tilfellum, komið með samþykki þýskra lögregluyfirvalda. Í Berlín var Mark Stone handtekinn fyrir að kveikja í gámi. Stone samdi um að greiða sekt og fór því ekki fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli í Þýskalandi sökum þess að málareksturinn fór allur fram gegn Mark Stone, ekki Kennedy. Þýsk yfirvöld kannast þó ekki við að hafa heimilað allar ferðir Kennedy til landsins.

Annar maður á myndinni

Samtökin Saving Iceland héldu því fram strax árið 2011 að maðurinn sem sést á myndunum sé Mark Kennedy. Því hefur lögreglan hins vegar alfarið neitað. „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka,“ hafði Morgunblaðið eftir lögreglunni. Sú skýring er satt best að segja ekki mjög trúverðug. Líkindi mannsins eru augljós. Þá hafa myndir úr fórum hans birst í erlendum miðlum þar sem hann er í sömu fötum. Vert er að benda á að Kennedy var að meðal annars á Íslandi við það sem kallast ‘legend building’, það er að byggja upp ímynd sína og skapa tengsl. Þátttöku sína í aðgerðum á Kárahnjúkum notaði hann svo til að komast í samband við aðrar hreyfingar í Evrópu.

Þjóðaröryggisdeild lögreglu

Kennedy starfaði á vegum leynilegrar deildar sem ber heitið National Public Order Intelligence Unit. Þótt opinber vitneskja sé um deildina er mikil leynd yfir störfum hennar. Í febrúar árið 2013 skrifaði Andrej Hunko bréf til Damian Green, ráðherra lögreglu og dómsmála í innanríkisráðuneyti Bretlands, Home office. Þá hafði þegar verið greint frá Mark Kennedy ásamt fleirum leynilögreglumönnum NPOI. Þrátt fyrir það viðurkenndu bresk yfirvöld aðeins hluta af ásökunum sem borin eru á þau. Þar á meðal er þó sú staðreynd að Kennedy var á þeirra vegum og ferðaðist víða erlendis. Nú hefur Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, kallað eftir umræðu um stofnun íslenskrar öryggisdeildar sem hefði forvirkar rannsóknarheimildir. Í þeirri umræðu er meðal annars byggt á skýrslu sem unnin var fyrir Björn Bjarnason, árið 2006, það er á þeim tíma sem aðgerðir lögreglu vegna mótmæla við Kárahnjúka átti sér stað. Sú skýrsla kveður á um forvirkar rannsóknarheimildir til handa lögreglu. Það vekur um leið spurnir hvaða heimildir lögregla taldi sig vinna eftir þegar almennir ferðamenn voru spurðir út í stjórnmálaskoðanir sínar á byggingarárum Kárahnjúkavirkjunar.

Náið samstarf við Breta

Í svari lögreglu við fyrirspurn Ögmundar um starfsaðferðir lögreglu og samstarf við erlendar löggæslustofnanir kemur fram að lögreglan eigi í samstarfi við Lundúnalögregluna, Metropolitan Police, sem haldi úti formlegum tengslafulltrúum við lögregludeildir á Norðurlöndum. Mark Kennedy starfaði fyrir Lundúnarlögregluna sem NPOI fulltrúi. Náttúruverndarsamtök hafa gagnrýnt að svo virðist sem þau séu af hálfu lögreglu flokkuð með alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. „Sá sem les skýrslu ríkislögreglustjóra velkist ekki í neinum vafa um að náttúruverndarsamtök eru þar flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi,“ skrifaði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, árið 2011 eftir að skýrslan kom út. „Það er líka í anda þess þegar ráðist var í heræfingar á miðhálendi Íslands gegn hinum ímyndaði óvini: Umhverfisverndarsamtökum.“ Þar vitnar Árni til þess að á árunum fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar voru haldnar heræfingarnar Norður-Víkingur hér á landi. Árið 1999 birtist hryðjuverkaváin í formi umhverfisverndarsinna.

Alltaf neitað

Lögreglan hefur alltaf neitað að hafa átt í samskiptum við Mark Kennedy eða gefið í skyn að þeir hafi ekki gögn til að meta hvort, og þá hvernig, Kennedy var hér með vitund lögreglu. Þá hefur trúnaður verið borinn fyrir þegar kemur að samstarfinu við erlendar lögreglustofnanir. Í skýrslu lögreglu til innanríkisráðherra um Mark Kennedy árið 2011 segir: „Gerðar eru strangar kröfur hvað varðar miðlun, vörslu og notkun slíkra upplýsinga. Algjört lykilatriði er að traust og trúnaður ríki í þeim samskiptum.“ Þetta virðist þó aðeins eiga við um Ísland en bæði írsk og þýsk lögregluyfirvöld hafa af beiðni þingsins viðurkennt, að hluta, vitneskju um Kennedy. Þá hafa jafnvel bresk yfirvöld viðurkennt tilvist Kennedy á þeirra vegum.

Á ferð um Evrópu

Árið eftir nýtti því Kennedy sér þátttöku sína til að komast í tengsl við fólk víða um Evrópu. Ólafur Páll Sigurðsson kynnti málstaðinn víða í Evrópu og var Kennedy einn bílstjóra í slíkri ferð. Fjallað er um ferðalagið í bókinni Undercover þar sem segir að aðgerðasinnarnir hafi almennt haft lítið milli handa og tjaldað eða gist í yfirgefnum byggingum. Það átti hins vegar ekki við um Mark Kennedy sem borðaði á fínum veitingahúsum og lifði almennt í lúxus samanborið við aðra í hópnum. Þetta vakti að sögn Ólafs athygli fólks í hópnum. Ólafur var beðinn um að skrifa grein um aðgerðirnar við Kárahnjúka en Kennedy bauðst til að skrifa þá grein. Það gerði hann undir nafninu ‘Lumsk.’ Kennedy sagði að Lumsk vera nafn norskrar hljómsveitar sem væri í uppáhaldi hjá honum. Ólafur segist hafa bent honum á að orðið þýddi lúmskur á íslensku eða ‘duplicitous’ á ensku. Í bókinni kemur fram að Kennedy hafi verið brugðið. Þegar til Spánar var komið var Ólafur, samkvæmt lýsingum í bókinni, orðinn óþolinmóður gagnvart Kennedy. Þá þegar var Ólafur álitinn stórhættulegur róttæklingur á Íslandi. Aðgerðir Saving Iceland við Kárahnjúka eru róttækar á íslenskan mælikvarða. Kennedy hóf að tala upp harkalegri og öfgafyllri aðgerðir.

Agent provocateur

Ólafur telur að Kennedy hafi verið að reyna að planta hugmyndum um harðari aðgerðir í koll umhverfisverndarsinna. Hann lýsir því hvernig Kennedy hefði í raun hvatt Ólaf til hryðjuverka og bauðst til að útvega honum ‘very heavy people’ sem væru til í slíkar aðgerðir. Í bókinni segir Ólafur: „Það er flott að þú þekkir þetta fólk Mark en ekki koma með þau til mín. Hvað íslensku lögregluna varðar þá er ég nú þegar Bin Laden.“ Ásakanir um að Mark Kennedy hafi starfað sem ‘agent provocateur’ og þrýst á harðari og rótttækari aðgerðir hafa ítrekað komið fram. Alvarlegast er þó ef til vill mál Ratcliffe-hópsins. Umhverfisverndarsinnar voru handteknir og dregnir fyrir dóm vegna gruns um að hafa skipulagt yfirtöku á raforkuveri. Kennedy var meðal aðgerðarsinna á Ratcliffe-mótmælunum en málinu var vísað frá dómi. Þáttur Kennedy í skipulagningu málsins var svo mikill að málinu var vísað frá. „Við erum ekki að tala um mann sem sat aftarlega á fundum og tók glósur,“ sagði Danny Chivers, einn sakborninga, við breska blaðið Guardian, skömmu eftir að málinu var vísað frá.

Góður vinur Stone

Jason Kirkpatrick taldi Mark Stone til vina sinna og átti þátt í að kynna hann fyrir vinstrisinnuðum aðgerðarsinnum í Berlín. Áður en Kirkpatrick settist að í Berlín sat hann í bæjarstjórn smábæjarins Arcata í Kaliforníu og var um tíma aðstoðarbæjarstjóri. Hann hefur því alltaf tekið þátt í stjórnmálum og grasrótarstarfi. Kennedy gisti oft hjá Kirkpatrick og hann taldi þá góða vini. „Ég áleit hann góðan vin minn og hann sagði það sjálfur. Núna geri ég mér grein fyrir því að þetta er það sem hann sagði við alla. Ég skil núna að þetta er aðferð sem leynilögreglumönnum er kennt að nota. Aðferðin heitir að spegla [e. Mirroring]. Hún virkar þannig að ef þú segist elska kántrýtónlist, þá elskar hann kántrýtónlist.“ Kirkpatrick er enn með samviskubit yfir að hafa kynnt Kennedy fyrir fjölda fólks ómeðvitaður um hvaða mann hann hafði að geyma. Hann segist þó aðeins hægt og rólega vera að átta sig á afleiðingunum. „Það eru núna fjögur á hálft ár síðan ég komst að þessu. Fyrst var ég reiður, fannst ég svikinn, en mest var ég reiður. Ég vissi nefnilega að hann hefði farið verr með vinkonu mína en mig. Ég einbeitti mér að því að sýna henni stuðning.“ Mál Mark Kennedy var til umfjöllunar í þýska þinginu nýlega. Þar er enn leitað svara um hvers vegna hann var á svæðinu, í umboði hvers og hvaða leiðir fólk sem brotið er á geti nýtt til að leita réttar síns. „Satt að segja þá hafði ég ekki tíma til að gúggla þig eftir að þú hafðir samband,“ segir Kirkpatrick við blaðamann MAN. „Þetta er dæmi um afleiðingar málsins en ég er hægt og rólega að leyfa mér að hugsa um afleiðingarnar. Ég treysti engum. Einhver gaur frá Íslandi hefur samband og segist vilja tala við um um málið. Fyrsta sem ég hugsa er hvort þú sért í alvörunni blaðamaður eða ertu kannski bara lögga að njósna um mig,“ segir hann.

Vænissýki þeirra sem njósnað er um

Kirkpatrick segist óttast að íbúðin hans verði hleruð eða að fólk sé að nálgast hann til að afla upplýsinga. Hann bendir á að Kennedy hafi verið undir fölsku flaggi í sjö ár. Það sé ótrúlega langur tími. „Sumir myndu eflaust kalla mig vænissjúkan en það hefur verið njósnað um mig. Vænissýki er órökstudd hræðsla en mín lögregluskrá sýnir svart á hvítu að um mig er njósnað.“ Hann sýnir mér möppu með upplýsingum um hann. Mappan er fengin með beiðni til þýskra yfirvalda. Fullan aðgang fékk hann ekki, aðeins útdrátt. Athygli vekur að í skýrslunni eru ferðir hans skráðar jafnvel eftir að ljóstrað var upp um Kennedy. Í möppunni er að finna upplýsingar um að hann hafi mætt á opinbera stjórnmálafundi, rætt við blaðamenn og flutt ræður. Ekkert ólöglegt er að finna. Allt er innan ramma réttarins til stjórnmálaþátttöku.

Til hvers?

Í Bretlandi hefur það vakið undrun að enginn virðist hafa verið dæmdur sökum upplýsinga frá Kennedy. Þrátt fyrir sjö ár í felum og ferðalög þvert á álfuna eru engin merki þess að glæpir hafi verið stöðvaðir eða upprættir, aðeins að stjórnmálaskoðanir fjölda fólks hafi verið ítarlega skráðar. Þrátt fyrir gríðarlegar aðgerðir íslenskra lögregluyfirvalda, langvarandi eftirlit og fjölda sakfellinga er málarekstur gegn mótmælendum iðulega vegna óhlýðni við lögreglu. Það virðist því aldrei hafa vaknað sú spurning hvort aðgerðirnar séu á ásættanlegum skala miðað við þau brot sem óttast var að yrðu framkvæmd. Meðalhófsreglan á að tryggja almenningi að aðgerðir lögreglu fari ekki langt út fyrir hófsemd og séu í samræmi við meint brot.

Efast ekki um vitneskju lögreglu

„Ég hafði grunsemdir um að það hefðu verið lögreglumenn sem hefðu farið inn í raðir mótmælenda við Kárahnjúka,“ segir Ögmundur Jónasson aðspurður hvers vegna hann hafi sem innanríkisráðherra kallað eftir skýrslu um aðgerðir lögreglu og samskipti við Mark Kennedy. Ögmundur telur að markmið þess að senda leynilögreglumenn í raðir aðgerðarsinna hafi verið að trufla og sverta þá sem stóðu í mótmælum. Auk þess myndu þeir gefa upplýsingar til lögreglu. „Ég vildi fá það frá lögreglunni hvernig þessu samstarfi hefði verið háttað,“ segir Ögmundur. Hafa ber í huga að breska lögreglan og sú þýska og eflaust fleiri stunduðu það að elta hópa sem létu til sín taka í mótmælum víðs vegar um Evrópu og víðar, koma flugumönnum inn í raðir þeirra til að njósna um þá og ekki síður hitt að hvetja til aðgerða sem væru ólöglegar og lítt til vinsælda fallnar. Frumkvæði í þessu efni og hugsanlega öll framkvæmd gæti einvörðungu hafa verið erlendis frá. Hins vegar var lögreglan á Íslandi hugsanlega með í vitorði og fékk í öllu falli, líkt og kom fram í skýrslunni, upplýsingar sem voru fengnar með þessum hætti. Ögmundur var á þessum tíma harðlega gagnrýndur fyrir að vilja rýmka forvirkar rannsóknarheimildir og jafnframt var hann gagnrýndur fyrir að ganga ekki harðar fram til að knýja fram nákvæmlega hvað lögreglan hefði aðhafst og nafngreina hlutaðeigandi. Á þessum tíma voru til staðar leiðbeinandi reglur ríkissaksóknara um notkun slíkra aðgerða. Fjallað er um notkun flugumanna við sakamálarannsóknir hér á landi í skýrslu dómsmálaráðuneytisins frá árinu 1999. Skilyrði notkunar flugumanna samkvæmt reglugerðinni sem sett var árið 2011 í kjölfar Kennedy málsins er að rannsaka verði brot sem varðar meira en átta ára fangelsi með nokkrum undantekningum sem sérstaklega eru teknar fram. Þar á meðal eru kynferðisbrot á borð við vændi og nettælingu sem beinist að börnum, auðgunarbrot og fíkniefnabrot. Þá er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarúrræðunum megi beita gegn skipulagðri glæpastarfsemi en við henni sem slíkri liggur fjögurra ára fangelsi. Ögmundur var gagnrýndur fyrir að rýmka heimildir lögreglu með reglugerðinni. Þessu andmælir hann. „Það er grundvallarmisskilningur. Reglugerðin byggir á sakamálalögum sem sett voru árið 2008, en þar er sérstaklega lagt til að setja reglur um notkun flugumanna, að tillögu ríkissaksóknara. Drögin sem ég fékk upphaflega í hendur voru mun rýmri og hefðu ekki tekið á því sem átti sér stað við Kárahnjúka. Ég taldi að draga þyrfti lærdóm af þessu máli og gerði viðeigandi breytingar, til dæmis að miða við átta ára fangelsi en ekki sex ára fangelsi og að kveða á um sérstakt samþykki ríkissaksóknara. Ennfremur kveður reglugerðin á um að lögreglumenn megi ekki stofna til kynferðislegra eða tilfinningalegra sambanda í samskiptum eins og þessum, en breska lögreglan hafði sent lögreglumenn inn í svefnherbergi mótmælenda til að safna upplýsingum. Hvað varðar opnun á forvirkar rannsóknir þá vísa ég í frumvarp sem ég lagði fram haustið 2012 en náðu því miður ekki fram að ganga. Þar voru stórlega þrengdar heimildir til rannsókna og kom fram hörð gagnrýni frá ýmsum innan lögreglunnar og á Alþingi sem vildu hafa sem rýmstar heimildir. Hvað skýrsluna sem ég lét gera um Kárahnjúka áhrærir þá var hún mjög mikilvæg því hún staðfesti að íslenska lögreglan hafði fengið upplýsingar frá erlendum lögregluliðum og þar með upplýsingar sem safnað var með notkun flugumanna.“

Staðfesta hvorki né neita

Jenny Jones, fulltrúi í borgarráði London fyrir Græningjaflokkinn er meðal breskra stjórnmálamanna sem leitað hafa svara frá lögregluyfirvöldum yfir eftirlit með umhverfisverndarsinnum. Um tíma var Jenny á eftirlitsskrá Lundúnarlögreglu en hún hefur ekki vitneskju um að fylgst hafi verið með henni af hálfu leynilögreglumanna. „Okkur, í flokki Græningja, grunar að lögreglan stundi enn eftirlit með fólki, sérstaklega kjörnum fulltrúum eins og mér,“ segir Jones. „Þrátt fyrir niðurlæginguna sem lögreglan hefur mátt þola undanfarið þá virðast þeir ekki hafa hætt. Það er um leið ótrúlega erfitt að fá nokkur svör. Alltaf kemur lögreglan aftur með svar um að allt sé þetta í þágu þjóðaröryggis og það virðist engin leið að komast framhjá því.“ Eftirlit lögreglu með Jones hófst eftir að hún tók sæti í stjórnsýslunefnd sem sinna á eftirliti með störfum lögreglu. „Satt best að segja þá var eftirlitið með mér frekar aumkunarvert. Þeir tóku saman einhverjar upplýsingar um mín störf en ekkert sérstaklega viðkvæmt. Vandinn er sá að ég veit bara það sem þeir segja mér. Hugsanlega er meira í gangi.“ Hún segir fáar hömlur virðast á lögregluyfirvöldum í Bretlandi. „Við vitum satt að segja ekki skala njósnaaðgerða lögreglu,“ segir Jones. „Þær eru mögulega tröllauknar og lögreglan virðist alltaf halda þeim áfram þrátt fyrir að upp um þá komist.“

Fátæk, útlensk og illa lyktandi

Í greininni Spellvirkjar og mótmælendur, sem fjallað er um að ofan, sést líklega furðulegasta birtingarmynd andúðar lögreglu á mótmælendunum. Í greininni er því lýst hve illa lyktandi mótmælendur eru, skrýtin og illa til fara. Þau eigi litla peninga og veki almennt ónæði. “Ætli maður græði mikið á því að vera atvinnumótmælandi” spurði ungur Reyðfirðingur okkur. “Nei, þú hefur að minnsta kosti ekki efni á sápu, svaraði félagi minn,“ segir í greininni. „Þá einkenndi það hópinn að þau höfðu litla peninga handanna á milli og önnur háttsemi þeirra svo ekki sé minnst á spellvirkin vöktu litla hrifningu heimamanna. Þau sáust gramsa í rusli fólks til að leita að einhverju ætilegu, stálu afgöngum af borðum í söluskálum og við það bættist að þau voru skítug, illa lyktandi og illa til höfð. Sennilega passaði það inn í þeirra lífstíl og hugsjónir en það má segja að flestir aðrir hafi viljað sjá þau fara eitthvert sem lengst í burtu.“ Gísli er ósáttur við þá tilhneigingu fjölmiðla að tala um mótmælendur í sömu andrá og Saving Iceland hópinn. „Fjölmiðlar hafa kallað það fólk mótmælendur en það er sorglegt að nota sama orð yfir alla sem eru á móti framkvæmdunum. Þeir sem mótmæla í sátt við lög eru mótmælendur en þeir sem einsetja sér með ásetningi að raska starfsemi eru ekki mótmælendur í þeim skilning. Hér eftir kýs ég að kalla þá spellvirkja.“ Þá fer það mikið fyrir brjóstið á honum að erlendir aðilar komi hingað til að mótmæla. „Venjulegt fólk fer ekki í tjaldferðalag og þyngir sig með rörum, reiðhjólalásum (sérstaklega ef það er ekki með reiðhjól), rörhólkum og keðjum. Best þótti mér þó þegar hópur manna minntist Jóns forseta og að við værum þjóð hans sem sagði “Vér mótmælum”. Sömu menn kusu að gleyma að hann var að mótmæla íhlutun útlendinga í íslensk málefni og það var nákvæmlega það sem var að gerast.“ Við lestur greinarinnar er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort lögreglumenn deili almennt þessari sýn Gísla á fólki sem talið er skrýtið eða utan meginstrauma. Um leið er eðlilegt að spyrja hvort slík þröngsýni sé til þess fallin að skekkja dómgreind lögreglunnar til að bregðast við í hlutfalli við meint brot.

Við vinnslu umfjöllunarinnar var blaðamanni veittur aðgangur að fjölda ljósmynda, myndbandsupptaka og skjala í fórum aðgerðarsinna auk þess að hafa rætt við aðgerðarsinna á Íslandi, Bretlandi og Þýskalandi sem og kjörna fulltrúa í löndunum þremur. Lögregla sýndi litla samvinnu en byggt er á skýrslum og svörum lögreglu sem þegar hafa verið birtar. Upplýsingar í þeim eru ófullnægjandi og stangast á við önnur gögn. Lögreglan gaf ekki færi á sér til að svara spurningum um misræmi á gögnum lögreglu og mótmælendana.

Greinar um Mark Kennedy á íslensku.

Greinar um Mark Kennedy á ensku.

]]>
2
friendoficeland <![CDATA[Ál-land]]> http://www.savingiceland.org/?p=10147 2017-03-04T15:37:51Z 2014-10-26T14:18:49Z Inga M. Beck

Þann 15. mars árið 2003 komu saman nokkrir mikilvægir ráðamenn Íslendinga ásamt erlendum viðskiptamönnum til að skrifa undir samninga. Það gerðu þeir í litlum skreyttum íþróttasal úti á landi undir vökulum augum myndavéla, fréttamanna og eflaust meirhluta bæjarbúa. Ég og mín fjölskylda vorum ekki á meðal áhorfenda.

Ég ólst upp á litlum sveitabæ við lítið þorp á litla Íslandi. Ég hafði lítinn áhuga á því sem gerðist utan minna heimahaga. Pólitík var eitthvað sem maður pældi aðeins í eftir fimmtugt.  Mínir draumar voru smábæjardraumar. Ég elskaði sveitina mína og ég elskaði smábæinn minn, fólkið þar og tilveru okkar allra. Mig dreymdi um að eiga litla verslun þar sem konurnar í bænum gætu keypt sér garn og efni og allskonar föndurdót. Þar vildi ég líka hafa örlitla saumastofu þar sem ég gæti saumað falleg ný föt úr gömlum eða hjálpað þeim sem ekki voru lagnir í höndunum að gera við föt. Mig langaði líka að eiga bókabúð, bókasafn eða lítið smíðaverkstæði þar sem ég gerði við gömul falleg húsgögn frekar en að smíða ný. Mig langaði að fara á sjó, eiga hund, vinna í frystihúsinu, vera hestamaður og eignast kannski, þegar ég kysi að verða fullorðin, eina stelpu sem gæti skyrpt lengra en allir strákarnir í bekknum, gengi í gúmmístígvélum og tæki í lurginn á stríðnispúkum. Peningar voru aukaatriði, ég hafði jú alltaf unnið fyrir mínum mat og þaki yfir höfuðið, gengið í fötum af eldri systkinum mínum og fermingargreiðsluna borgaði ég fyrir með eggjum. Mér datt aldrei í hug að ég þyrfti að eiga peninga því samkvæmt foreldrum mínum voru þeir hvort eð er aldrei til, en samt virtumst við hafa það fínt.

Í mínum augum, sem horfðu enn gegnum filmu áhyggjulausrar æsku, voru allir sáttir við sitt hlutskipti. Það var fullt að gera: við vorum með bræðslu og frystihús, skóla, tónlistarskóla, smíðaverkstæði, vélaverkstæði, bifvélaverkstæði, matvöruverslun – meira að segja tvær –, apótek, tvær sjoppur, bókabúð og bókasafn, íþróttahús þar sem hægt var að fara í heita pottinn allan ársins hring og sund á sumrin, við höfðum kirkjukór, leikfélag og allskonar félagsstarf – að minnsta kosti leiddist mér aldrei – og oft voru settir upp markaðir með föt og geisladiska í félagsheimilinu. Ég man líka eftir því þegar Gylfi Ægisson setti upp málverkasýningu þar. Við höfðum kennara, sjómenn, ljósmóður, tannlækni, bændur, hestamenn, allskonar karla og konur og allskonar störf og allskonar fyrirtæki þar sem hægt var að syngja fyrir nammi á öskudaginn. Við vorum meira að segja ekki aðeins með einn heldur tvo framhaldsskóla í nágrenninu. Mér datt aldrei í hug að bærinn minn og fólkið þar þyrfti álver.

Já, litli bærinn minn var Reyðarfjörður og í litla leka íþróttahúsinu var skrifað undir samning um álversbyggingu, eftir margra ára umræðu.

Þó að faðir minn væri einn harðasti andstæðingur álvers á svæðinu fór upphaf umræðunnar að mestu framhjá mér. Mig rétt rámar í eitthvert tal um vonbrigði yfir Norsk Hydro og man eftir bílnum sem Helgi Seljan yngri og félagar máluðu með stöfunum xÁ þegar leið að kosningum eitt sinn. Þeir höfðu stofnað Biðlistann, þreyttir á því að bíða endalaust eftir einhverju álveri, vildu leita annarra leiða til uppbyggingar. Þeir voru svo gott sem einir um það. En meðan tíminn leið og umræður héldu áfram varð mér smám saman ljóst hvað þetta þýddi, hvað var á seyði. Ég hlustaði á einræður föður míns meðan hann hlustaði á útvarps- eða sjónvarpsfréttir. Ég man eftir því hvar hann lýsti með háum rómi og mikilli innlifun spillingu og þröngsýni, skorti á framtíðarsýn og skynsemi og kannski fyrst og fremst vanvirðingu við náttúruna.

Ég held hann muni aldrei líða mér úr minni þessi dagur, dagurinn sem Landsvirkjun, „Íslenska ríkið“ og Alcoa á Íslandi skrifuðu undir samninga og um leið – án þess að ég vissi það þá – undir dánarvottorð æskudrauma minna.

Ég man að faðir minn, reiður yfir þessum svikum, dró fána í hálfa stöng og fór út að dreifa skít á túnin, hænsnaskít sem sterkasta og versta lyktin var af, í von um að golan myndi dreifa fnyknum yfir hvítflibbana og aurapúkana – en vindáttin var honum ekki hliðholl þann daginn, þó að við hefðum gætt hennar öll þessi ár með litlu veðurathugunarstöðinni okkar. Svikin voru alger, úr öllum áttum. Um kvöldið var skotið upp flugeldum í fagnaðarskyni, óvirðing fannst mér við syrgjendur, en við vorum fá. Meira að segja ég, sem hafði alla tíð elskað að sitja úti við glugga og fylgjast með flugeldum, dró gardínurnar fyrir og hækkaði í sjónvarpinu í von um að drekkja hávaðanum.

Ég veit að á þessum tíma átti allt að breytast til batnaðar hjá okkur fyrir austan. En það sem ég man eftir er þegar bræðslunni var lokað, þegar frystihúsið lagði upp laupana, þegar engin skip virtust lengur koma í fjörðinn og þegar gamla góða kaupfélagið vék smám saman fyrir Krónunni. Ég man þegar forljót möstur sem héldu uppi rafmagnslínunni frá Kárahnjúkum voru reist út eftir öllum firðinum og ég man þegar okkur var bannað, þrátt fyrir yfirlýsingar um að engin mengun hlytist af álverinu, að vera með kindur norðan megin í firðinum. Okkar lifibrauð var þar tekið af okkur á augabragði enda ekki hægt að keyra með allt féð langar leiðir til að koma því á fjall. En ég skildi aldrei, og geri í raun ekki enn, hvers vegna ekki var hægt að halda frystihúsinu gangandi, fá skipin aftur, leita annarra leiða.

Enginn hlustaði á spurningar föður míns um hvers vegna þyrfti risavaxinn stromp á verksmiðju sem ekki átti að menga neitt og því síður hlustuðu menn á þá staðreynd að veðurfar í firðinum væri ekki vænlegt til að losa okkur við útblástur, hver sem hann væri. Það hafði sannarlega ekki verið vinsælt meðal íbúa þegar bræðslan var og hét . . . þegar peningalyktin lá yfir öllu og varla sást til sólar. Það er nefnilega ekki mikil hreyfing á loftinu í lygnasta firði landsins. En það virtist nú gleymt og grafið. Í dag virðist fólk hissa á flúormengun (svo ekki sé minnst á hið steindauða Lagarfljót).

Svo sterk er sveitarómantíkin í mér og sú þrá að Íslendingar opni sig fyrir verndun móður náttúru og hlusti á okkur hin sem ekki fylgjum straumlínulaga hugsunarhætti margra ráðamanna, að hugur minn hefur tekið brot af hinum ýmsu umræðum og baráttumálum í kringum þennan atburð og búið til eina jákvæða minningu um sigur. Sú minning, ef svo má kalla, snýr að fallegri hvítri rós. Kollaleirurósin, sem er svo til ófinnanleg annarsstaðar á landinu, óx villt heima í hlaðinu hjá okkur. Í þessari tilbúnu minningu átti eitt af möstrunum að rísa inni á miðju heimili hennar, litlu lautinni sem ég vitjaði margoft með móður minni sem barn. En með þrautseigju og ákveðni hafði faðir minn fengið það í gegn að möstrin yrðu flutt ofar í hlíðina. Þó að minningin sé fölsk lifir rósin enn. Lítill sigur, en sigur þó.

Litla íþróttahúsið lekur líklega ekki lengur, ekki frekar en yfirbyggði gervigrasvöllurinn sem seinna var reistur við hlið þess (betur þekktur sem „æxlið“ í minni fjölskyldu). Ég veit líka að margt ungt fólk frá hinum fagra Reyðarfirði sneri aftur þangað, jafnvel með maka og börn. En þar er ekkert lengur sem ég get kallað „heim“. Ég er útlagi úr Ál-landi.

Sjá einnig:

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna

Ávarp Guðmundar Beck

Athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna álvers Alcoa-Fjarðaráls í Reyðarfirði – Eftir Guðmund Beck

 

 

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Hvernig Gálgahraun gerði mig að aðgerðasinna]]> http://www.savingiceland.org/?p=10086 2014-10-26T14:54:37Z 2014-05-10T13:39:48Z Erindi flutt á málstofu um aðgerðahyggju og aðkomu lögreglu að aðgerðum náttúruverndarsinna á Náttúruverndarþingi 10. maí 2014.

Lárus Vilhjálmsson, leikhússtjóri

Ég ætla að fara aðeins yfir atburðarásina í Gálgahrauni haustið 2013 þegar hópur fólks reyndi að mótmæla vegalagningu nýs Álftanesvegar og sérstaklega þann 21 október þegar ég ásamt fjölda annara vorum handtekin fyrir að sitja í veg fyrir jarðýtunni.

Ég hef um margra ára skeið látið mig umhverfismál varða. Tekið þátt í fundum og starfi umhverfissamtaka og stjórnmálaflokka, skrifað greinar, skrifað undir undirskriftalista,  gengið niður Laugaveginn með Ómari og stofnað með honum náttúruverndarflokk.

En ég hafði aldrei litið á mig sem aðgerðasinna. Mér fannst ég vera sófa-mótmælandi. Aðgerðasinnarnir voru fólk eins og Guðmundur Páll í Þjórsárverum og þeir sem mótmæltu á Kárahnjúkum eins og Saving Iceland og vinir mínir Ósk, Lillý og Ómar. Og svo var fullt af aðgerðasinnum í útlöndum sem maður dáðist að. Og meira að segja þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst lá ég veikur í sófanum og horfði á.

Og þegar ég og Ragnhildur konan mín fórum að hraunjaðrinum í Gálgahrauni í morgunsárið þann 17. september á síðasta ári leit ég ekki á mig sem aðgerðasinna. Við virtum fyrir okkur skemmdirnar sem grafa hafði valdið á hraunjaðrinum og ræddum málin við  Reyni, Gunnstein, Harald og Gunnar sem höfðu ásamt okkur gengið áformaða veglínu Álftanesvegar nokkrum dögum áður ásamt tugum annarra. Við fórum svo að skoða athafnasvæði Íslenskra Aðalverktaka og ég varð alveg hissa þegar starfsmaður ógnaði hópnum með gröfuskóflu eins og við værum einhverjir aðgerðasinnar.

Það var ákveðið að mæta eldsnemma næstu daga við hraunið, fylgjast með verktökunum og ef þeir reyndu að fara í hraunið að stöðva þá á friðsaman hátt.  Næsti morgun byrjaði með því að stór hópur af fólki var komið á staðinn sem við áttum eftir að kynnast vel næstu vikurnar.  Gröfurnar komu síðan og stöðvuðu þegar fólkið settist fyrir framan þær. Lögreglumaður mætti á staðinn og ræddi góðlátlega við okkur en fór þegar við sættumst ekki á að færa okkur. Fulltrúi verktakans sættist þá á að fresta vinnu við hraunið þar til aðilar hefðu rætt saman. Hópurinn fór síðan á fund Vegamálastjóra. Hann var ekki viðlátinn en sendi á okkar fund hóp bergþursa sem sögðu Vegagerðina vera ríki í ríkinu og sinn eigin dómstóll og þeir vildu ekkert vera að bíða eftir öðrum dómstólum. Þannig fór sá fundur og við fórum út með samanbitnar tennur og staðráðin í því að mæta í hraunið morguninn eftir. Sest var á rökstóla og ákveðið að hvetja náttúruvini til að koma okkur til aðstoðar á vaktina. Enn þrátt fyrir þetta allt leið mér samt ekki alveg eins og aðgerðasinna.

Síðan hófst biðin. Næsta mánuð mætti galvaskur hópur fólks eldsnemma á hverjum virkum degi í hraunjaðarinn. Vaktin stóð frá sjö á morgnanna til fimm á daginn. Fljótlega risu tjöld við Garðastekkinn, útileguborð og stólar og kaffibrúsar og kræsingar spruttu fram. Stöðug umferð var á svæðið af fólki sem vildi ræða málin og það voru fjörugar umræður við tjöldin.  Rætt var um sáttanefndina sem innanríkisráðherra ætlaði að kalla til verka en aldrei var kölluð til. Hneykslast var yfir ósannsögli Vegagerðar og bæjarstjóra Garðabæjar um umferðaröryggi á gamla Álftanesveginum og hlegið dátt af sögunum og vísunum hans Ómars. Það var stundum pælt í því hvað við tæki ef að gröfurnar kæmu og þeir myndu kalla til lögreglu og allir voru sammála um Gandhi-aðferðina hans Ómars. Bara sitja og ekki sýna neinn mótþróa.

Þetta var góður tími og góður hópur. Og það var rólegt og fallegt við hraunjaðarinn og sérstaklega í ljósaskiptunum í haustblíðunni. Stundum fór maður einn í gönguferð í hraunið og naut kyrrðarinnar, fallegra hraunklettanna og hlustaði eftir röddum náttúrunnar.  Kannski var það þessvegna sem mér leið ekki eins og aðgerðasinna. Mér leið frekar eins og miðaldra körlunum á 19. öldinni sem þorðu að elska landið sitt og ortu ljóð um það, svo ég vitni í Andra Snæ.

En svo kom að því.  Við tókum eftir því  18. október að stærsta jarðýta landsins var flutt á vinnusvæði verktakanna. Og þótt að okkur þætti skrítið að það ætti að nota jarðýtu þegar þeir færu að pilla úr hraunjaðrinum þá reiknuðum við með því að það færi að draga til tíðinda.

21. október rann upp. Þegar við Ragnhildur, konan mín,  gengum með kaffibrúsana og tjaldið niður að Garðastekk þá var sólin farin að gægjast upp í austrinu og það var útlit fyrir fallegan dag í hrauninu. Það var komin hópur af fólki og við settum upp tjaldið eins og vanalega. Sest var niður, kaffi hellt í bolla og byrjað að skrafa saman um landsins gagn og nauðsynjar. Það var svalt en engin fann fyrir því, við vorum öll vön að vera vel klædd. Einhver spurði „ætli þeir fari af stað í dag?“, en engin svaraði því þetta hafði verið spurning dagsins í mánuð.

Stuttu seinna kallaði einhver sem hafði farið á útkík, „hún er farin af stað!“  Og þá vissu allir um hverja var verið að tala og allt fór í gang. „Allir á staðinn!“ kallaði einhver og meinti staðinn þar sem við ætluðum að sitja. „Er búið að hringja?“ kallaði annar. Og svo fór maður og settist á stein eins og hinir í hópnum. Við biðum smástund og þá heyrðist hljóðið.

Ýskur sem fór í gegnum bein og merg … ýskur sem varð hærra og hærra og eftir smástund fylgdi ýskrinu dimmur skruðningur. Ég mundi allt í einu hvar ég hafði heyrt þetta hljóð áður. Þetta var skriðdrekahljóðið sem maður hafði heyrt í fjölda stríðsmynda. Og svo birtist hún og það voru fullt af hermönnum með henni … een nei svo fattaði maður allt í einu að þetta voru  dökkklæddir lögreglumenn með kylfur og gasbrúsa.

Á þessu augnabliki varð ég aðgerðasinni. Í stað þess að standa upp og hlaupa í burtu ákvað þessi skíthræddi miðaldra karl að sitja áfram á steininum sínum og víkja ekki fyrir skriðdrekanum. Ég leit í kringum mig og sá að með mér var hópur fólks sem hafði tekið sömu ákvörðun og allt í einu var ég ekki hræddur, heldur stoltur yfir því að vera þarna á þessu augnabliki.

Svo byrjaði ballið … lögregluballið. Um leið og ýtan stöðvaði nokkra metra frá okkur vorum við umkringd lögreglumönnum. Seinna var okkur sagt að þeir hefðu verið um 60, en mér fannst þeir vera óteljandi.  Okkur var skipað að færa okkur en við sögðumst ekki geta það vegna þess að við værum að vernda hraunið fyrir ólöglegum aðgerðum. Þá vorum við dregin eða borin burt. Sex lögreglumenn drösluðu mér við illan leik upp úr vegstæðinu og húrruðu mér niður á grasflöt hjá mörgum félaga minna. Ég leit í kringum mig gleraugnalaus og sá Ragnar son minn handjárnaðan og settan inn í fangabíl. Heyrði líka Gunnstein kórstjóra biðja lögregluna um handjárna hann ekki því að hendurnar væru hans lifibrauð. Þeir hlustu ekki á það, handjárnuðu hann og settu hann inni í fangabíl. Það var algert kaos.

Við hlupum nokkur upp í hraunið og settumst fyrir ofan vinnusvæðið. Það leið ekki á löngu þar til að lögreglan og starfsmenn verktakans hófu að girða í kringum okkur. Við kræktum þá saman höndum og vorum staðráðin í að verja hraunið eins og sannir aðgerðasinnar. Enn var okkur skipað að færa okkur og við svöruðum eins og áður. Þá vorum við handtekin. Eins og áður var okkur dröslað í burtu en nú inn í fangabíla og keyrð á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem við vorum látin dúsa um stund.

Þegar hópnum var sleppt frá Hverfisgötunni var farið aftur á Álftanesið. Lögreglan hafði þá lokað öllum aðkeyrslum út á Álftanes þannig að við gengum frá Garðaholti. En héldum við út í hraunið og sáum ýtuna stóru spæna upp hraunkletta og lyngbolla. Það fannst mér sorgleg sjón. Samkvæmt þeim sem voru á svæðinu var búið að handtaka fjölda manns og það virtist hafa bæst í lögregluhópinn. Við settumst enn einu sinni nokkurn spöl frá vinnusvæðinu en sama sagan endurtók sig. Lögregla og verktakar girtu í kringum hópinn og lögreglan hóf síðan handtökur á okkur þegar fólk sagðist ekki geta fært sig. Ein af þeim fyrstu sem var tekin var Ragnhildur sem var síðan ásamt hinum níumenningunum látin dúsa í einangrunarklefum á Hverfisgötunni í marga tíma.

Það var ekki létt hljóðið  í lögregluþjónunum sem byrjuðu að drösla mér niður hraunið og eftir um hundrað metra brölt gáfust þeir upp og sögðu mér að hypja mig. Ég hysjaði upp um mig buxurnar og reyndi að fara í áttina að vegstæðinu en var hindraður af hópi lögreglumanna.  Þá gafst ég upp og fór niður að Garðastekk þar sem fangabílar og lögreglubílar voru út um allt. Ég settist í hraunið, horfði yfir vígvöllinn og hugleiddi atburði dagsins.

Ég var miður mín. Mánuðinn góða í hraunvörslunni hafði mér aldrei komið til hugar að Ísland gæti breyst á einu vettvangi úr því að vera land þar sem maður treysti því að lögreglan væri að vinna í þágu almennings  í land þar sem lögreglan vann aðeins fyrir stjórnvöld og einkafyrirtæki. Ég hafði haldið í einfeldni minni að Ísland væri land þar sem menn leituðu sátta áður en vopnin væru notuð.

Það hafði aldrei hvarflað að mér að ég ætti eftir að lifa dag á Íslandi þar sem ungt, miðaldra og eldra fólk væri borið í fangabíla eins og kartöflusekkir og lokað inni í einangrunarklefum. Og ég hélt að ég myndi aldrei lifa þann dag á Íslandi að stjórnvöld leyfðu ekki fólkinu í landinu að klára að leita réttar síns fyrir dómstólum. Og ég hélt að sá dagur myndi ekki rísa aftur að skömm stjórnvalda myndi rísa eins hátt og þegar hverflar Kárahnjúkavirkjunar voru ræstir.

Það er út af þessum atburðum þann 21 október árið 2013 sem ég varð og verð alltaf  aðgerðasinni fyrir náttúru Íslands.

Takk fyrir

 

]]>
0
solskin <![CDATA[Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi]]> http://www.savingiceland.org/?p=9653 2014-10-07T14:33:53Z 2013-04-21T22:53:36Z Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags:

Betra er illt yfirvald en ekkert. Anarkí er æðsta syndin. Hinir hæfustu lifa af. Vinnan göfgar manninn. Lengi tekur sjórinn við. Ég elska þig. Stétt með stétt. Öll í sama báti. Allir menn eru fæddir jafnir. Allir eru jafnir fyrir lögum. Með lögum skal land byggja.

Einnig tyggja þeir orð og hugtök sem álitin eru grunngildi og leiðarstef þessa sama samfélags: tjáningarfrelsi, réttindi, lög og regla, svo nokkur séu nefnd. Loks halda þeir á milli sín nokkrum pörum tvíhyggjunnar sem stöðugt leitast við að einfalda heiminn og tilveru mannsins — skipta flækjum og átökum hans við sjálfan sig og aðra upp í andstæðar fylkingar góðs og ills, líkama og sálar, hins rétta og hins ranga, orsaka og afleiðinga. Annaðhvort eða.

Að baki hinna kviksettu flæða myndir sem, í bland við slurk af svörtum húmor, sýna dökka mynd af vestrænni siðmenningu. Margbreytilegar birtingarmyndir kapítalisma, stríðsreksturs, nýlendustefnu, iðnvæðingar, þjóðerniskenndar, trúarbragða, tvíhyggju og línulegrar hugsunar vestrænnar menningar, kallast á við frasana og afhjúpa merkingu þeirra og hlutverk. Saman varpa myndirnar, frasarnir og kviksettir líkamarnir þannig upp mynd af ófrjálsri og (bókstaflega) kviksettri stöðu einstaklingsins í samfélaginu — „varpa ljósi á persónulega upplifun á lífi undir kapítalisma,“ svo orð Jóns Proppé séu fengin að láni.4

Í grafhvelfingu í anddyri safnsins héngu silkiborðarnir úr myndinni, nú vafðir á jarðarfararkrans sem gnæfði yfir lítilli vöggulaga líkkistu sem út úr stóð snuð. Upp úr svörtum sandi sem kistan stóð á gægðust höfuð tveggja barna sem á milli munna sinna héldu uppi enn einum frasanum: Frá vöggu til grafar. Heyrðist hvar mold var mokað yfir gröf og gerilsneydd rödd konu ávarpaði gesti sýningarinnar: „Hjartanlega velkomin í veröldina okkar.“ Í afmörkuðu rými innar í safninu stóð færiband hlaðið afskornum fuglsvængjum í þúsundatali og úr heyrnatólum sem héngu á færibandinu mátti heyra annan hafsjó af klisjum sem hlaðast hvert ofan á annað og mynda auglýsingakennda frasamartröð.

Þótt frasarnir séu margir og að einhverju leyti innbyrðis ólíkir gnæfir titilfrasinn yfir. Ekki einungis vegna stöðu hans yfir inngangi safnsins, heldur má einnig sjá hann sem gríðarstórt tannhjól í enn stærri vél, en hina frasana sem smærri tannhjól sem snúast þurfa stöðugt og óhindrað svo uppistöðutannhjólið og þar með sjálf vélin haldist gangandi. Andspænis tvennum dyrum sem hvor um sig gengur að sitthvorri vélinni — fyrrgreindri vél ríkjandi hugmynda- og efnahagskerfis og tungumáls þess annars vegar; kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi hins vegar — stígum við upp í þá síðarnefndu er tekur okkur í ferðalag um eðli og hlutverk þeirrar fyrrnefndu.

Framfaragoðsögnin

Bökkum fyrst sem snöggvast og víkjum aftur að spurningunni sem Benjamin svarar: Hvað eru framfarir? „Framfarir er augljóslega gildishlaðið orð,“ segir finnski heimspekingurinn Georg Henrik von Wright, sem í bók sinni, Framfaragoðsögnin, tekst á við hugtakið og notkun þess — orðið bakvið hugmyndina, merkinguna handan goðsagnarinnar. Þar sem framfarir eru augljóslega háðar gildismati, segir von Wright, og eru því ómælanlegt fyrirbæri, verður framfaragoðsögnin — kenningin um að „manninum og samfélagi hans muni vegna betur ef þau eru frjáls að fylgja þeirri meginreglu Kants að treysta á skynsemina í stað kennivaldsins“ — merkingarlaus. Skynsemi eins er nefnilega óskynsemi annars og „engar staðreyndir í mynd aukinnar lestrarkunnáttu, bætts heilbrigðisástands eða hærri tekna á hvern íbúa“ geta nokkurn tíma falið í sér merki um óumdeilanlegar framfarir, ekki frekar en framleiðslugeta þjóðar eða orkunotkun á hvern íbúa:

Þar með skilur það sig frá skyldum hugtökum á borð við breyting og vaxtaraukning — og einnig þróun, hugtök sem grundvölluð eru eða má grundvalla á staðreyndum einum. Það er hins vegar ekki hægt að ákvarða með vísindalegri sönnunarfærslu né á annan hátt út frá staðreyndum hvort tiltekið ástand felur í sér framfarir miðað við eitthvað annað.5

„Auðvitað getur verið óumdeild staðreynd að eitthvað sé einhverju öðru betra sem leið að settu marki,“ segir von Wright. Þar er hins vegar um að ræða tækisgildi en mat á því „byggist á staðreyndum og er því ekki hreinræktað gildismat“.6 Upp getur komið ný aðferð, ný tækni sem gerir tiltekna framleiðslu hagkvæmari framleiðandanum. Ný aðferð við að framleiða meiri orku með lægri tilkostnaði en áður eru þannig augljóslega til marks um tæknilegar framfarir í orkuframleiðslu. En hún segir ekkert um framfaragildi orkuvinnslunnar sjálfrar — ekki frekar en árásin á Dresden sem vissulega bar vitni um framfarir í hernaðartækni en sagði ekkert um framfaragildi hernaðar. Slíkt er og verður alltaf háð gildismati og þar sem gildi er huglægt fyrirbæri, ákvarðað og metið af einhverjum eins og von Wright bendir á, er hlutlægt mat á framfaragildi fyrirbæris alltaf ómögulegt.

Á skjön við þá algengu hugmynd að í kjölfar margítrekaðs dauða Guðs — þegar hið jarðneska eða mennska tók við af hinu yfirjarðneska eða guðlega — hafi kennivald trúarbragða liðið undir lok, bendir flest til þess að prestskraganum hafi einfaldlega verið komið fyrir á framfaragoðsögninni. Í nafni framfara er haldið í krossferðir; árásarstríð eru háð undir því yfirskini að innleiða pólitískar framfarir sem nefndar eru lýðræði, frjáls markaður og kvenfrelsi7; og þeir sem ekki fallast á að kyngja bragðvondri oblátunni eru álitnir grunsamlegir, óvinveittir og mega því vara sig.

Rétt eins og trúarbrögðin krefst framfaragoðsögnin hugmynda- og tungumálalegrar einföldunar sem kristallast í tvíhyggjunni — sama handriti og gerir dómskerfinu kleift að setja upp leikrit um skýrar línur, dregnar á milli hins rétta og ranga í hlutverkum sakleysis og sektar. Systir tvíhyggjunnar heitir pragmatismi og boðar hún hástöfum skynsamlegar ákvarðanir, öfgalaus sjónarmið, vitsmunaleg stjórnmál og raunsæjar væntingar. Aftur skortir hér spurningamerkið og efann í tungumálið. Hver skilgreinir gagnsemi? Hver útlistar raunsæi? Á forsendum hvaða hugmyndafræði er þetta skilgreint? Því þvert á það sem boðberar hans halda oft fram, er pragmatisminn grundvallaður á hreinræktaðri hugmyndafræði — ekkert er óhjákvæmilegt eða sjálfgefið við hina pragmatísku stefnu hverju sinni.

Berháttaðar sinni guðlegu ásýnd, og sviptar ímynd pragmatismans sem hins sjálfgefna, eru framfarir þannig svo gott sem marklausar sem pólitískt vopn. Á bakvið orðin liggur alltaf hugmyndafræði skreytt gulli goðsagnarinnar.

Kröfur um betra líf?

Fljótt á litið birtist öll umræða um framfarir líkt og mannkyninu hafi verið refsað fyrir að byggja Babelsturn. Þannig eru ólíkar fylkingar sem standa hvor andspænis annarri í átökum um tilteknar áætlanir, sem keyrðar eru áfram í nafni framfara, ekki einungis ósammála um tilgang framkvæmdanna, áhrif þeirra og afleiðingar — þær tala einfaldlega ekki sama tungumálið. Orð takast á, en ekki orð við orð heldur liggur togstreitan innan hvers einasta orðs og í notkun þess. Merking orða er ólík eftir því hverjir mæla þau, sem leiðir til þess að vilji andstæðingar framkvæmdanna beita orðum í baráttu sinni — að því gefnu, sem ekki er sjálfgefið, að félagsleg staða þeirri geri þeim það kleift — ganga þeir undantekningalaust inn á stríðssvæði þar sem barist er um hvert orð.

Þar mæta þeir ofurefli viðtekinnar hugsunar og standa þannig í sporum mótmælenda vopnuðum tjáningarfrelsinu andspænis lögvörðu vopnabúri ríkisvaldsins. Og rétt eins og ofbeldi yfirvaldsins — ólíkt valdbeitingu einstaklingsins, sem ekki er einungis ólögleg heldur einnig álitin siðferðislega röng — hefur orðskilningur hins efnahagslega og pólitíska yfirvalds stöðu hins sjálfgefna. Samræða verður þannig að draumsýn og baráttan um orðið og merkingu þess verður í eðli sínu byltingarkennd. Hún snýst um að afkóða tungumálið, afhjúpa og gildisfella ráðandi merkingu orðanna, og loks steypa þeim af stalli.

Ferðumst áratug aftur í tímann og hlýðum á framfarapostulann Alain Belda, forstjóra bandaríska álfyrirtækisins Alcoa. „Það er til fólk sem er á móti framförum,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið, aðspurður um rök andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði, en bætti svo við: „En til allrar hamingju vex umheimurinn og fólk gerir kröfur um betra líf. Okkar verkefni er að finna gott jafnvægi þarna á milli.“8

Orðanotkun sem þessi leggur að jöfnu velmegun og hagvöxt, sem samkvæmt Belda er til marks um framfarir, þvert á greiningu von Wright sem bendir á að „eini mælikvarðinn á framfarir í lífskjörum manns er það hvernig hann sjálfur metur ástand sitt.“9 Hún gefur þá mynd af andstæðingum virkjunarinnar að þeir séu óvinir framfara og þar með andstæðingar velmegunar. En óvini framfara er einungis hægt að sigta út og benda á séu framfarir séðar og skildar sem óhreyfanlegur fasti — órjúfanlegur sannleikur; „gott jafnvægi“. Og þó þær séu það vissulega að mati Belda og hugmyndasystkina hans, þá tala þau ekki eina tungumál heimsins. Þau tala takmarkað tungumál framfaragoðsagnarinnar, en í orðaforða þess er ekkert pláss fyrir eyðileggjandi, kúgandi og ofbeldisfullt eðli framfaranna sem það boðar.

Í „betra lífi“ Belda er ekki pláss fyrir staðreyndir — og munum að ólíkt gildum eru staðreyndir mælanlegar — á borð við það að álið sem fyrirtæki hans framleiðir og bætir núllum á bankareikninga eigenda þess og æðstu yfirmanna, er og hefur lengi verið meginuppistaða stríðsvopna. „Ál er orðið að nauðsynlegasta hráefni nútíma hernaðar,“ sagði hernaðarsérfræðingurinn Dewey Anderson árið 1951 og bætti svo við: „Enginn hernaður er mögulegur, ekkert stríð er hægt að heyja með góðu móti í dag, án þess að nota og eyða gífurlegu magni af áli.“10 Og þó meira en hálf öld sé liðin síðan Anderson mælti þessi orð hefur samband áls og stríðs ekkert breyst. „Stríð var gott fyrir Alcoa,“ segir í sögubókum fyrirtækisins, en þátíðin er bæði óþörf og villandi því stríð er gott fyrir Alcoa og aðra álframleiðendur.11 Mulið ál er aðal innihald vopna á borð við Daisy Cutter sprengjuna og „græni málmurinn,“ eins og almannatenglarnir kalla álið í dag, gegnir meginhlutverki við smíði léttra og hraðskreiðra farartækja á borð við F18 orrustuflugvélina, sem — til að troða kirsuberi ofan á jarðaberið á rjómakökunni — gengur fyrir lífrænu eldsneyti og ber því „hið viðeigandi heiti Græna vespan,“ eins og Barack Obama komst að orði þegar hann tilkynnti að þotunni yrði flogið í fyrsta sinn á alþjóðlegum degi jarðarinnar.12

Og til að svekkja þá sem nú standa æstir upp og halda því fram að staða framleiðandans sé hlutlaus, óháð notkun kaupandans, eru eyðileggjandi áhrif álframleiðslunnar miklu dýpri og víðtækari. Þau ná langt út fyrir vængjaþyt orrustuflugvélanna og hefjast löngu áður en sprengjan lendir á skotmarki sínu.

Menningarlegt þjóðarmorð

Það flytur okkur til Indlands þar sem tröllaukin iðnvæðing á sér nú stað í nafni framfara. Og þó hún færi vissulega byr undir báða hagvaxtarvængi indverska ríkisins og þyngi um leið fjársekki yfirþjóðlegra málmafyrirtækja, hefur hún á sama tíma slík áhrif á samfélög frumbyggja að fölsun væri að kalla það annað en menningarlegt þjóðarmorð. Í þágu námugraftar og byggingar hverrar verksmiðjunnar á fætur annarrar, er fólk flutt með valdi af búsvæðum sínum og þar með kippt úr félagslegu samhengi sínu — láréttum samfélagsstrúktúrum reistum á hugmyndum sem ekki rúmast innan hins lóðrétt skipulagða, iðnvædda, vestræna kapítalisma. Það er rekið burt úr lífi sínu og flutt nauðungarflutningum inn í stórborgir þar sem hlutskipti þess umsnýst á svipstundu. Skyndilega er það statt á botni stigveldis sem stuttu áður átti hvorki sæti í hugsun þess né efnislegum veruleika.

„Þjóðarmorð þýðir að drepa (caedo á latínu) fólk, kynstofn eða þjóðflokk (genus),“ útskýra Felix Padel og Samarendra Das:

Við athugun á því sem fólst í þjóðarmorðunum á ættbálkum Ameríku, er augljóst að morðin voru á tveimur stigum: útrýming á einstaklingum og menningu. Frásagnir frá þessum tímum herma að innfæddiríbúar Ameríku vildu margir frekar deyja en að lifa af án lands og menningar. Stefna Bandaríkjanna frá og með síðari hluta nítjándu aldar var að taka yfir umráðasvæði ættbálkanna og koma eftirlifandi meðlimum þeirra fyrir á verndarsvæðum þar sem þeir gátu ekki lengur framfleytt sér sjálfir.13

Til viðbótar við uppbrot og eyðingu samfélagsstrúktúra felst menningarlegt þjóðarmorð í því hvernig skaðleg umhverfisáhrif verkefna sem framkvæmd eru í nafni framfara — báxítgröftur og álvinnsla í tilfelli Kond ættbálkanna sem Padel og Das starfa með og fjalla um í skrifum sínum — eru af slíkri stærðargráðu að heilu landssvæðin þurrkast upp og verða fullkomlega óræktanleg í komandi framtíð. Fótunum er þannig gjörsamlega kippt undan frumbyggjunum sem þýðir að:

Frá sjónarhóli frumbyggja ættu öll þessi verkefni líklega að heita nauðungarflutningar — orðið framfarir virkar sem yfirvarp og stangast á við reynslu þeirra. Stærstur hluti hins ritaða máls [um verkefnin] bætir gráu ofan í svart með því að smækka fólk niður í „þá sem bolað hefur verið í burtu“ og sársauka þess niður í greiningu sem sviptir þá mennskunni. Afar fáir byggja á orðum og skilningi þeirra sem sviptir hafa verið rétti sínum til að skilja raunveruleikann bak við nauðungarflutningana.14

Stöðugt eru raddir efasemdamanna þaggaðar í kaf með lofsöngvum framfaragoðsögninni til dýrðar, og þeir ekki eingöngu sakaðir um að vera bæði andstæðingar framfara og talsmenn eilífs viðhalds á hefðum15, heldur einnig um viðhorf sem óvinveitt séu samfélaginu — jafnvel hættuleg mannkyninu. Gríðarstór skóglendi á Indlandi hafa til að mynda verið opinberlega skilgreind af yfirvöldum sem „ásótt af maóistum,“ en á umræddum svæðum hafast við Naxalítarnir svokölluðu — vopnaðir hópar frumbyggja og maóista sem hafa árum saman varið landsvæði sín, fólk og menningu fyrir árásum yfirvalda. Eins og indverski rithöfundurinn Arundhati Roy bendir á, en fyrir tveimur árum dvaldi hún með Naxalítunum og ferðaðist með þeim um skógana svo vikum skipti, er þetta síst af öllu ónákvæmt eða hirðuleysislegt orðalag. Það er bæði lúmskt og úthugsað auk þess sem það felur í sér sjúkdómsgreiningu. „Lækna þarf sjúkdóma. Útrýma þarf pestum. Maóistana þarf að þurrka út,“ segir Roy og dregur þannig saman hvernig orðaforða menningarlegs þjóðarmorðs hefur verið laumað inn í tungumálið.16

Bökkum þá tvær aldir aftur til Englands þar sem lúddítarnir svokölluðu, skipulagðir hópar breskra vefara, risu upp gegn aukinni vélvæðingu iðnar sinnar á fyrstu áratugum nítjándu aldar. Saga þeirra og arfleið hefur verið beygð og sveigð í þágu framfaragoðsagnarinnar, eins og birtist til að mynda skýrt í fremur nýlegum skrifum Finns Oddssonar, þá framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Hann sagðist hafa litið í sögubækurnar og rekist þar á lúddítana, og sagði að „þó hreyfing Luddita hafi verið skammlíf í Bretlandi virðist nú 200 árum síðar örla á svipuðum hugmyndum í íslenskum stjórnmálum.“17

Finnur fullyrðir að lúddítarnir hafi barist „gegn almennum lífskjörum í samfélaginu sem byggðu á hagkvæmari framleiðslu,“ en þegar nánar er að gætt voru þeir síst af öllu andstæðingar bættra lífskjara — hvorki eigin né annarra. Glæpur þeirra var að setja spurningarmerki við orðræðu framfarastjórnmála; sjá í gegnum þá merkingu sem orðunum var gefin svo knýja mætti fram þær breytingar á iðn þeirra sem verksmiðjueigendunum hentaði; finna á eigin skinni hvernig innleiðing nýrrar tækni leiddi til verri gæða handverksins, einhæfrar og sligandi vinnu, verri afkomu og lífskjara. Þegar þeim varð ljóst að fyrir yfirvöld og verksmiðjueigendur hafði málstaður þeirra ekkert vægi, fylktu þeir liði undir formerkjum hins goðsagnakennda Ned Ludd og rústuðu í skjóli nætur þeim vélum sem ógnuðu starfsháttum þeirra og lífum. Og til að gera nokkuð langa sögu stutta, voru þeir í kjölfarið ofsóttir af yfirvöldum sem komu fyrir flugumönnum í félagsskap þeirra (kunnuglegt), handtóku þá og fangelsuðu, og leyfðu loks vel völdum lúddítum að kynnast göfugu réttlæti snörunnar.

Þegar söguspekingar á borð við framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs fullyrða að þó „tæknivæðing hafi gert afmarkaða stétt óþarfa“ hafi það samt sem áður verið „samfélagslega hagkvæmt að auka afköst,“ og því hafi andstaða lúddítanna verið óréttlætanleg, þá tala þeir tungumál menningarlegs þjóðarmorðs. Frekja framfaragoðsagnarinnar krefst þess að lifnaðar- og starfshættir allra færist í einsleitt form, hagkvæmt framleiðslukerfinu. Standi einhverjir í vegi fyrir þeirri þróun má byrja á að lofa þeim kaupauka, bættum lífsgæðum í formi menntunar, lesskilnings, rafmagnstækja, íþróttahúsa og heilbrigðisþjónustu — gæðum sem eru öll háð gildismati, eins og von Wright bendir á, og geta því með engu móti talist til framfara. Hafni þetta sama fólk hins vegar mútunum, neiti að láta neyða upp á sig „nútímanum“ og taki jafnvel upp siðferðislega fordæmda valdbeitingu hina valdalausu — þá má einfaldlega troða því í skó og þaðan í fótspor lúddítanna og gera þannig úr því, eins og rithöfundurinn Kirckpatrick Sale tekur til orða, „táknrænan andstæðing, sem afgreiða má sem bæði árangurslausan og óraunsæjan, hlutverk sem lúddítarnir voru þvingaðir til að þjóna.“18

Endalok sögunnar og samþykki Bernays

Upp úr ösku kalda stríðsins reis enn ein útgáfa kenningarinnar um endalok sögunnar — kenningar sem Hegel, Marx og Alexander Kojève höfðu áður sett fram, hver með sínum hætti.19 Í samhljómi við framfaragoðsögnina gerir eftirkaldastríðsútgáfan, sem runnin er undan rifjum bandaríska hagfræðingsins Francis Fukuyama, út á þá hugmynd að einungis ein leið standi mannkyninu til boða — ein leið byggð á einu tilteknu gildismati og einhliða skilningi á hinu pragmatíska. Lýsti Fukuyama því yfir að í ljósi hruns Sovétríkjanna væri samblanda hins svonefnda frjálslynda lýðræðis Vesturlanda annars vegar og frjálsa markaðar kapítalismans hins vegar, eina pólitíska og efnahagslega hugmyndakerfið sem enn stæði föstum fótum í heiminum. Engin önnur hugmyndakerfi ógni þessum kokteil né komi til með að ógna honum og standa í vegi fyrir útbreiðslu hans um bróðurpart heimsins. Hugmyndafræðilegum átökum sé þar með lokið, engin þörf sé á þeim eftir útför ríkiskommúnismans, en í staðinn taki fyrst og fremst við deilur um ólíkar, tæknilegar útfærslur á framkvæmd þessa eina eftirstandandi hugmyndakerfis.20 Undirstöðum hins frjálslynda lýðræðis hefur Fukuyama lýst í örfáum orðum:

Ástand það sem kemur upp við endalok sögunnar er frjálslynt að því leyti að í gegnum lagakerfi viðurkennir það og verndar alhliða rétt mannsins til frelsis, og lýðræðislegt að því leyti að það er einungis til fyrir tilstilli samþykkis þeirra sem er stjórnað.21

Gleymum meintu einstaklingsfrelsi vestrænna samfélaga og horfum á samþykkið sem Fukuyama er hugleikið og er í raun límið sem heldur saman kenningu hans og annarra meðvitaðra eða ómeðvitaðra hugmyndafræðinga endaloka sögunnar. Ríkjandi ástand er samkvæmt þessu til komið vegna almenns samþykkis hinna valdalausu, sem það og stendur eða fellur með. Minna er fjallað um hvernig sjálft samþykkið er til komið, í besta falli gert ráð fyrir því svo lengi sem hinir valdalausu hafni ekki beint þessu fyrirkomulagi — sem þeir gætu auðvitað einungis gert með áðurnefndri valdbeitingu hinna valdalausu, ekki er kosið um raunverulega ólík hugmyndakerfi í kjörklefanum — samþykki þeir það í grundvallaratriðum.

Raunveruleikinn er auðvitað flóknari en svo og kallar fram mynd hinna kviksettu, tyggjandi þegna. Margkrýndur faðir almannatengslaiðnaðarins, hinn bandaríski Edward Bernays — sem á afrekaskrá sinni hefur meðal annars að hafa peppað upp almannastuðning við þátttöku Bandaríkjanna í Fyrri heimsstyrjöldinni, leikstýrt upphafinu af félagslega samþykktum reykingum kvenna, og gert mögulegt valdaránið í Gvatemala árið 1954 sem stutt var af Bandaríkjastjórn og CIA22 — setti fram nokkuð góða útskýringu á tilurð og viðhaldi slíks samþykkis strax í fyrstu málsgrein bókar sinnar, Propaganda, sem birtist fyrst á prenti árið 1928 og hefur enn þann dag í dag sess heilagrar ritningar almannatenglanna:

Meðvituð og skynsamleg hagræðing á skipulögðum venjum og skoðunum fjöldans er nauðsynlegur þáttur í lýðræðissamfélagi. Þeir sem stjórna þessu óséða gangverki samfélagsins mynda hið ósýnilega stjórnvald sem er hið raunverulega stjórnvald lands okkar.23

Almennt er auðvitað litið svo á að hver og einn samfélagsþegn taki upplýsta ákvörðun um pólitískar skoðanir sínar og neysluvenjur, ákvörðun sem tekur helst á sig mynd í kjörklefanum og versluninni. En Bernays segir að þar sem við núverandi samfélagsskipulag sé ómögulegt fyrir nokkurn mann að mynda sér upplýsta afstöðu til allra þeirra mála sem honum eru viðkomandi, hafi samfélagið „samþykkt að takmarka valkosti sína við hugmyndir og hluti sem athyglin beinist að með hjálp áróðurs af öllum gerðum.“24

Og hvers vegna er þá ákvarðanatakan ekki færð í hendur örfárra gáfumanna sem valið gætu þau kerfi, hugmyndir og vörur sem móta eigi samfélagið og stjórna þróun þess? Hvers vegna ekki frekar að búa við menntað einveldi? Því samkvæmt Bernays hefur frjáls samkeppni orðið fyrir valinu og því hafi „samfélagið samþykkt að leyfa frjálsri samkeppni að vera skipulögð með forystu og áróðri“. Með öðrum orðum hefur samfélagið samþykkt að láta hið ósýnilega stjórnvald skapa samþykki sitt á hugmyndum, kerfum og vörum. Samþykkt að gangast undir hulið kennivald þeirra sem skapa áróðurinn. Og sé greining Bernays ekki gloppótt hefur fyrrgreinda samþykkið orðið til líkt og hið síðarnefnda, í gegnum hugmynd sem komið er fyrir með áróðri og samfélagið sjálft japlar svo á henni til sigurs og viðhalds.

Þegar pólitíkusar og álitsgjafar umorða Altúngu Voltaires og fullyrða að þó kerfið sem við búum við í dag — fukuyamískar bólfarir hins svonefnda frjálslynda lýðræðis og frjálsa markaðar, drifnar áfram á eldsneyti framfaranna — sé vissulega ekki fullkomið, sé það þrátt fyrir allt besta mögulega hugmyndakerfið sem í boði er; þá er um að ræða skólabókadæmi um samþykki að hætti Bernays. Enn einn frasinn tugginn manna á milli, til þess gerður að festa í sessi þá kreddu að hver einasta hugmynd um ólíka lifnaðarhætti og öðruvísi samfélagsskipulag en ríkir hér og nú, sé þeim ókosti búin að standa ekki jafnfætis hinu ófullkomna en þó besta fyrirkomulagi sem í boði er og alltaf verður. Amen og útgöngusálminn syngur Margaret Thatcher: „Það er ekkert alternatíf.“

Koffínlausar lausnir

Í skugga sálmsins stendur hin þversagnakennda lausnarkrafa. Gagnrýni krefst alltaf lausna og kallar á valkosti, og í viðleitni sinni við að bregðast við þeirri kröfu er sá sem gagnrýnir framfarastjórnmálin þjakaður af bernaysísku samþykki samfélagsins á því að raunverulegar lausnir séu ekki einungis óvelkomnar heldur einnig ástæðulausar. Og þar sem samþykkið þenur út vængi engilsins og stendur í vegi fyrir raunverulegum lausnum á hryllingnum sem hann sér, upplifir hann sig oft tilneyddan að koma í staðinn upp með sniðugar lausnir til að selja samfélaginu. Þær skulu vera einfaldar svo samfélagið skilji þær og kaupi um leið; jákvæðar, því skorin hefur verið upp herör gegn neikvæðni; neyslumiðaðar svo hægt sé að framkvæma þær í gegnum hversdagsleg verk þegnanna; einstaklingsmiðaðar, því þú þarft sjálfur að „vera breytingin sem þú vilt sjá í heiminum,“ eins og Gandhi sagði (reyndar aldrei25) svo spaklega; og loks friðsamar, því valdbeiting hinna valdalausu er fordæmd og síst af öllu sjálfgefin.

Í slíkum viðbrögðum við lausnakröfunni kristallast það sem slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek kallar koffínlausan raunveruleika. Í dag býður markaðurinn upp á ógrynni varnings sem sviptur hefur verið illræmdum eiginleika sínum, segirŽižek og tekur sem dæmi koffínlaust kaffi, áfengislausan bjór og fituskertan rjóma:

Og listinn heldur áfram: Hvað um sýndarkynlíf sem kynlíf án kynlífs, kenningu Colins Powell um hernað án mannfalls (á okkar hlið, að sjálfsögðu) sem hernað án hernaðar, endurskilgreiningu samtímans á stjórnmálum sem stjórnkænsku sérfræðinga sem stjórnmál án stjórnmála?26

Og getum við þá ekki bætt við grænni orku, umbótum innan kirkjunnar, samfélagslegri ábyrgð stórfyrirtækja — hverri einustu hugmynd sem framkvæmd hefur verið í kjölfar ákalls um lausnir á vandamálum sem upp koma og skekkja ímynd stöðugleikans? Í andrúmslofti endaloka hugmyndafræðilegra átaka dafnar ekki ólíkur gróður og gagnrýni hneigist því gjarnan til koffínlausra lausna. Spurningin um vernd eða vinnslu náttúruauðlinda snýr þannig ekki að því hvort og þá hvers vegna — eða hvers vegna ekki — ætti að viðhalda þeim lífsháttum og menningu sem háð eru stórkostlegri ágengni mannsins gagnvart náttúru, „óæðra“ fólki og „frumstæðri“ menningu; heldur einfaldlega hvar og hvernig best er að halda vélinni gangandi, séð frá pólitísku, efnahagslegu, eða ímyndarlegu sjónarhorni. Með sama hætti hefur baráttan gegn kúgun kvenna að miklu leyti snúist upp í það markmið að koma konum á hæsta þyrlupall þess valdastrúktúrs og efnahagskerfis sem viðheldur þessari sömu kúgun — fullkomlega til marks um þá þversögn sem Žižek eignar koffínlausa veruleikanum, þar sem „fyrirbærið sem olli skaðanum ætti um leið að vera lyfið við honum.“27

Afkóðun tímaskyns, söguskilnings og tungumáls

Aftur á Nýlistasafnið þar sem útsýnið úr tímavél Angeli Novi er ekki einungis flókið og margslungið, heldur einnig pólaríserað af aldalangri sögu uppbyggingar og eyðileggingar, kúgunar og andófs — svo að hvorki smiðir hennar né farþegar gætu nokkurn tíma kallað eftir einföldu(ðu)m, koffínlausum viðbrögðum og lausnum við hamförunum sem þeir sjá, skynja og takast á við. Vekur það óhjákvæmilega upp vangaveltur um hvort einhverjar útgönguleiðir séu í raun til staðar. Eða er mannkynið dæmt til eilífrar kviksetningar? Dæmt til að verja tilveru sinni japlandi á frösum um leið og óstöðvandi katastrófan sem engill sögunnar horfir upp á — óréttlætishaugurinn eins og Žižek kallar hana — stækkar áfram inn í eilífðina?

Jáyrði við slíku væri auðvitað aum undirgefni við boðbera framfaragoðsagnarinnar. Nauðbeygð viðurkenning á þeim kjarna hugmyndafræði endaloka sögunnar að aðeins ein og óhjákvæmileg leið standi manninum til boða.

Sprenging Kárahnjúkavirkjunar — sem í mynd Angeli Novi er framkölluð með sömu sprengingu og rústaði Dimmugljúfrum vorið 2003 og lék lykilhlutverk í áróðursherferð forkólfa framkvæmdanna — kallast ekki einungis á við sprengingu Miðkvíslarstíflunnar í Laxá haustið 1970, heldur gengur einnig beint inn í andófshefð sem rússneski anarkistinn Michail Bakunin hvatti til með þeim orðum að ástríðan fyrir eyðileggingu sé líka ástríða fyrir sköpun. Ólíkt eyðileggingarmætti framfaragoðsagnarinnar, sem hefur þann megin tilgang að vaða óhindruð áfram og ýta úr vegi þeim sem leggja stein í götu hennar, gerir slík eyðilegging ráð fyrir algjörri núllstillingu — úr ösku virkjunarinnar rísi því hvorki vindmyllur, gagnaver né aðrar koffínlausar lausnir.

Með myndum af skemmdum og óvirkum klukkum vísa Angeli Novi jafnframt til Júlíbyltingarinnar í Frakklandi árið 1830 og kalla þannig eftir vitund sem náskyld er skapandi eyðileggingu Bakunins og Walter Benjamin skýrði í fimmtándu tesu fyrrnefndrar ritgerðar, Um söguhugtakið:

Vitundin um að brjóta upp samfellu sögunnar er byltingarstéttum eiginleg á því augnabliki sem þær láta til skarar skríða. Franska byltingin tók nýtt tímatal í notkun. Fyrsti dagurinn í hverju dagatali gegnir því hlutverki að draga saman tíma sögunnar. Og að grunni til er það alltaf sami dagurinn sem snýr aftur í formi hátíðisdaga, sem eru minningardagar. Dagatölin telja sem sagt tímann ekki á sama hátt og klukkur gera. Þau bera vitni söguvitund sem virðist hafa horfið sporlaust úr Evrópu fyrir um hundrað árum. Strax í Júlíbyltingunni átti sér stað atvik þar sem þessi vitund fékk að njóta sín. Þegar fyrsti dagur átakanna var að kvöldi kominn, kom í ljós að skotið hafði verið á turnklukkur víða um París á sama tíma án þess að nein tengsl hafi verið þar á milli.28

Þetta uppbrot á samfellu sögunnar „fangar tímann,“ eins og þýski heimspekingurinn Herbert Marcuse komst að orði29, lýsir um leið yfir algjöru gjaldþroti ríkjandi hugmyndafræði og strúktúra samfélagsins, og bindur þannig táknrænan endi á tíma kúgaranna. Í anda föngunar tímans og þess sem rithöfundurinn William Burroughs kallaði að „sprengja gat á tímann,“ ráðast Angeli Novi gegn línulegu tímaskyni og hugsun með því að afnema á köflum tímakóða myndefnisins sem þau meðhöndla. Þannig afmást mörk ólíkra mynda. Þannig hverfa gjár sem áður héldu tveimur eða fleiri ólíkum hugmyndum og sögulegum atburðum aðskildum. Og úr verður lífrænt upplausnarástand sem getur af sér ófyrirsjáanlega, kaótíska, stafræna mynddrullu — með öðrum orðum: anarkí, hina æðstu synd. Með afkóðun söguskilnings, tímaskynjunar og hugsunar er okkur ekki einungis fært að brjóta upp bilið milli hugmynda og atburða sem samkvæmt línulegri söguskoðun framfaragoðsagnarinnar eru til marks um krómatískt skref fyrir skref í ferðalaginu til fyrirheitna landsins; heldur reisa á sama tíma brýr milli andófs og uppreisna á ólíkum stöðum heimsins og sögulega fjarlægum tímabilum.

Það sama gildir um tungumálið, því ekki síður en klukkan — vítahringur vinnunnar, líf mannsins í gangverki vélarinnar — er ráðandi merking orðanna undir framfaragoðsögninni, einungis enn eitt tannhjólið. Rétt eins og tölur klukkunnar eru tákn um tiltekin skref í viðhaldi gangverksins, felur merking hvers orðs — hvers frasa, hverrar klisju — í sér niðurnegldar venjur og hugmyndafræðilega fasta. Árásirnar á klukkurnar haldast þannig augljóslega í hendur við árás á orðin — afkóðun tungumálsins. Eins og sprettunál rekur hún upp orðspor og merkingarþræði framfaragoðsagnarinnar. Líkt og hnífur sker hún í sundur silkiborða frasanna. Eins og gríðarstór skófla mokar hún upp hina kviksettu. Sem óvelkominn skrúflykill laumast hún milli tannhjóla vélarinnar og stendur þannig í vegi fyrir snúningi þeirra. Þannig opnast dyr, en ekki að vélum heldur að hugsun, skynjun og tilveru handan goðsagnarinnar — að ófyrirsjáanlegum og takmarkalausum möguleikum lífs án vélarinnar.30

________________________________________________________

Sjá einnig

Þóroddur Bjarnason: Jafnvægislist
Jón Proppé: Standing in the way of progress
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson: Angeli Novi’s Time Bomb Ticking in the Continuum of History

Angelinovi.com

________________________________________________________

Tilvísanir

1 Sama tækni hafði reyndar nokkrum mánuðum áður verið prófuð á annarri þýskri borg, Darmstadt.

2 Vert er að hafa í huga að tölur um mannfall vegna eyðileggingar Dresden voru lengi vel ekki á hreinu og hafa nýnasistar nýtt sér atburðinn og ýktar tölur um mannfall til þess að reyna að afla fylgis við hugmyndir sínar. Sjá t.d. ‘Post-War Myths': The Logic Behind the Destruction of Dresden, Spiegel Online, 13. febrúar 2009.

3 Walter Benjamin: Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki, þýð. Guðsteinn Bjarnason. Hugur, 2005, s. 27-36.

4 Jón Proppé: Standing in the way of progress, Kunstkritik, 19. nóvember 2012.

5 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin, Reykjavík 2003, þýð. Þorleifur Hauksson, Hið íslenska bókmenntafélag, s. 83. Reyndar verður að teljast hæpið að segja orðið þróun, ólíkt framförum, vera hugtak sem mæla má með staðreyndum. Hin algenga skipting heimsins í þróuð lönd og þróunarlönd (eða vanþróuð lönd) er eitt skýrasta dæmið um það hvernig orðinu er gefin gildishlaðin merking og þannig ýtt undir þá skoðun að þróunarlöndin séu ekki nægilega langt á veg komin í þeirri sjálfgefnu vinnu að koma upp því efnahagslega og pólitíska kerfi sem þróuðu ríkin hafa komið upp.

6 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin, 2003. Bls. 83.

7 Innrásarstríðið í Afganistan og áframhaldandi vera herja Atlantshafsbandalagsins þar í landi hefur til að mynda verið réttlætt af Amnesty International í nafni baráttunnar fyrir fyrir kvenfrelsi. Sjá t.d. Jodie Evans: Why I Had to Challenge Amnesty International-USA’s Claim That NATO’s Presence Benefits Afghan Women, 12. júli 2012, AlterNet.

8 Stríð stöðvar ekki áform Alcoa á Íslandi, Morgunblaðið, 17. mars 2003.

9 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin. 2003, s. 84.

10 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, Orient Black Swan, Indlandi 2010, s. 276.

11 Fyrir ítarlega umfjöllun um tengsl ál- og hernaðariðnaðarins sjá t.d. „Aluminium for Defence and Prosperity“ í Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010, s. 265-395.

13 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010, s. 366.

14 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010s. 353.

15 Sjá t.d. David Barsamian: Interview with Arundhati Roy, The Progressive, apríl 2001. Roy segir til að mynda:„Hvernig get ég verið það [talsmaður eilífs viðhalds á venjum og hefðum]? Ég er kona sem ólst upp í þorpi á Indlandi og hef varið allri ævi minni í að berjast gegn hefðum. Ég vildi með engu móti vera hefðbundin indversk húsmóðir. Ég er ekki andstæð framförum. Viðfangsefni mitt er stjórnmál framfara.“

16 Arundhati Roy: Walking with the Comrades, 2010, upphaflega birt í Outlook Magazine, Delhi, Indlandi, síðar gefið út af Kasama Project, Indlandi.

17 Finnur Oddsson: Ludditar og gamlar hugmyndir, Morgunblaðið, 20. maí 2011.

18 Kirkpatrick Sale: Rebels Against the Future, 1996, Addison-Wesley Publishing Co., Bandaríkjunum, bls. 206.

19 Í stuttu máli varðaði Hegel endalok sögunnar við orrustuna um Jenu árið 1806. Sigur herja Napóleons þar á herjum Prússlands var, samkvæmt Hegel, til marks um sigur hugsjóna Frönsku byltingarinnar 1789 um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Kojève hélt þessu sama fram eftir lok Síðari heimsstyrjaldarinnar og sagði átök síðustu einnar og hálfu aldar, síðan Hegel lagði fram sína kenningu, einungis hafa styrkt hugsjónir Frönsku byltingarinnar og stuðlað að enn frekari útbreiðslu þeirra. Marx skilgreindi endalok sögunnar sem kommúnískt samfélag eftir alræði öreiganna, hugmynd sem, ólíkt kenningu Kojève, felur ekki í sér að raunverulega sé komið að endalokum sögunnar.

20 Francis Fukuyama: The End of History?, 1989, The National Interest. Sjá einnig Francis Fukyama: The End of History and the Last Man, 1992, Free Press. Fukuyama hefur þó síðar sagt kenningu sína um endalok sögunnar hafa verið ófullkomna, en þá helst vegna þeirrar ógnar sem hann telur steðja að frjálslyndu lýðræði vegna vaxandi þróunar líftækni. Þetta breytir þó litlu um endalok-sögunnar-legt andrúmsloft dagsins í dag.

21 Francis Fukuyama: „The End of History?“, 1989.

Sjá t.d. Don Bates: “Mini-Me History” — Public Relations from the Dawn of Civilization, Institute for Public Relations, 2006, og Adam Curtis: The Century of the Self, 2002, BBC Four, Bretlandi. Valdaránið í Gvatemala er ekki síst þekkt fyrir aðkomu ávaxtafyrirtækisins United Fruit Company að því, en upp úr því varð útbreitt hugtakið „bananalýðveldi“— þökkum Bernays fyrir framlag hans til hugtakasmíði.

23 Edward Bernays: Propaganda, 1928, s. 9, Horace Liveright, New York.

24 Edward Bernays: Propaganda, 1928, s 10-11.

25 Sjá t.d. Brian Morton: Falser Words Were Never Spoken, New York Times 29. ágúst 2011.

26 Slavoj Žižek: A Cup of Decaf Reality, 2004, Lacan.com.

27 Slavoj Žižek: „A Cup of Decaf Reality“, 2004.

28 Walter Benjamin: „Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki“, þýð. Guðsteinn Bjarnason, 2005.

29 Herbert Marcuse: „Liberation from the Affluent Society“, í David Cooper (ritst.): The Dialectics of Liberation, Penguin, Harmondsworth/Baltimore 1968, bls. 175-192. Ólafur Páll Sigurðsson hefur vakið athygli á því að Marcuse ruglast reyndar á Parísarkommúninni 1871 og Júlíbyltingunni 1830 og eignar hinni fyrrnefndu ranglega árásirnar á klukkurnar.

30 Bestu þakkir til Benedikts Hjartarsonar, Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur, Gunnhildar Hauksdóttur, Ólafs Páls Sigurðssonar, Steinars Braga, Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Teits Magnússonar og Viðars Hreinssonar.

]]>
1
solskin <![CDATA[Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi]]> http://www.savingiceland.org/?p=9625 2013-04-04T22:26:47Z 2013-04-04T22:23:57Z Saving Iceland bendir lesendum sínum á nýja heimildamynd Ellerts Grétarssonar, Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi, sem forsýnd var í byrjun þessa árs og hefur nú verið gerð öllum aðgengileg á netinu.

Um myndina segir:

Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og er eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til stendur að fórna þessu svæði undir orkuvinnslu sem hafa mun gríðarleg áhrif á ásýnd þessarar náttúruperlu og um leið eyðileggja gildi hennar fyrir útivist og ferðamennsku.

Í þessari heimildamynd Ellerts Grétarssonar, náttúruljósmyndara, er fjallað um Krýsuvíkursvæðið, sögu þess og jarðfræði. Varpað er ljósi á þau virkjanaáform sem uppi eru á svæðinu og hvaða áhrif þau munu hafa.

Ellert hefur ljósmyndað svæðið á ótal gönguferðum sínum undanfarin ár og kynnt sér vel náttúru þess. Í myndinni er brugðið upp fjölda mynda Ellerts af náttúruperlum svæðisins, sagt frá vinsælum gönguleiðum og fleiru áhugaverðu.

______________________________________________________________________

Sjá einnig ítarlega úttekt Saving Iceland á áhrifum fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Reykjanesinu hér og umfjöllun um umhverfis- og heilsufarsáhrif jarðhitavirkjunarinnar á Hellisheiði hér.

]]>
0
solskin <![CDATA[Skandallinn, ropið og ríkið]]> http://www.savingiceland.org/?p=9621 2013-03-23T16:01:16Z 2013-03-23T16:01:16Z Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega á Smugunni.

Í leikriti sínu, Stjórnleysingi ferst af slysförum, dregur ítalski absúrdistinn Dario Fo upp alltragíkómíska mynd af stöðu skandalsins og dæmigerðum eftirmálum hans í lýðræðisríkjum. Aðalpersóna verksins — vitfirringurinn svonefndi, dulbúinn sem hæstaréttardómari — bendir á að sé skandalnum einfaldlega leyft að koma upp á yfirborðið og velkjast dálítið um milli tannanna á fólki, gefist því færi á að „fá útrás, reiðast, hrylla við tilhugsunina… ,Hverjir halda þessir stjórnmálamenn eiginlega að þeir séu?‘ ,Úrþvætti!‘ ,Morðingjar!‘ Og svo verður fólk ennþá reiðara og svo, rop! Örlítið, frelsandi rop til að létta undir félagslegri meltingartruflun þess.“

***

Stuttu fyrir útgáfu rannsóknarskýrslu Alþingis á orsökum efnahagshrunsins 2008 fóru höfundar hennar mikinn í fjölmiðlum og vöruðu beinlínis við innihaldi hennar — sögðust hafa tárast við ritunina og mældu með því að almenningur fengi nokkra daga frí frá vinnu til að jafna sig eftir lesturinn. Þáverandi dómsmálaráðherra lét líka í sér heyra, hvatti til stillingar og fullvissaði óttaslegna þegna um að lögreglan væri vel í stakk búin til að bregðast við upplausn þeirri sem mögulega kæmi til í kjölfar opinberrar útgáfu skýrslunnar. Óeirðir lágu í loftinu — í það minnsta var ýjað að slíku. Alltumlykjandi var sú hugmynd að skandallinn væri ein meginorsök samfélagslegrar hreyfingar og umbrots — að hægðir úrþvættanna, sem við það væru að vella upp og flæða loksins ofanjarðar um samfélagið, hlytu bara að koma á stað einhverri hreyfingu.

En skýrslan kom út án varanlegra áhrifa. Vísar klukkurnar hættu ekki að snúast, hversdagurinn er að mestu óbreyttur og hjól atvinnulífsins valta enn sem áður yfir það sem í vegi þeirra stendur. Lesendur skýrslunnar gátu aftur á móti skemmt sér yfir þeirri vitneskju að fyrrum bankastjóri nokkur hafi verið fær um að innbyrgða þjóðarbakkelsið með ótrúlegum hætti — stóran súkkulaðisnúð í einum munnbita.

***

Ekki svo ólíka sögu má segja af skandalaverksmiðjunni stórgóðu og framkvæmdaglöðu, WikiLeaks. Auðvitað hafa gagnalekar hennar — til að mynda Collateral Murder myndbandið sem frumsýnt var á RÚV árið 2010 — fætt af sér reiði eða aukið þá sem fyrir var til staðar. En reiðin hefur svo sannarlega ekki orðið til þess að tryggja þeim, sem að lekunum standa, öryggi og vernd undan ofsóknum yfirvalda; hvað þá að bundinn sé endir á þann ofbeldisfulla veruleika sem gögnin sýna svart á hvítu. Það er sorglegt en satt: Meðal sýnilegustu afleiðinga lekanna — og líklega sú raunverulegasta, sú sem hvað beinust áhrif hefur haft á líf einhvers og tilveru — er að nú situr Bradley Manning í bandarísku fangelsi og bíður þess að hljóta fangelsisdóm fyrir aðkomu sína að lekunum. Á sama tíma situr Julian Assange fastur í sendiráði Ekvadors í Lundúnum, skíthræddur — og það fullkomlega skiljanlega — um að hvers kyns brölt með hann milli dómsstóla leiði á endanum til þess að honum bíði örlög Mannings.

Þó hafa lekarnir og óumdeilanleg gæði þeirra ekki afhjúpað neitt nýtt í raun og veru — ekki sýnt fram á neitt sem við ættum ekki að vita. Öllum er ljóst að í stríðum eru almennir borgarar drepnir og eins hefur lítill vafi leikið á því hvers vegna ráðist var inn í Írak. Samt sem áður hefur hver skandallinn á fætur öðrum komið upp á yfirborðið þann áratug sem síðan hefur liðið — óþægilegar staðreyndir um stríðið, orsakir þess og afleiðingar og birtingarmyndir barbarísks atferlis Bandaríkjahers og annarra herja hinna viljugu þjóða — orðið að margtuggnum fjölmiðlamat og skoðanaskiptum, leitt af sér mótmæli og kröfur um breytingar.

En hafa þeir einhverju breytt í raun og veru? Meginorsök einnar eftirminnilegustu breytingu á aktífum stuðningi hinna viljugu þjóða við innrásarstríðið hafði í það minnsta lítið sem ekkert að gera með tilkomu slíkra skandala eða eftirmála þeirra. Þvert á móti áttu þær rætur sínar að rekja til þess þegar lestasprengjur — sem komið hafði verið fyrir af hópi er kenndi sig við Al-Qaeda — sprungu í Madríd þann 11. mars 2004 og urðu tæplega tvöhundruð manns að bana. Þetta átti sér stað örfáum dögum fyrir þingkosningar þar í landi og er — að því viðbættu hve illa þáverandi stjórnvöldum tókst að eiga við árásina og eftirmála hennar — talið hafa ráðið hvað mestu um skyndilegt og áður ófyrirsjáanlegt fylgistap forsætisráðherrans José María Aznar og hægriflokks hans, Partido Popular. Í staðinn var krataflokkurinn PSOE kosinn til valda og stuttu síðar var hið þrettán hundruð manna spænska herliðið kallað heim frá Írak.

***

Það er þó alls ekki þar með sagt að skandallinn sé einskis nýtur — að skjalfesting þess vitaða, augljósa og fyrirséða sé óþörf. Hún getur einmitt þjónað því nauðsynlega hlutverki að staðfesta tiltekna vitneskju sem samfélagið hneigist til að afskrifa, draga í efa og tortryggja, sé hún ekki opinberlega skjalfest. Einhverjir muna kannski eftir íslensku sjónvarpsþáttunum Hamarinn þar sem þeir, sem stundað hafa borgaralega óhlýðni gegn stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda, voru birtir sem vænisjúkir og ofsóknaróðir taugasjúklingar. Ekki svo löngu síðar var ljóstrað upp um njósnir breska lögreglumannsins Mark Kennedy sem í sjö ár veitti yfirvöldum í Norður-Ameríku og Evrópu upplýsingar um anarkista og róttæka aðgerðasinna, þar á meðal á Íslandi. Allt frá því hefur skandallinn stækkað sem rúllandi snjóbolti, leitt í ljós áratugalangar njósnir og störf flugumanna og þannig staðfest þá vitneskju að yfirvöld skirrast ekki við beita hvaða ráðum sem er við að leggja stein í götu andófshreyfinga — líka í lýðræðisríkjum.

Viðurkenning á nauðsyn þessara uppljóstrana breytir þó engu um kjarna málsins. Stóra spurningin hér er nefnilega ekki hvort uppljóstrun og skandalar séu þarfir eða óþarfir, heldur hvort staðfesting þeirra leiði til einhverra raunverulegra breytinga á því atferli sem um ræðir hverju sinni.

***

Hið sama á við um nýjasta skandalinn á markaðnum. Rétt eins og í tilfelli Íraksstríðsins og hvað störf flugumanna lögreglunnar varðar, hefði engum átt að koma á óvart þær ekkifréttir að atvinnuuppbygging hafi nú svo gott sem drepið lífríki Lagarfljóts. Það er óþarfi — og eiginlega til marks um hálfniðurlægjandi endurtekningu á hinu augljósa og ofsagða — að týna hér til þau aðvörunarorð sem látin voru falla um akkúrat þessi áhrif Kárahnjúkavirkjunar áður en framkvæmdirnar hófust, meðan á þeim stóð og eftir að þeim lauk. Sá sem í dag kannast ekki við þau er sá sem vill þau ekki þekkja. Jafn miklu, ef ekki meira máli skipta þau virkjanaáform sem nú liggja úrbreidd á teikniborðunum og eru ekki til annars líkleg en að leiða af sér sömu áhrif eða svipuð.

Frá því að Lagarfljótskandallinn kom nú síðast upp úr ánni hefur sönn og ófögur, umfram allt löngu steingerð mynd verið dregin upp af fyrrum valdhöfum: Þeim sem ábyrgð bera á Kárahnjúkavirkjun og vill svo til að tóku sömuleiðis ákvörðun um stuðning íslenska ríkisins við innrásina í Írak auk þess að rækta jarðveginn fyrir þá skítugu birtingarmynd kapítalismans sem sýnileg varð — eða vilji varð til að gangast við og gera sýnilega — haustið 2008 og veturinn sem á eftir leið.

Heldur minna hefur farið fyrir spegilmynd þessarar ljótu myndar í dag: Fólkinu sem nú situr við valdakatlana og samþykkti nýlega svonefndan sáttmála um nýtingu náttúruauðlinda sem felur í sér glórulausa virkjun jarðhitasvæða Reykjanesskagans og byggir á goðsögn um græna orku — mýtu sem þrátt fyrir viðvarandi flóðbylgju gagnrýni og afbyggingar virðist enn við hestaheilsu. Vill svo til að sömu valdhafar tóku einnig ákvörðun um stuðning íslenska ríkisins við innrásina í Líbíu auk þess að hafa litlar sem engar tilraunir gert til að snúa raunverulega baki við ofangreindu efnahagskerfi — umfram allt unnið að því að endurreisa það og fegra með merkingarholum orðum á borð við grænt og skapandi.

Ef sagan heldur svo áfram að endurtaka sig munu skandalasögur þessara valdhafa öllum að óvörum koma upp á yfirborðið næsta áratuginn, verða að fjölmiðlamat, orsaka argaþras og reiði — loks nokkur frelsandi, daríófóísk rop.

***

Veturinn 2008-9 skaut sagan af nýju fötum keisarans reglulega upp kollinum. Yfirleitt er látið líkt og sú stórmerkilega uppgötvun mannfjöldans að keisarinn sé án klæða valdi þar einhverjum straumhvörfum — frá og með þeim tímapunkti snúi fólk baki við lygum og klækjum yfirvaldsins. En önnur er raunin. Ganga keisarans heldur áfram, enn íburðarmeiri en áður og fátt virðist benda til annars en að múgurinn hylli keisarann sem fyrr — nú með fullri meðvitund um nekt hans. Hin sögulega tilhneiging til slíkrar hegðunar er akkúrat það sem reisir stoðir undir orð vitfirringsins í leikriti Dario Fo þegar hann segir með hálfbiblískum snúningi: „Leyfið skandalnum að birtast, því á hans grunni mun enn varanlegra vald ríkisins byggjast!“

]]>
0
solskin <![CDATA[Ísland innan Evrópuvirkisins? — Leynilegar lögregluaðgerðir, takmörkun óvelkominna innflytjenda og eftirlit í netheimum]]> http://www.savingiceland.org/?p=9400 2012-07-16T15:22:08Z 2012-07-15T14:03:30Z Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.

Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu.

Ísland er einnig viðriðið innflytjendastefnu Evrópusambandsins sem innan tveggja ára mun setja í gang gríðarstórt gervihnattaeftirlitskerfi, EUROSUR. Kerfið felur meðal annars í sér notkun loftfara og vinnur saman með „Smart Border“ kerfinu svokallaða sem fylgist með ferðum fólks yfir landamæri með greiningu líffræðilegra sérkenna og annarri svipaðri tækni. Á sama tíma hefur Evrópusambandið gert breytingar á Schengen landamærasamstarfinu sem Ísland á sömuleiðis þátt í, en samkomulagið var eitt af mikilvægustu skrefunum í átt af frjálsum ferðum fólks innan Evrópusambandsins. Nú hafa hins vegar Frakkland og Þýskaland aukið landamæraeftirlit á ný, meðal annars til að hindra ferðir alþjóðlegra andófshópa og til að halda löndum á borð við Grikkland undanskildum samkomulaginu. Ísland notar einnig slíkar aðferðir, til dæmis við að stjórna ferðum mótorhjólaklúbba.

Til að hindra komu óvelkominna innflytjenda yfir Evros ánna milli Grikklands og Tyrklands er nú í gangi rannsóknarverkefni á vegum Evrópusambandsins í tengslum við notkun vélmenna við landamæraeftirlit. Landamærastofnun Evrópusambandsins, FRONTEX, sem íslenska landhelgisgæslan hefur starfað fyrir í Miðjarðahafi, aðstoðar nú tyrknesk stjórnvöld við að koma fyrir lögreglu- og tollgæslustöð við landamæri Tyrklands, Búlgaríu og Grikklands. Í fyrsta sinn kemur evrópska lögreglustofnunin EUROPOL að slíku starfi en venjulega tekur stofnunin ekki þátt í baráttunni gegn innflytjendum.

Á hinn bóginn verður helsta verkefni EUROPOL nú eftirlit með svokölluðum „netglæpum“ og „nethryðjverkum“. Stofnunin býr yfir gríðarstórum gagnagrunnum og miklu magni stafrænnar rannsóknartækni sem notuð eru til að styðja við þverlandamæralegar aðgerðir lögregluembætta allra meðlimaríkja Evrópusambandsins. EUROPOL fylgist nú í auknu mæli með meintri „grunsamlegri“ hegðun á vefnum — þróun sem krefst aukins öryggis internet-aktívista sem og almennra borgara.

Í erindi sínu mun Monroy greina frá þróun þessara mála innan Evrópusambandsins, leynilegum lögregluaðgerðum gegn andófshópum, baráttunnni gegn óvelkomnum innflytjendum og auknu eftirliti í netheimum. Monroy mun einnig skýra frá því hvernig Ísland er viðriðið yfirstandandi aðgerðir og framtíðaráætlanir Evrópusambandsins í þeim efnum, sem og hvaða áhrif þær hafa nú þegar haft eða koma til með hafa hér á landi.

Erindið fer fram mánudaginn 23. júlí kl. 20:00 í Reykjavíkur Akademíunni sem er til húsa í JL Húsinu, Hringbraut 121, 107 Reykjavík. Erindið fer fram á ensku og aðgangur er ókeypis.

Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við Saving Iceland: savingiceland [at] riseup.net

Safn frétta og greina Saving Iceland um mál Mark Kennedy

Greinasafn Matthias Monroy

]]>
2
solskin <![CDATA[Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting]]> http://www.savingiceland.org/?p=9339 2012-05-27T13:05:26Z 2012-05-27T13:01:07Z Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á.

Ekki sjálfbær nýting

Hér á landi hefur lítið verið rætt um ýmis neikvæð áhrif jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana, trúlega sökum þess að um endurnýjanlega orkugjafa er að ræða og telja flestir þá þar af leiðandi vera jákvæða kosti í orkunotkun. Má þar benda á rök þess efnis að betra sé að hafa orkufrekan iðnað hér á landi, þar sem endurnýjanlegir orkugjafar eru notaðir, heldur en í löndum þar sem notuð er raforka sem framleidd er með kolum eða olíu. Þegar þessi mál eru hins vegar skoðuð nánar verður þó að hafa í huga að þó vatnsafl og jarðvarmi séu endurnýjanlegir orkugjafar, þá er nýting þessara orkugjafa ekki sjálfbær eins og hún er stunduð hér á landi sem stendur. Það er sökum þess að vatnsaflsvirkjanir sem nýta sér fallorku úr jökulám krefjast miðlunarlóna sem ganga oftast nær á gróið land, lónin fyllast af aur og svæðið mun því með tímanum breytast í örfoka land.

Varðandi jarðhitasvæði, þá er upptaka vökva á svæðum sem nýtt eru til raforkuframleiðslu mun meiri en innstreymi inn í jarðhitageyminn og því gengur jarðhitinn til þurrðar með tímanum en eftir það þarf að hvíla svæðið. Ekki er enn vitað hversu langan tíma svæðið þyrfti hvíld. Því má sjá að þó um endurnýjanlegar auðlindir sé að ræða eru þær ekki með óendanlega raforkuvinnslu og virkjanirnar skilja eftir sig töluverða eyðileggingu. Því þarf að stíga varlega til jarðar í nýtingu þeirra, og helst þyrfti að bíða með frekari nýtingu þar til reynsla kemst á þær virkjanir sem reistar hafa verið á allra síðustu árum.

Koltvísýringslosun

Mikil áhersla hefur verið lögð á það að Ísland búi yfir miklu magni af „grænni orku“ en með því er átt við að það sé orka sem ekki brenni jarðefnaeldsneyti. Með því móti er gert ráð fyrir því að ekki sé um neinn koltvísýringsútblástur að ræða. Það er þó ekki alls kostar rétt þar sem koltvísýringslosun frá jarðvarmavirkjunum hér á landi nam 185 þúsund tonnum árið 2008, eða 6% af heildarlosun koltvísýrings á Íslandi1. Vatnsaflsvirkjanir hafa einnig áhrif á magn kolefnis í andrúmsloftinu. Stór miðlunarlón valda því að gróðurlendi er sökkt en rotnandi gróðurleyfar gefa frá sér metangas sem eykur hnattræna hlýnun. Talið er að um 7% koltvísýringsútblásturs af manna völdum komi vegna slíkra framkvæmda2. Framburður jökulánna hefur jákvæð áhrif á vistkerfi sjávar og nærir þörungagróður við strendurnar en sjávarlífverur eru afar mikilvægar þáttur í því að vinna koltvísýring úr andrúmsloftinu og talið er að slíkur gróður vinni 15 sinnum meira magn af koltvísýringi en sama stærð af skóglendi3. Sjórinn er árlega talinn vinna um 11 milljarða tonna af koltvísýringi sem sleppt er út í andrúmsloftið af manna völdum4. Með virkjun jökuláa og tilheyrandi raski á framburði þeirra og þörungagróðri eru Íslendingar ekki eingöngu að stefna fiskistofnum í hættu, með öllum þeim skaða sem það gæti haft á sjávarútveg landsins, heldur einnig að stuðla enn fremur að hnattrænni hlýnun með alvarlegri hætti en með skógareyðingu sem hefur þó verið mun meira gagnrýnd á heimsvísu en röskun sjávarvistkerfa.

Jarðvarmavirkjanir

Í 2. áfanga rammaáætlunar raðast jarðvarmavirkjanir í 20 af 25 efstu sætunum með tilliti til nýtingar. Verði Hvamms- og Holtavirkjanir færðar í biðflokk, sem ég fagna sem íbúi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, munu jarðvarmavirkjanir skipa 22 af 25 efstu sætunum. Þessi röðun er áhyggjuefni sökum þess hve lítið er vitað um langtímaáhrif jarðvarmavirkjana og er nauðsynlegt að
meiri reynsla komist á þær jarðvarmavirkjanir sem þegar eru til staðar áður en ráðist verður í fleiri. Enn er eftir að leysa vandamál sem þeim fylgja, til að mynda varðandi hættuleg efni í affallsvatni jarðvarmavirkjana og mengandi efni í útblæstri frá þeim. Þetta þarf sérstaklega að skoða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem brennisteinsútblástur er nú þegar mjög hár5.

Einnig ber að hafa í huga að nýting jarðvarma til raforkuframleiðslu er ekki sjálfbær nýting þar sem varmaforði jarðhitasvæðanna gengur til þurrðar að lokum. Nýting þeirra miðast við 50 ár, sem er að sjálfsögðu mjög skammur tími. Ef til stendur að nýta raforku frá slíkum virkjunum til atvinnuuppbyggingar verður að hafa í huga að 50 ár eru fljót að líða og því yrði ekki um framtíðarstörf að ræða. Að sama skapi verður að hafa í huga að slík skammtímanýting yrði til þess fallin að gengið yrði á rétt komandi kynslóða til að nýta jarðhitaauðlindina, hvað þá að nýta hana með verndarnýtingu til útivistar og þekkingarsköpunar þar sem jarðvarmasvæði á borð við þau sem finna má hér á landi eru einstök á heimsvísu. Í fjölmiðlum hefur verið bent á það á undanförnum vikum að þau jarðhitasvæði sem nú þegar hafa verið tekin til nýtingar og tilraunaborana hafa ekki verið nýtt til raforkuframleiðslu á þann hátt að það fari saman við ferðamannaiðnað eða útivist, þar sem útliti svæða og umhverfi þeirra hefur verið raskað í miklum mæli6.

Efnahagsleg rök

Þegar kemur að efnahagslegum rökum er gjarnan hrópað hátt á skammtímalausnir í atvinnumálum. Nauðsynlegt sé að ráðast í sem flestar nýjar virkjanir á sem skemmstum tíma til að skapa sem flest störf. Framkvæmdadrifið efnahagskerfi mun ávallt leiða af sér óstöðugleika en það er slíkur óstöðugleiki sem er helsta mein íslensks efnahagslífs. Íslenskt efnahagslíf þarf öðru fremur stöðugleika og framtíðarsýn sem nær lengra en 10 ár fram í tímann. Ef byggja á upp stöðugt atvinnulíf til framtíðar verður það að gerast með sjálfbærum hætti, en verði það gert með áframhaldandi ágengri nýtingu á auðlindum landsins munu verða regluleg efnahagshrun hér á landi í komandi framtíð. Með því að leggja ofuráherslu á ágenga nýtingu vatnsafls- og jarðvarma með tilheyrandi framkvæmdabólum verður hér á landi viðhaldið háu atvinnuleysi með misjafnlega skammvinnum uppgangstímum inni á milli.

Heimildir:

1. Birna Sigrún Hallsdóttir, Kristín Harðardóttir, Jón Guðmundsson og Arnór Snorrason. 2009. National Inventory Report Iceland 2009 Submitted under the United Nations Framework Convention no Climate Change. Umhverfisstofnun.

2. Náttúruverndarsamtök Íslands ofl. 2011. Umsögn um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. (Download pdf. here.)

3.  Worldwatch Institute. 2011. Oceans Absorb Less Carbon Dioxide as Marine Systems Change.

4. The Guardian. 2009. Sea Absorbing Less CO2, Scientists Discover. 12. janúar 2009.

5. Náttúruverndarsamtök Íslands ofl. 2011. Umsögn um drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

6. Ómar Ragnarsson. 2012. Já, það varð svona og það verður svona. Morgunblaðið. 2012. Borteigar . „Verður þetta allt svona ?“ 5. maí 2012.

Sjá einnig:

International Rivers. Problem With Big Dams.

International Union for Conservation of Nature. 2009. Ocean Carbon Central for Climate Change.

]]>
0
solskin <![CDATA[Sakaður um svik vegna skoðanna sinna]]> http://www.savingiceland.org/?p=9319 2013-12-06T13:50:03Z 2012-05-22T12:15:55Z Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum.

Heimilið ber þess merki að hann er mikill náttúruunnandi, hér er fjöldi bóka um hálendi Íslands, náttúruna og dýralíf. Þórhallur hefur líka lengi ferðast um hálendið og þekkti þetta svæði betur en margir. „Ég var búinn að ferðast um þetta svæði áratugum saman. Ég var búinn að fara þarna um gangandi, á bíl og fljúga yfir það. Ég fór um þetta svæði sumar og vetur. Ég fór þarna sem leiðsögumaður og þekkti þetta svæði mjög vel. Þannig að ég er ekki einn af þeim sem eru að tala um þetta og hafa ekki þekkt það.“

Hann þekkti svæðið og honum þótti vænt um það. Honum þótti sárt að sjá landinu sökkt fyrir lónið og hefur aldrei tekist að sætta sig við það. „Ég er gríðarlega ósáttur við allt sem þessu við kemur. Virkjunina, álverið, umhverfisáhrifin og í ofanálag hefur þetta ekki fært okkur það sem ætlast var til. Þannig að ég sé ákaflega lítið jákvætt við þetta,“ segir Þórhallur.

„Fórnin inn frá, umhverfisáhrifin af þessum framkvæmdum, er þannig að það er ekki hægt að réttlæta það sem þarna var gert. Tugir fossa sem margir hverjir voru mjög fallegir eru að hverfa og eru nánast vatnslausir. Þar sem lónið er fór mjög merkilegt svæði undir vatn. Hálsinn sem var aðalburðarsvæði hreindýranna. Þetta var líka eini staðurinn á Íslandi þar sem samfelldur gróður var frá sjó og upp að jökli. Nú er búið að rjúfa það með Hálslóni.“

Andstaðan á Austurlandi

Á ferð blaðamanns um svæðið var heimafólki tíðrætt um það hvernig listamenn úr 101 mótmæltu þessum aðgerðum. Þórhallur bendir hins vegar á að fyrsta andstaðan sem myndaðist gegn þessum framkvæmdum var á Héraði. „Það virðist oft gleymast því það er alltaf talað um 101 Reykjavík. En hér var stofnað félag um verndun hálendis á Austurlandi áður en þessar deilur hófust. Félagið var stofnað gegn þessum framkvæmdum, Kárahnjúkar voru ekki einu sinni komnir í almenna umræðu þá þótt við vissum auðvitað af þeim.“

Á stofnfundinn mættu um tuttugu til þrjátíu manns sem sammæltust um mikilvægi þessa félags. Fljótlega fór þó að tínast úr hópnum. „Menn sem voru að öndverðum meiði miðað við það sem almennt gekk voru kúgaðir. Dæmið var sett upp með þeim hætti að Austfirðingar stæðu saman. Við hinir sem vorum andvígir þessum aðgerðum vorum ekki sannir Austfirðingar. Og við vorum alls ekki góðir borgarar. Við vorum svikarar í huga fólksins. Við vorum bara fólkið sem vildi að aðrir færu aftur í torfkofana eins og sagt var. Við vorum sagðir á móti framförum, á móti því að skapa börnunum framtíð, þetta dundi á manni, að börnin kæmu ekki aftur heim eftir nám, að þau fengju ekki vinnu. Í huga þessa fólks var ég að taka lífsviðurværið af börnunum þeirra með andstöðunni, koma í veg fyrir atvinnusköpun og lækka verð á húsnæði hér fyrir austan. Þetta fékk ég allt að heyra. Svona var þetta.“

Fyrstu mótmælaaðgerðirnar

Einu sinni gekk fúkyrðaflaumurinn þó lengra en eðlilegt getur talist. „Mér var hótað lífláti. Maður sem ég hafði unnið með mætti mér úti á götu og sagði að það ætti bara að skjóta mig. Auðvitað var sárt að mæta þessu, það var sárt því það var verið að reyna að kúga mig. Persónugera málið þannig að ég væri að hafa eitthvað af fólki, koma í veg fyrir að fólkið hér lifði eðlilegu lífi. Það var viðhorfið. Ég hef búið hér frá því að ég var lítill krakki og hef frá unga aldri verið að vinna þessu samfélagi gagn. Ég tók þátt í því að byggja það upp, félagslega og sem einstaklingur.

Ég hef verið hér allt mitt líf. Þrátt fyrir andstöðu mína við þessar framkvæmdir leit ég svo á að ég væri ekki síður meðlimur þessa samfélags enda hef ég ekkert gert hér sem réttlætir það að ég sé borinn þeim sökum að vilja spilla fyrir samfélaginu, ég var bara á móti þessari aðgerð. En það átti að kúga mig eins og aðra til hlýðni.“

Þrátt fyrir allt sem á gekk á þessum tíma voru hugsjónir Þórhalls þess eðlis að hann neitaði að þegja, staðráðinn í að láta ekki þagga niður í sér og hann barðist áfram fyrir hugsjónum sínum með orðum og gjörðum. „Ég er líklega eini Austfirðingurinn sem var sektaður fyrir andstöðu sína gegn Kárahnjúkum. [Guðmundur Már Beck bóndi á Kollaleyru í Reyðarfirði var einnig sektaður fyrir að mótmæla við verksmiðju ALCOA. Ritstj. SI] Ég lokaði ásamt fleirum uppi á brú við Bessastaðaá og fékk sekt fyrir,“ segir hann og bætir því glottandi við hann hafi glaður greitt sektina. „Þessi mótmæli voru táknræn fyrir ástandið, táknræn fyrir það að málið væri komið í hnút. Við ætluðum aldrei að hefta för þeirra sem þarna voru á ferð,“ segir Þórhallur en það var stjórn Landsvirkjunar ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem var þá borgarstjóri, og deilan var um Eyjabakka. „Við lásum fyrir þau tvær ályktanir frá félagi um verndun hálendis Austurlands og þar með var þessum mótmælum lokið.“

Hann sér ekki eftir þessu þótt hann hafi þurft að taka afleiðing um gjörða sinna. „Ég var þarna í mínum frítíma en starfaði á þessum tíma fyrir Rafmagnsveitu ríkisins. Og það upphófust einhverjar almestu nornaveiðar á Austurlandi fyrr og síðar. Harkan er mér minnisstæð.“

Hart sótt að honum

Þau voru þrjú sem stóðu fyrir þessum mótmælum. Þórhallur, Karen Erla Erlingsdóttir, sem starfaði sem grunnskólakennari, og Hrafnkell A. Jónsson, sem nú er látinn. „Foreldrar hringdu í skólastjórann og kröfðust þess að nemendur yrðu ekki í tíma hjá þessari konu. Pólitíkusar á Austurlandi reyndu ítrekað að láta reka mig úr vinnu. Það var hringt í rafmagnsveitustjóra ríkisins, rafveitustjórann hér og þess var krafist að ég yrði rekinn úr vinnunni vegna þess sem ég gerði í mínum frítíma. Stjórnarformaður Rarik fékk ekki frið fyrir þessum mönnum. Og ég þurfti að standa fyrir máli mínu, ég var kallaður inn til rafmangsveitustjórans hér og þurfti að sanna það fyrir honum að ég hefði verið í fríi, mín orð nægðu ekki og ég þurfti að kalla til verkstjórann sem gaf mér frí. Það var allt reynt. Þetta var harka.

Og þegar ég fékk þau skilaboð að áhrifamenn á Austurlandi, virtir borgarar í sínu samfélagi, væru að reyna að klekkja á mér og hrekja mig úr vinnu vegna skoðana minna fékk ég mjög einkennilega tilfinningu fyrir því hvernig samfélagi ég bý í.

Ég varð líka vitni að framferði lögreglu sem var að eltast við mótmælendur inni á hálendi sem varð til þess að ég velti því fyrir mér hvort ég byggi í lögregluríki. Reynt var að taka hvíld af fólki með því að setja sírenu á um miðjar nætur, það var stöðugt verið að keyra fram hjá þeim og í kringum bíla þeirra, taka flassmyndir í rökkri og loka vegum þannig að ekki var hægt að færa þeim vistir. Ég sá þetta gerast.“

Vissi alltaf af fleirum

Mótmælendur slógu upp búðum á hálendinu tvö sumur í röð. Fyrra sumarið komu þeir upp búðum á landi Biskupsstofu. „Umburðarlyndi kirkjunnar var ekki meira en svo að Biskupsstofa óskaði eftir því að þeir yrðu fjarlægðir. Ári seinna höfðu mótmælendur samband við mig vegna þess að ég hafði fært þeim mat með því að fara aðrar leiðir að búðunum þegar veginum var lokað. [Það var reyndar sumarið 2006 sem Þórhallur rauf herkví lögreglunnar um mótmælabúðirnar til þess að færa mótmælendum mat og vistir. Einnig hefur komið fram að landið er í eigu Þjóðkirkjunnar en Biskupsstofa hafði samband við Þórhall vegna málsins. Ritsj. SI] Ég studdi þetta fólk því það var að vinna starf sem við gátum ekki unnið, heimamenn. Þau voru að andmæla því sem fáir treystu sér til að andmæla hér fyrir austan vegna þess að framkoma við þá fáu sem þorðu því var þess eðlis. Fólk fylgdist með því og vissi hvernig þetta var. Það var látið berast hvernig lið við værum. Þess vegna hafði fjöldi fólks samband við mig sem annars þorði ekki að láta uppi sína skoðun, þorði ekki að vera í baráttunni. Ég vissi alltaf að ég talaði fyrir hönd fleiri.“

Þannig að þegar fulltrúi Saving Iceland hafði samband var Þórhallur allur af vilja gerður til að hjálpa þeim. Hann var í forsvari fyrir Ferðafélagið og benti þeim á að það væri nánast útilokað að vísa þeim frá Snæfellsskálanum þar sem tjaldstæðið hefði verið opið áratugum saman. Úr varð að þar yrðu reistar tíu daga mótmælabúðir. „Síðan fór þetta að spyrjast út og ég fékk símhringingu frá Biskupstofu þar sem ég var spurður hvort ekki væri hægt að koma í veg fyrir þesar búðir. Ég sagði að þetta hefði verið opið tjaldstæði síðan skálinn var byggður og bauð manninum að koma sjálfur austur til að vísa fólkinu frá. Nokkrum dögum seinna hringdi blaðafulltrúi Landsvirkjunar og hafði sömu áhyggjur af þessu. Spurði hvort við gætum takmarkað fjöldann, hvort heilbrigðisyfirvöld myndu samþykkja og þannig fram eftir götunum. Ég sagði honum það sama, að þetta væri opinbert tjaldstæði og við gætum ekki flokkað inn á það. En þú sérð ástandið.“

Innan Ferðafélagsins voru heldur ekki allir á eitt sáttir. „Sumir stjórnarmenn voru andvígir þessu og það voru deilur innan félagsins. Ég spurði þá hvað þeir ætluðu að gera, hvort Ferðafélagið ætlaði þá að velja inn á tjaldstæði í framtíðinni. Fólkið kemur bara inn á tjaldstæðið, fer eftir þeim reglum sem þar eru og borgar sín gjöld. Á meðan getum við lítið gert. Og menn áttuðu sig á því að þeir voru að seilast ansi langt.

Þannig að þau komu og voru þarna í tíu daga. Það gekk prýðilega en svo fóru þau annað og lentu í ýmsum hremmingum.“

Friðlýsingu aflétt

Meðferð pólitíkusa á málinu er honum líka hugleikin. „Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um rammaáætlun núna. Talað er um að pólitíkusar séu að hringla með álit sérfræðinga. Þá er vert að minnast þess að Kárahnjúkavirkjun var tekin út úr rammaáætlun. Það fékkst ekki fjallað um hana nema að mjög litlu leyti. Það voru pólitískar sem tóku ákvörðun um það. Þetta fór í umhverfismat og skipulagsnefnd hafnaði þessum framkvæmdum vegna umhverfisáhrifa en þá fór málið í pólitískt ferli og sú ákvörðun var tekin að virkja þrátt fyrir álit umhverfisstofnunnar sem sagði umhverfisáhrifin óásættanleg.

Það væri rannsóknarefni að skoða hvernig staðið var að þessari virkjun. Þarna var aflétt friðlýsingu af landi til að hægt væri að sökkva því. Það hefur ekki gerst áður á Íslandi en það gerði Siv Friðleifsdóttir. Það er hennar minnismerki að vera sá umhverfisráðherra sem stóð fyrir hvað mestum umhverfisspjöllum,“ segir Þórhallur og er ómyrkur í máli.

Gamla fólkið komst burt

Að hans mati hefði aðeins verið verra út frá umhverfisáhrifum að sökkva Þjórsárverum. „Næst á eftir voru Kárahnjúkar. En þetta snýst allt um pólitík, Íslendingar þurfa ekkert á pólitík að halda. Danir komast fínt af án stóriðju. Þetta er alltaf bara spurning um pólitíska stefnu og það eru áratugir síðan það var farið að lofa Reyðfirðingum því að það ætti einhver að koma og gera eitthvað fyrir þá. Þá gleyma menn sjálfsbjargarviðleitninni.

Gengið var allt of hátt skráð og iðnaðurinn fór úr landi. Skinney-Þinganes flutti með allt sitt á Höfn í Hornafirði, Samherji keypti upp kvóta á Stöðvafirði og Eskifirði og fór með hann þaðan en fólk taldi að það gerði ekkert til því það var að koma álver. Það er alltaf hægt að svelta menn til hlýðni. Það er hægt að gera umhverfið þannig að það takið við. Álverið kom allt í einu sem einhver björgunarhringur. Það jákvæða við það er að yngra fólk býr í Fjarðabyggð en áður. Gamla fólkið komst í burtu. En á bak við það liggur fórnin. Fórnin var allt of mikil og fórnin var Héraðsins. Við fórnuðum þessu fyrir amerískan auðhring. Við fórnuðum öllu fyrir allt of lítið. Á meðan þetta var allt að ganga í gegn átti samstaðan á ríkja á öllu Austurlandi og það var talað um landshlutann sem eina heild. En um leið og þetta var orðið þá var slík samstaða úti.

Beinar og óbeinar greiðslur

Hann hefur þó skilning á því af hverju Fjarðarmenn töluðu fyrir þessum framkvæmdum og lögðu áherslu á að fá álver. „Ég skil þá ósköp vel enda fengu þeir eitthvað út úr þessu. En við fengum of lítið út úr þessu, það er alveg ljóst. Ég held að það séu 200 manns sem sækja vinnu í álverið héðan. 200 störf eru allt of lítið fyrir þessa fórn. 500 störf hefðu líka verið of lítið fyrir landsvæðið sem var spillt. En í flestum tilfellum getur þú keypt menn með því bera fé á þá og ég skil bændur sem höfðu aldrei séð peninga og fengu allt í einu loforð um fjármuni sem þeir hefðu annars aldrei getað látið sig dreyma um. En er það þannig sem við viljum hafa það? Að það sé hægt að villa mönnum sýn með fé?

Ef þeir hefðu staðið í lappirnar og hafnað þessu, ef Fljótsdalshérað hefði hafnað þessu, pólitíkusar og almenningur, þá hefði þetta aldrei orðið að veruleika. Þeir sem segja að við höfum ekki haft neitt um þetta að segja eru menn sem hafa slæma samvisku yfir því að hafa ekki barist gegn þessu.

Alls staðar í heiminum nema á Íslandi hefðu þessar mótvægisaðgerðir, sem svo eru kallaðar, verið álitnar mútur. Sveitastjórnarmenn voru hreinlega keyptir. Bændur og áhrifamenn voru ráðnir á góðum launum og bændur fengu traktor til að bera áburð á óræktuð svæði. Allar svona óbeinar greiðslur til áhrifamanna hafa áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar og út frá hvaða forsendum. Bændur fengu bætur fyrir spjöllin en það að borga einni kynslóð skaðabætur er ekki eðlilegt. Eðlilegra hefði verið að tengja bæturnar við raforkuframleiðslu og greiða þær árlega til íbúa á svæðinu.“

Gullfoss gæti gleymst

Aðspurður hvaða máli þetta landsvæði skiptir í raun svarar Þórhallur: „Við getum sagt sem svo að þetta hafi verið aðdráttarafl. Fossarnir sem eru nú orðnir þurrir, gróðurlendið sem fór undir, víðernið sem er alltaf að verða dýrmætara. Að fá að hafa þetta er engu líkt. Þarna hefði verið hægt að fara með mörg hundruð þúsund ferðamenn án þess að eyðileggja landið ef það væri vel skipulagt. Til lengri tíma litið myndi það skapa meiri tekjur.

Hugsaðu þér, einu sinni voru Gullfoss og Geysir ekki fjölmennir ferðamannastaðir. Fyrir fimmtíu til hundrað árum síðan var erfitt að komast þangað. Með tímanum hefði líka verið hægt að byggja þetta svæði upp. Við getum ekki fórnað einhverju svæði af því að það eru fáir sem þekkja það. Með sömu rökum væri hægt að þurrka upp Gullfoss því að á nokkrum áratugum gleymum við honum og komandi kynslóðir munu ekki vita að þarna var einu sinni fallegur foss. Við getum ekki hugsað með þessum hætti. Ein kynslóð getur ekki farið svona með þjóðargersemina sem náttúra Íslands er.

Ég fór fyrst akandi inn í Hafrahvamma árið 1972 og það hafa legið vegir og slóðar þarna áratugum saman en það var erfitt að fara þá. En það hefði verið hægt að auka aðgengið að svæðinu.“

„Sama skelfingarástand víða“

Að lokum segir hann að áhrif álversins hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem samfélagið hafði. „Það hefur ekki enn tekist að manna þetta með Íslendingum. Álverið ræður aðeins íslenskumælandi fólk til starfa en þrátt fyrir allt atvinnuleysið og auglýsingamennskuna manna undirverktakar sín fyrirtæki að miklu leyti með útlendingum því það er ekki hægt að fá Íslendinga í þetta. Starfsmannaveltan hefur verið allt að 25 prósent. Þrátt fyrir allar hörmungarnar sem dundu á þjóðinni er þetta ekki betri vinnustaður en það.

Vorum við að sökkva þessu landi, vorum við að eyðileggja þessa náttúru, vorum við að þurrka upp fossana til þess að flytja inn farandverkamenn? Vill ekkert af þessu atvinnulausa fólki á Suðurnesjum koma austur, flytja hingað í tómar íbúðir og vinna í álverinu í Reyðarfirði? Er ekki eitthvað að? Af hverju sækir fólk ekki um vinnu þarna?“ spyr Þórhallur og bætir því við að það sé ekki eftirsóknarvert að vinna í kerskálanum eða steypuskálanum, þótt önnur störf séu vissulega áhugaverð. „Þarna eru tólf tíma vaktir og ég þekki engan sem vinnur í álverinu sem lítur á það sem sitt framtíðarstarf. Ég þekki líka fólk sem hætti að vinna þarna af því að vaktirnar voru of langar og það vildi ekki fórna fjölskyldunni. Fólk vinnur þarna þar til það fær betra starf. Efnahagskreppan mun jafna sig á nokkrum árum og hvernig verður þetta þá? Munum við manna álverið með útlendingum sem koma hingað á vertíð?

Þetta átti að bjarga öllu en það er enn sama skelfingarástandið víða. Álverið hafði til dæmis engin áhrif til batnaðar á Stöðvarfirði eða í Breiðdalsvík.

Fólksfjölgun á Austurlandi varð ekki sú sem stefnt var að. Og hér fór allt á annan endann því stjórnleysið var algjört. Hér voru byggð hús sem enginn er í, hér voru lagðar götur fyrir hús sem aldrei voru byggð. Sveitarfélagið er á hausnum, enda dýrt að fara í svona framkvæmdir og eins er það kostnaðarsamt að vera með mikið af hálfbyggðu gatnakerfi. Eflaust mun það jafna sig á einhverjum áratugum. En þetta var ekki þess virði.“

]]>
1
solskin <![CDATA[Íslensk stjórnvöld og umhverfisverndarsamtök – frá Ríó til Ríó]]> http://www.savingiceland.org/?p=9729 2013-08-28T16:40:51Z 2012-05-01T16:33:16Z Eftir Árna Finnsson. Upphaflega birt í Tímariti Máls og Menningar, 2. hefti 2012.

Dagana 20.–22. júní verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, Ríó +20, en þá verða liðin 20 ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Enn er óljóst hvort þjóðarleiðtogar sæki ráðstefnuna, enda forðast þeir alþjóðlegar ráðstefnur er gætu leitt til niðurstöðu sem væri langt undir væntingum, sbr. Kaupmannahafnarráðstefnuna í desember 2009. Ekki bætir úr skák að þemu Ríó +20 hafa þótt heldur óspennandi fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta til sín taka í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla.

Til þess að auka aðsókn þjóðarleiðtoga – og þar með pólitískt vægi Ríó +20 – hafa augu manna beinst að lífríki hafsins – hinu bláa hagkerfi – sem er ógnað vegna rányrkju, eyðingu kórala og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk, að viðbættri eyðileggingu strandsvæða og súrnun sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.1

Sú hugmynd að verndun hafsins verði eitt af helstu þemum Ríó +20 nýtur vaxandi stuðnings. Hvort hún dugir til að laða að þjóðarleiðtoga er óvíst á þessu stigi máls, en fyrir 20 árum sóttu 120 þjóðarleiðtogar ráðstefnuna í Ríó. Hvað Ísland varðar er ljóst að enginn forsætisráðherra í sögu lýðveldisins hefur fjallað jafn vandlega um umhverfismál í áramótaávarpi sínu og Jóhanna Sigurðardóttir gerði sl. gamlárskvöld. Borið saman við árið 1992 hefur málflutningur íslenskra stjórnvalda gjörbreyst.2

Afstaða og stefna íslenskra stjórnvalda gagnvart umhverfisverndarsamtökum hefur tekið afgerandi breytingum frá því fyrir 20 árum. Þær breytingar voru staðfestar í fyrra þegar Alþingi fullgilti Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.3

Í tillögum Íslands um hverjar skuli vera helstu áherslur lokaplaggs Ríó +20 – fyrsta uppkast að niðurstöðu Ríó +20 – er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld eigi gott samstarf við frjáls félagasamtök (civil society) og að samstarf stjórnvalda við samtök almennings verði eflt, í samræmi við áherslur Dagskrár 21 og þá Framkvæmdaáætlun sem samþykkt var í Jóhannesarborg árið 2002 og kvað á um, í lauslegri þýðingu:

… að ríki skuldbindi sig til að koma í framkvæmd alþjóðlegum skuldbindingum um sjálfbæra þróun, bæði staðbundið og á landsvísu. Áhrifaríkasta leiðin til þess að það geti orðið er að stjórnvöld eigi virkt samstarf við frjáls félagasamtök um að auka vitund almennings, sem og að alþjóðleg stefnumótun verði tekin upp heima fyrir, á landsvísu, svæðisbundið og á öllum stjórnsýslustigum …4

Þessi tillaga Íslands ber vott um vilja stjórnvalda til að gera félagasamtökum kleift að sinna borgaralegu hlutverki sínu heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Á hinn bóginn verður að segjast eins og er, að tortryggni og fjandskapur ráðherra, alþingismanna og embættismanna í stjórnarráðinu í garð umhverfisverndarsamtaka og/eða stefnumiða þeirra hefur í nær aldarfjórðung verið dragbítur á alla umræðu og stefnumótun í umhverfismálum hér á landi.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks (1991–1995), Velferð á varanlegum grunni, segir:

Síðastliðna tvo áratugi5 hefur andstaða á alþjóðavettvangi gegn eðlilegri nýtingu sjávarspendýra stöðugt vaxið. Ýmsum erlendum þrýstihópum hefur með skipulögðum vinnubrögðum og áróðri, sem oft eiga ekki við nein vísindaleg rök að styðjast, tekist að stöðva nær allar hval- og selveiðar. Langvarandi friðun sjávarspendýra mun raska jafnvægi í lífríki hafsins og valda samdrætti í fiskveiðum.6 Íslensk stjórnvöld telja að fiskveiðiþjóðir þurfi að snúa vörn í sókn og vinna sameiginlega gegn stefnu sem leiðir til ofverndunar einstakra tegunda …7

Athygli vekur að þessi stefnuyfirlýsing er samþykkt í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar, en um langt árabil þar á undan höfðu íslensk stjórnvöld háð áróðursstríð gegn umhverfisverndarsamtökum (undir þeim formerkjum að þar væru „erlendir þrýstihópar“ á ferð). Stjórnvöld voru dæmd til að tapa þessu stríði enda beindist það gegn inntaki og markmiði Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992 (10. gr.)8 um nauðsyn þess að hinn almenni borgari beiti sér fyrir verndun umhverfisins, sem og að stjórnvöld í hverju ríki auðveldi þátttöku almennings í þessu efni. Íslensk stjórnvöld hafa nú lagt til að þetta verði hluti af niðurstöðum Ríó +20, tuttugu árum eftir að það var fyrst samþykkt í Ríó-yfirlýsingunni og var forsenda Árósasamningsins sem gerður var 1998.

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun9 var að miklu leyti árangur umhverfisverndarbaráttu sjöunda, áttunda, og níunda áratugar síðustu aldar. Hugtakið sjálfbær þróun – sú hugsun að skila jörðinni til næstu kynslóða án þess að takmarka möguleika þeirra til að njóta auðlegðar náttúrunnar – var til marks um að ríki heims viðurkenndu að ef ekki næðist jafnvægi í sambúð manns við móður jörð stæði mannkynið frammi fyrir hruni vistkerfis jarðar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú, 20 árum síðar, á sjálfbær þróun í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru í Ríó de Janeiro árið 1992, enn langt í land. Þess vegna er boðað til Ríó +20.

Í bók sinni Framtíð jarðar, segir dr. Gunnar G. Schram um Ríó-yfirlýsinguna að:

Gildi Ríó-yfirlýsingarinnar felst í því að líta má á hana sem eins konar stjórnarskrá ríkja heims í umhverfismálum á komandi árum. Þar er stefnan mörkuð, markmið sett og nýmæli mótuð sem án efa munu setja mark sitt á löggjöf og framkvæmd ríkja í umhverfismálum á næstu árum og áratugum. Yfirlýsingin er ekki lagalega skuldbindandi fyrir ríki en með því að ljá henni atkvæði sitt hafa ríki veraldar staðfest að þau vilja framkvæma þá stefnu sem í henni felst.10

Þótt Ríó-yfirlýsingin hafi ekki verið lagaleg skuldbindandi fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa þær grundvallarreglur sem þar er að finna smám saman verið lögfestar, bæði í einstökum ríkjum og í alþjóðasamningum (varúðarreglan var tekin upp í Úthafsveiðisamningi Sameinuðu þjóðanna).11

Leiðarstef Árósasamningsins – sem er skilgetið afkvæmi 10. greinar Ríó-yfirlýsingarinnar – er áherslan á tengsl mannréttinda og umhverfismála. Sú staðreynd að fullgildingarferlið hér á landi skyldi taka rúman áratug er til marks um þann hausverk sem umhverfisverndarsamtök ollu lengi vel í kolli íslenskra ráðamanna. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, lýsti Árósasamningnum svo, að hann væri metnaðarfyllsta tilraun til lýðræðislegrar umhverfisverndar sem ráðist hefði verið í á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna.12

Í ljósi alls þessa – að ógleymdri vestrænni lýðræðishefð – er erfitt að skýra á hvaða ferðalagi íslensk stjórnvöld voru þegar þau skilgreindu alþjóðleg umhverfisverndarsamtök sem ógn við hagsmuni þjóðarinnar. Sennilega var tilgangurinn – öðrum þræði – að sannfæra landsmenn um að hvalamálið væri langt því frá tapaður málstaður. Þótt í móti blési um sinn myndi málið vinnast með markvissri kynningu á málstað Íslands erlendis. Á hinn bóginn voru ítrekaðar yfirlýsingar forsætis- og utanríkisráðherra um umhverfisverndarsamtök þess eðlis að þær verður að skoða sem stefnumótandi í utanríkismálum. Í þessari grein verða færð rök fyrir því að þessi stefna hafi beinlínis skaðað hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi.

Rétt er að taka fram að innan stjórnarráðsins var fólk sem vann að umhverfismálum á öðrum forsendum en forustumenn ríkisstjórnar Íslands gerðu í lok síðustu aldar. Á sama tíma og hvalveiðideilan stóð sem hæst hér á Fróni fór fram undirbúningsvinna fyrir Ríó-ráðstefnuna. Á undirbúningsfundum í Genf, Nairobi og New York var tekist á um orðalag Dagskrár 21, Ríó-yfirlýsinguna, Loftslagssamninginn og Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika sem þjóðarleiðtogar skyldu taka endanlega afstöðu til í Ríó. Af gögnum Greenpeace International má sjá að samstarf samtakanna við fulltrúa Íslands, dr. Gunnar G. Schram lagaprófessor, var mjög gott. Kom þar tvennt til: Í fyrsta lagi hafði dr. Gunnar mjög mikla reynslu af alþjóðlegum samningum vegna undirbúnings Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1982. Í öðru lagi fóru markmið Íslands og Greenpeace að mörgu leyti saman. Að auki var íslenska sendinefndin á fyrstu þremur fundunum fámenn og líkt og fulltrúar margra smárra eyríkja var dr. Gunnar ekki feiminn við að eiga samstarf við umhverfisverndarsamtök.13

Davíð Egilson hjá Hollustuvernd ríkisins – þá aðalsamningamaður Íslands við gerð alþjóðlegs samnings um bann við notkun þrávirkra, lífrænna efna – benti á árið 1996 „að Greenpeace-samtökin hafi sömu stefnu og sömu markmið og íslensk stjórnvöld varðandi mengunarmál í hafinu“.14 Á fjórða og síðasta undirbúningsfundi fyrir ráðstefnuna í Ríó gáfu Greenpeace-samtökin út sérstaka yfirlýsingu til stuðnings tillögu Íslands þar að lútandi.15

Umræða á þingi

Á meðan fram fór á alþjóðavettvangi umræða um tillögu Íslands um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, líkt og kveðið var á um í Dagskrá 21 – þar sem umhverfisverndarsamtök beittu sér mjög – fóru fram annars konar umræður á Alþingi Íslendinga. Þann 18. mars 1993 sagði til að mynda Árni Mathiesen, síðar sjávarútvegsráðherra:

Það hefur orðið hér umræða um hvernig við eigum að standa að samskiptum við Greenpeace. Þetta eru samtök sem hafa mistúlkað hvalveiðimálin og sjálfsagt önnur mál á allillilegan hátt og þess vegna er það mjög varhugavert að bendla okkur við eitthvert samstarf við þessa aðila. En við verðum þó að gera okkur grein fyrir því að sumt af því sem þessi samtök segja, er stuðningur við okkar málstað í öðrum málum og því megum við ekki vísa röksemdum þeirra í þeim málaflokkum á bug heldur taka undir þær án þess þó að eiga í nokkru formlegu eða óformlegu samstarfi við þessa aðila (undirstrikun höf.).16

Í sömu umræðu sagði eftirmaður Árna í ráðherrastóli, Einar K. Guðfinnsson:

Ég vara mjög við því að við séum yfir höfuð að leggja lag okkar við samtök af þessu taginu sem hafa orðið ber að því í svo stóru máli eins og hvalveiðimálinu að rugla vísvitandi saman staðreyndum, ljúga að fólki, fara frjálslega með upplýsingar og fleira af því taginu. Því miður bendir ýmislegt til þess að í sumu af því sem þeir eru að fjalla um á öðrum vettvangi fari þeir nákvæmlega þannig með staðreyndir sem fyrir þá eru lagðar. Þeir hafa orðið berir að því og uppvísir að því að leika sér að því að nota upplýsingar sem þeir fá, slíta þær úr öllu vísindalegu samhengi en klæða þær hins vegar í gervivísindabúning og segja: Þetta eru staðreyndir málsins. Menn sem þannig vinna eru auðvitað mjög hættulegir í samstarfi og ég held að þrátt fyrir að hægt sé að finna, ef vel er leitað, eitthvað jákvætt í fari þessara samtaka, þá sé það þannig með þessi samtök að eftir að þau hafa unnið með þessum hætti sé það okkar málstað hættulegt að vera nokkuð að leggja okkar lag við þau og þess vegna eigum við einfaldlega að slást fyrir okkar góða málstað í umhverfismálum án þess að hnýta okkur aftan í þessi vafasömu samtök sem Greenpeace eru.17

Síðar við sömu umræðu sagði Einar K. Guðfinnsson, að það væri „hreint tilræði við okkar efnahagslega sjálfstæði með hvaða hætti þeir [þ.e. Greenpeace] ráðast t.d. að fiskveiðum og fiskneyslu …“18 Spyrja má hvort Einari K. Guðfinnssyni eða Árna M. Mathiesen hefði hlotnast að verða skipaðir sjávarútvegsráðherrar hefðu þeir mælst til samráðs eða samstarfs við „þessa aðila“.

Vorið 1994 átti höfundur þessarar greinar, þá starfsmaður Green­peace ­International, fund með Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi umhverfis­ráðherra, í Gautaborg þar sem Össur var þá staddur í öðrum erindagjörðum. Metnaður umhverfisráðherra var að fylgja eftir tillögum Íslands um alþjóðlegan samning um bann við notkun þrávirkra lífrænna efna en heima á Íslandi snerust umræður á Alþingi helst um hina „svokölluðu alþjóðlegu öfgahópa í umhverfismálum“19 er ráðamenn og/eða þingmenn töldu ógna landshag. Umræða um hinar eiginlegu umhverfisógnir var sjaldgæfari á Alþingi Íslendinga. Þó var það svo að einstakir þingmenn og starfsmenn Alþingis leituðu til Greenpeace eftir þeim upplýsingum sem þá vanhagaði um.20

Í ágúst sama ár sendu hagsmunasamtök í sjávarútvegi frá sér tilkynningu þar sem þau höfnuðu með ótvíræðum hætti fundarboði Greenpeace-samtakanna um verndun lífríkis sjávar. Í yfirlýsingunni sagði m.a.: „Einnig skora hagsmunaaðilarnir á íslensk stjórnvöld, sé það rétt að þau hafi átt óformlegt samstarf við Greenpeace á bak við tjöldin undanfarin ár, að þau láti af öllu samráði og samstarfi nú þegar.“21

Þann 16. desember 1996 samþykkti allsherjarþing SÞ að halda sérstakt aukaþing til þess að meta þann árangur sem náðst hafði síðan Sameinuðu þjóðirnar héldu Ráðstefnuna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiro árið 1992. Mikilvægt er að í samþykkt sinni undirstrikaði allsherjarþingið jafnframt nauðsyn þess að efla þátttöku frjálsra félagasamtaka við undirbúning og framkvæmd aukaþingsins. Þetta var vitaskuld mikilsverð viðurkenning Sameinuðu þjóðanna á framlagi umhverfisverndarsamtaka á borð við Greenpeace, World Wide Fund for Nature (WWF), auk hundraða annarra samtaka sem láta sig varða starf Sameinuðu þjóðanna að umhverfismálum. Þá er ekki eingöngu átt við þau samtök sem hafa ráð á að sækja ráðstefnu SÞ heldur einnig þau sem nýta sér lýðræðislegan rétt sinn til að hafa áhrif á afstöðu eigin stjórnvalda á alþjóðavettvangi.

Þessi áhersla allsherjarþingsins fór greinilega ekki vel í hérlenda ráða­menn.22 Ef marka má Morgunblaðið var megináhersla forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, á þessum fundi þjóðarleiðtoga í New York borg eftirfarandi:

… Samstarf við stofnanir, sem ekki tengjast stjórnvöldum, er ákaflega mikilvægt, en einnig er mikilvægt að standast þrýsting óábyrgra umhverfisverndunarhópa sem vilja slíta hin nauðsynlegu tengsl milli umhverfis og efnahags og líta síður á umhverfið sem auðlind fyrir afkomu fólks en verndaða náttúru.23

Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 26. september hið sama ár tók utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, í sama streng og sagði:

Um leið og nauðsynlegt er að ríkisstjórnir heims starfi með sjálfstæðum félagasamtökum er full þörf á að láta ekki undan óvönduðum þrýstingi frá óábyrgum verndunarsamtökum sem vilja rjúfa hin mikilvægu tengsl milli umhverfisverndar og auðlindanýtingar (þýðing Morgunblaðsins 27. sept. 1997).

Í ræðu sinni um utanríkismál á Alþingi þann 7. nóvember þetta ár lýsti utanríkisráðherrann áhyggjum sínum af þeirri vá sem stafaði frá umhverfisverndarsamtökum og varaði við því:

… að látið verði undan þrýstingi óábyrgra verndunarsamtaka sem ekki viðurkenna tengslin á milli verndunar umhverfisins og nýtingar auðlinda.24

Utanríkisráðherrann nefndi sérstaklega að það veki:

… ugg hversu umhverfisverndarsinnum hefur tekist að fá almenning í hinum iðnvæddu ríkjum til að fylkja sér gegn hvers konar nýtingu sjávarspendýra og ýmissa annarra dýrategunda sem ekki eru í útrýmingarhættu …

Stefnan var mörkuð. Ísland – nánast röksemdalaust – lagðist gegn megináherslu sérstaks aukaþings Sameinuðu þjóðanna um eftirfylgni við niðurstöður Ríó-ráðstefnunnar.

Hvaða óvinur?

Deilur um hvalveiðar voru ekki nema að hluta til við alþjóðleg umhverfisverndarsamtök. Í Morgunblaðinu 22. júní 1994 skrifar Björn Bjarnason þingmaður gagnrýni á bók Jóhanns Viðars Ívarssonar, Science, Sanctions and Cetaceans, og bendir á að:

Sagan ber þess merki, að Íslendingar hafi verið reikulir í rásinni við gæslu hvalveiðihagsmuna sinna á alþjóðavettvangi. Þeir létu fljótt undan þrýstingi og oftar en einu sinni fór Halldór Ásgrímsson til Bandaríkjanna og samdi þar við ráðamenn um það, hve marga hvali skyldi veiða í vísindaskyni. Báru þær viðræður meira pólitískt yfirbragð en vísindalegt.25

Staðreyna má þessi orð Björns Bjarnasonar með lestri dagblaða frá þeim tíma sem vísindaveiðar fóru fram 1986–1989. Það kann að hafa hentað stjórn­málamönnum vel að saka umhverfisverndarsamtök um ofstæki. Ríkis­stjórnin fór hins vegar samningaleiðina við bandarísk stjórnvöld sem voru ávallt mjög staðföst gegn hvalveiðum í vísindaskyni.26 Spyrja má hvort andúð íslenskra ráðamanna á Greenpeace hafi ef til vill helgast af nauðsyn þess að geta kennt einhverjum um að stríðið um hvalveiðar skyldi tapast. Það hentaði tæpast að kenna Reagan og/eða George H.W. Bush um að sýna vísindunum ótilhlýðilega vanvirðingu.

Á sama tíma og íslensk stjórnvöld vöruðu ákaft við framgangi umhverfis­verndarsamtaka settu menn í gír og stefndu á að Ísland yrði forystuþjóð um nýtingu endurnýjanlegrar orku. En til þess að slæva aðeins stóriðjubroddinn var kúrsinn settur á forystusæti í heiminum við nýtingu vetnis til að knýja bifreiðar.27 Íslensk stjórnvöld hafa nú viðurkennt að vera eftirbátur nágrannaríkjanna hvað varðar nýtingu á endurnýjanlegu og/eða minna mengandi eldsneyti fyrir bifreiðar. Vetnisútrásin mistókst.28

Í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins, Jón Guðna Kristjánsson, þann 10. maí 1997 lýstu Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og Jón Baldvin Hannibalsson, f.v. utanríkisráðherra, skelfingu sinni yfir framgöngu umhverfis­verndarsamtaka sem með aðgerðum sínum vildu knýja alþjóðastofnanir til að hlutast til um nýtingu fiskstofna og notkun veiðarfæra. Í blaðagrein ári síðar skýrði Halldór Ásgrímsson afstöðu sína með eftirfarandi hætti:

Á undanförnum árum hafa Íslendingar orðið þess áþreifanlega varir í hvalamálum og loftslagsmálum, að ekki er hægt að ganga að því vísu að umræður um sjálfbæra þróun í alþjóðlegu samhengi taki ýtrasta tillit til sjálfbærrar þróunar í hinu íslenska samfélagi.29

Hér er tengingin við hvalveiðideiluna orðin mun víðtækari en nýting auðlinda sjávar. Umhverfisverndarsamtök – bæði heima og erlendis – höfðu gagnrýnt að ótæpileg losun gróðurhúsalofttegunda frá álverum stæðist ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Íslensk stjórnvöld unnu að því hörðum höndum að afla undanþágu frá Kyoto-bókuninni sem gerð var í desember árið áður.

Í ræðu á aðalfundi Vinnuveitendasambands Íslands (nú Samtökum atvinnu­lífsins) þann 7. maí 1998 skýrði Halldór Ásgrímsson afstöðu Íslands nánar og sagði:

Við getum í reynd staðið frammi fyrir því að geta ekki nýtt fallvötn okkar og jafnvel ekki fiskimið vegna þrýstings á alþjóðavettvangi í nafni umhverfisverndar. Er það umhverfisvernd í augum þjóðar sem á allt sitt undir endurnýjanlegum auðlindum og hefur í ellefu hundruð ár lifað í betri sátt við umhverfi sitt en flestar aðrar þjóðir?30

Ekki er unnt að finna skynsamlega skýringu á því hvernig utanríkisráðherra gat komist að þessari niðurstöðu. Kristjáni Loftssyni, eiganda Hvals hf., má e.t.v. vera nokkur vorkunn að halda því fram að næst á eftir hvalveiðum hyggist umhverfisverndarsamtök stöðva fiskveiðar. Hann rekur áróður fyrir sérhagsmunum. En utanríkisráðherra á að tala fyrir þjóðarhagsmunum og hefur að baki sér her diplómata og sérfræðinga til þess að vinna að langtímastefnu. Hitt er mýta að Íslendingar hafi í „… ellefu hundruð ár lifað í betri sátt við umhverfi sitt en flestar aðrar þjóðir.“

Í stefnuræðu sinni á Alþingi þann 4. október 1999 veittist Davíð Oddsson harkalega að umhverfisverndarsamtökum fyrir gagnrýni þeirra á loftslagsstefnu stjórnvalda, Kyoto-málið eins og hann kallaði það. Hann líkti hugmyndafræði slíkra samtaka við hina „… blindu trú í hvalveiðimálinu þar sem við höfum orðið fyrir þrýstingi sem á ekkert skylt við sanna umhverfisverndarstefnu.“

Íslendingar hafa ekki gengið á hönd slíkum skoðunum því þeir eiga allt sitt undir náttúrunni og sannri verndun hennar, þar sem þess er gætt að hún geti nýst manninum með sjálfbærum hætti. Stefna sem birtist með því offorsi sem ég áður lýsti er fyrir aðra en þá sem þiggja lífskjör sín af náttúrunni í þeim mæli sem Íslendingar gera.31

Forsætisráðherrann minntist ekki einu orði á efasemdir um niðurstöður Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem hann kynnti í ræðu sinni á gamlárskvöld 1997, tveimur vikum eftir að loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna í Kyoto lauk. Gagnrýni forsætisráðherrans var ekki eingöngu sprottin af pirringi vegna viðvarana um yfirvofandi loftslagsbreytingar heldur einnig gremju hans vegna hrakfara eigin ríkisstjórnar við að berja í gegn veitulón á Eyjabökkum án þess að fram hefði farið lögbundið mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Fljótsdalsvirkjunar:

Það gengur þvert á hagsmuni Íslands að falla fyrir þess háttar öfgum. Enda værum við þá að útiloka að njóta ávaxtanna af kostum landsins, hvort sem um er að ræða endurnýjanlega orkugjafa eða önnur gæði sem við verðum að nýta eigi áfram að vera lífvænlegt í landinu. Það duldist engum sem sat í þessum sal að ákvæði sem umhvn. þingsins beitti sér fyrir að sett yrði til að koma í veg fyrir afturvirkni laga um umhverfismat, tók ekki síst tillit til Fljótsdalsvirkjunar. Menn sem að því stóðu eiga ekki að hlaupa frá gerðum sínum í þeim tilgangi einum að slá pólitískar keilur.32

Rúmum fjórum mánuðum síðar dró Norsk Hydro sig úr Noral-verkefninu sem fól í sér byggingu 120 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði og Fljótsdalsvirkjun. Fyrirtækið upplýsti að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneytið hefði farið fram á að það hefði engin samskipti við íslensk náttúruverndarsamtök.

Nýtt hvalveiðistríð eða gamalt?

Í viðtali við Morgunblaðið þann 24. júlí 1998 skýrði Jón Baldvin Hannibalsson, þá sendiherra Íslands í Washington, ótta íslenskra stjórnvalda við auknar áherslur Bandaríkjastjórnar á verndun lífríkis sjávar og að „ástand lífríkis hafsins sé alvarlegra en talið var og að þetta sé jafnalvarlegt eða jafnvel alvarlegra umhverfisvandamál en hlýnun andrúmsloftsins af völdum gróðurhúsaáhrifa.“ Sagði sendiherrann „… mjög margar vísbendingar, sem berast um að umhugsun og umfjöllun bandarískra stjórnvalda sé undir mjög sterkum áhrifum frá þeim öflum, sem þarna vilja ganga lengst.“ Hann telur að hætta sé á að hvalamálið endurtaki sig og bendir á að róttækasta tillagan sé sú að:

„… virkja markaðsöflin, í bandalagi við sjónarmið verndunarsinna, nefnilega að setja upp svæðisstofnanir, sem fengju umboð í alþjóðasamningum til að koma á fót vottunarkerfi. Allur fiskur, sem færi á markað, yrði að bera vottorð um að stofninn væri ekki í hættu, fiskurinn væri afurð ábyrgra fiskveiða, úr ómenguðu umhverfi o.s.frv.,“ segir Jón Baldvin og nefnir sérstaklega samstarf náttúruverndarsamtakanna World Wide Fund for Nature og stórfyrirtækisins Unilever um að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.33

Sendiherrann talaði hér máli íslenskra stjórnvalda sem virtust ekki taka neitt alvarlega í þessari greiningu nema að bandarísk stjórnvöldu séu „… undir mjög sterkum áhrifum frá þeim öflum, sem þarna vilja ganga lengst“. – Væntanlega er hér átt við öfl sem vilja ganga lengst í verndun.

Í frumdrögum lokaniðurstöðu Ríó +20 segir:

83. We note that despite agreement to restore global fish stocks to sustainable levels by 2015, many stocks continue to be depleted unsustainably. We call upon States to re-commit to maintaining or restoring depleted fish stocks to sustainable levels and to further commit to implementing science-based management plans to rebuild stocks by 2015.34

Þetta orðalag er mun skýrara en fram kemur í tillögu Íslands um niðurstöðu Ríó +20. En hvernig má það vera að ríkisstjórn Íslands óttist framgöngu umhverfisverndarsamtaka til að vernda lífríki sjávar?

Ísland leggst gegn eigin tillögu

Árið 2004 var gefin út samræmd stefnumótun íslenskra stjórnvalda í málefnum hafsins. Stefnumótunin var gefin út sameiginlega í nafni sjávarútvegs-, umhverfis- og utanríkisráðherra og var markmið hennar að skýra stefnu Íslands í málefnum hafsins, sem segja má að hafi skarast milli þessara þriggja ráðuneyta og niðurstaðan endurspeglar að nokkru mismunandi áherslur þeirra. Á bls. 9 segir:

Að margra mati hafa frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála átt það til að ganga of langt í málflutningi sínum. Þau hafa í sumum tilfellum afflutt vísindalegar niðurstöður málstað sínum til framdráttar. Getur þetta valdið togstreitu og torveldað annars mikilvægt og gagnlegt samstarf milli aðila. Meðal sumra félagasamtaka gætir einnig verulegrar tilhneigingar til að fella verndun, í auknum mæli, undir hnattræna stjórnun.35

Síðan segir að Ísland hafi:

… oft þurft að veita viðnám tilhneigingum til hnattrænnar stjórnunar auð- lindanýtingar, svo sem á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem bornar eru fram ályktanir ár hvert um hafið og hafréttarmál, og í starfi innan alþjóðasamninga sem fjalla um málefni er tengjast hafinu.36

Engin nöfn eru nefnd en er ekki líklegt að efst á lista grunaðra séu þau samtök sem ávallt hafa stutt málstað Íslands um aðgerðir til að sporna við mengun hafsins; Greenpeace og önnur slík samtök? Þegar þarna var komið sögu veittu starfsmenn umhverfis- og utanríkisráðuneytisins nokkurt viðnám því á sömu bls. segir einnig:

Félagasamtök eru nú til að mynda virkir þátttakendur á flestum stærri ráðstefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna og mörg þeirra hafa ráðið til starfa sérfræðinga á starfssviði sínu. Félagasamtök hafa þannig með samstarfi og þátttöku, í mörgum tilfellum, veruleg áhrif á málflutning ríkja. Mörg félagasamtök hafa hlotið viðurkenningu stofnana á vegum Sameinuðu þjóðanna og eru formlegir þátttakendur í mótun stefnu þeirra. Þessi samtök hafa lagt áherslu á að þrýsta á stjórnvöld og stofnanir þeirra að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar.37

Áherslur umhverfis- og utanríkisráðuneytisins voru til marks um að starfsmenn þessara tveggja ráðuneyta höfðu aðra sýn á alþjóðamál en fulltrúar sjávarútvegsráðherra sem skoðuðu heiminn af kögunarhóli Alþjóðahvalveiðiráðsins. Hinir fyrrnefndu höfðu einfaldlega kynnst starfi Sameinuðu þjóðanna í New York, á ársfundum Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, fundum OSPAR-samningsins um verndun lífríkis Norðuraustur-Atlantshafs eða annars staðar þar sem mengun, líffræðilegur fjölbreytileiki eða sjálfbær þróun eru til umræðu þjóða á milli. Þeir skildu mikilvægi og færni frjálsra félagasamtaka til að hafa þau áhrif sem þarf til að halda ríkisstjórnum við efnið og iðulega fór málflutningur slíkra samtaka saman við hagsmuni Íslands.

En þrátt fyrir þessa leiðréttingu á kúrsi stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum var stefnan enn sú að leggjast gegn hvers kyns tillögum umhverfisverndarsamtaka um bætta umgengni við lífríki sjávar. Því fór það svo að árið 2004 lagðist Ísland gegn eigin tillögu um að fram færi hnattrænt mat á ástandi sjávar, ekki ólíkt því sem Vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar38 hefur framkvæmt fjórum sinnum. Tillaga Íslands var lögð fram á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg tveimur árum fyrr og í ræðu sinni á leiðtogafundinum sagði forsætisráðherra, Davíð Oddsson:

Íslendingar fagna einnig þeim árangri sem náðst hefur á þessum leiðtogafundi í þá átt að koma á kerfi á vegum Sameinuðu þjóðanna til alþjóðlegrar upplýsingamiðlunar um ástand sjávarvistkerfisins. Þetta á að gera fyrir árið 2004. Þetta er mikilvægt skref í baráttunni gegn mengun sjávar um heim allan.39

Tillaga Íslands var samþykkt40 en þegar til kastanna kom lagðist Ísland eindregið gegn eigin tillögu á þeirri forsendu að slíkt mat gæti ekki náð til fiskstofna heldur hlyti að takmarkast við mengun sjávar.41 Ísland varð því utanveltu fyrstu árin í umræðu um eigin tillögu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Viðsnúningur íslenskra stjórnvalda vakti undrun meðal þeirra ríkja sem heitið höfðu stuðningi við tillögu og málflutning Íslands, enda höfðu íslenskir embættismenn leitað stuðnings víða við þessa tillögu.42 Fimm árum síðar breytti Ísland afstöðu sinni, enda áhrifalaust og einangrað í umræðu um mat á ástandi lífríkis sjávar.43

Verstu útreiðina fékk Ísland í kjölfar 61. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna haustið 2006. Ísland kom þá í veg fyrir samþykki tillögu um tímabundið bann (moratorium) við botnvörpuveiðum á alþjóðlegu hafsvæði sem valda eyðileggingu á viðkvæmum vistkerfum eins og kóröllum á hafsbotni og í úthlíðum sjávartinda. Var afstaða Íslanda harðlega gagnrýnd í leiðara Washington Post.44

Í fyrsta uppkasti að lokayfirlýsingu Ríó +20 er málsgrein sem mjög svipar til þeirrar tillögu sem Ísland lagði fram 2002 og hafnaði 2004:

79. We endorse the Regular Process for the Global Marine Assessment as a credible, robust process, and support the completion of its first global integrated assessment of the state of the marine environment by 2014. We call for consideration of assessment findings in formulation of national, regional and global oceans policy.45

Upphafleg tillaga Íslands var betri en ráðamenn gerðu sér grein fyrir.

Niðurlag

Erfitt er að skýra það hagsmunamat sem lá að baki málflutningi íslenskra stjórnvalda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Staðreyndin er hins vegar sú að verndun líffræðilegs fjölbreytileika, samstarf gegn mengun, alþjóðlegt samstarf um verndun og nýtingu auðlinda sjávar vék iðulega fyrir hugmyndafræðilegri baráttu stjórnvalda gegn málflutningi – jafnvel ímynduðum málflutningi – umhverfisverndarsamtaka.

Hér hefur verið dregið fram að um alllangt skeið stóðu íslensk stjórnvöld fyrir eins konar herferð gegn umhverfisverndarsamtökum á alþjóðavettvangi. Nú ber hins vegar að fagna skýrri og afgerandi stefnubreytingu Íslands gagnvart frjálsum félagasamtökum/umhverfisverndarsamtökum. Þessi stefnubreyting mun vafalaust auðvelda nauðsynlega viðhorfsbreytingu í málefnum hafsins, til að mynda hvað varðar verndun viðkvæmra svæða í djúpum úthafanna fyrir veiðum með botnvörpu, svo eitthvað sé nefnt.
_________________________________________________

Tilvísanir

1 High Seas Alliance Briefing: http://highseasalliance.org/pdfs/HSA-Bri…. Vef­síða sótt 20. janúar 2012.

2 Fréttaskýrendur myndu væntanlega gera því skóna að um sé að ræða áherslur ríkisstjórnarinnar fremur en persónulegt framtak forsætisráðherrans.

3 Aarhus Convention Membership reaches 45: Iceland ratifies far-reaching environmental rights treaty

Sjá: http://www.unece.org/env/pp/news.html. Vef­síða sótt 19. janúar 2012.

Sjá einnig Human Rights and the Environment, Philosophical, Theoretical and Legal Perspectives, Linda Hajjar Leib, Leiden, Boston, 2011.

4 Í framlagi Íslands til undirbúnings Ríó +20 segir: „An important outcome of Rio +20 will be a commitment to implement international policy on sustainable development at the country and local level. This is best done through active engagement of governments with non-state actors and civil society, by increasing public awareness and allowing international policy to feed into national policy making and implementation at all levels. Partnerships for sustainable development need to be strengthened as stressed in Agenda 21 and the Johannesburg Plan of Implementation. Partnering with civil society organizations and businesses can be a productive tool for knowledge and capacity building, financing and innovation. The private sector should also be encouraged to work further towards greening their production and services.“

Sjá: http://www.uncsd2012.org/rio20/content/d…. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.

5 Hér er líklega vísað til fyrstu umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi 1972, þar sem samþykkt var að skora á ríki heims að stöðva hvalveiðar.

6 Þrátt fyrir fjölda dauðra hvala í nafni vísindarannsókna hafa enn ekki verið kynntar neinar niðurstöður til stuðnings þessari fullyrðingu.

7 Velferð á varanlegum grunni, stefna og starfsáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, október 1991.

8 Grein 10: „Best verður tekist á við umhverfismál með þátttöku allra þegna sem hlut eiga að máli á viðkomandi sviðum. Í hverju ríki skal sérhver einstaklingur hafa aðgang, eftir því sem við á, að upplýsingum um umhverfið sem eru í vörslu opinberra aðila, þ. á. m. upplýsingum um hættuleg efni og hættulega starfsemi í samfélagi þeirra, svo og tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku. Ríki skulu auðvelda og örva skilning og þátttöku almennings með því að veita honum greiðan aðgang að upplýsingum. Raunverulegur aðgangur skal veittur að réttar- og stjórnsýslukerfum, þ.á m. að réttarúrræðum.“ Þýðing Gunnars G. Schram í bók hans Framtíð jarðar, leiðin frá Ríó, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 1993.

9 United Nations Conference on the Environment and Development (UNCED).

10 Ibid.

11 The Rio Declaration, Philippe Sands í The Way Forward, Beyond Agenda 21, ritstjóri Felix Dodds, London 1997.

12 Sjá: http://www.unece.org/es/press/pr2004/04e…. Vef­síða sótt 19. janúar 2012.

13 Sjá Umhverfisréttur, Gunnar G. Schram, Reykjavík 1993.

14 „Pólitísk og efnahagsleg áhrif umhverfissamtaka á alþjóðastjórnmál – Greining á áhrifum Greenpeace á Íslandi.“ Kristín Ólafsdóttir, BA-verkefni í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, Október 1996.

15 Greenpeace calls for support for Iceland’s Oceans Protection Proposal, Statement by Greenpeace International, PrepComm IV, New York, March 11, 1992.

16 Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?t…. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.

17 Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?t…. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.

18 Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?t…. Vef­síða sótt 24. janúar 2012.

19 „Ég fæ alls ekki séð hvaða erindi hvalamálið á í skýrslu um öryggis- og varnarmál. Nema það sé til þess að kasta einhvers konar rýrð á þessa svokölluðu alþjóðlegu öfgahópa í umhverfismálum sem hafa hins vegar margir hverjir unnið mjög þarft starf einmitt í tengslum við höfin, að koma í veg fyrir mengun hafsins og vinna gegn mengunarslysum á hafi úti. Þessir hópar hafa í rauninni stutt við bakið á sjónarmiðum sem Íslendingar ættu að hafa í heiðri. Ég vil benda á nýlega – þó það sé kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um samtökin Greenpeace á alþingi þá ætla ég samt að leyfa mér það og vona að það fyrirgefist og ekki sé svo illa komið fyrir þingmönnum að þau séu bara útlæg gerð úr þingsölum nema í neikvæðri merkingu …“

Sjá: http://www.althingi.is/dba-bin/unds.pl?t…. Vef­síða sótt 22. janúar 2012.

20 Greenpeace-samtökin höfðu t.d. þá sérstöðu að hafa á að skipa góðum sérfræðingum um afvopnunarmál.

21 Sjá Morgunblaðið 6. ágúst 1994. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/14915…. Vef­síða sótt 25. janúar 2012.

22 „Við erum nú að undirbúa upplýsingaherferð og höfum leitað eftir samstarfi fjölmargra hagsmunasamtaka í landinu til þess að senda út upplýsingar um stefnu okkar í þessu efni og grundvallarviðhorf og höfum hvarvetna fengið góðar undirtektir. Ég vænti þess að innan skamms geti útsending á þessu upplýsingaefni hafist. Við eigum við ramman reip að draga. Ljóst er að það er mikil andstaða gegn hvalveiðum meðal margra áhrifaríkra þjóða.“ Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra á Alþingi þann 18. mars 1993.

23 http://www.mbl.is/greinasafn/grein/33912…. Vef­síða sótt 23. janúar 2012.

24 http://www.utanrikisraduneyti.is/frettae…. Vef­síða sótt 23. janúar 2012.

25 Hrakfallasaga hvalveiða Bækur Alþjóðasamskipti, Björn Bjarnason, Morgunblaðið 22. júlí 1994. Sjá http://www.mbl.is/greinasafn/grein/14739…. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.

26 Andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar byggir m.a. á því að stjórnvöld í Washington vilja mikið á sig leggja til að Alþjóðahvalveiðiráðið liðist ekki í sundur og að ákvarðanir þess séu virtar.

27 Sjá Ísland: Forysturíki í umhverfismálum, Morgunblaðið 25. febrúar 1999, http://www.mbl.is/greinasafn/grein/45161…. Vef­síða sótt 2. febrúar 2012.

28 Orkustefna fyrir Ísland. Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu. Iðnaðarráðuneytið, Reykjavík 2011.

29 Íslensk öld í uppsiglingu, Halldór Ásgrímsson, Dagur 21. apríl 1998.

30 Sjá: http://www.utanrikisraduneyti.is/frettae…. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.

31 http://www.forsaetisraduneyti.is/radherr… Vef­síða sótt 27. janúar 2012.

32 Ibid.

33 http://www.mbl.is/greinasafn/grein/41040…. Vef­síða sótt 27. janúar 2012.

34 Sjá http://www.uncsd2012.org/rio20/content/d…. Vef­síða sótt 26. janúar 2012.

35 Hafið – samræmd stefnumótun um málefni hafsins Sjá: http://www.sjavarutvegsraduneyti.is/utge…. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.

36 Ibid

37 Ibid.

38 International Panel for Climate Change (IPCC), stundum nefnt Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. IPCC stendur ekki sjálf fyrir rannsóknum heldur fer yfir nýjustu rannsóknarniðurstöður um hlýnun andrúmsloftsins og gefur út skýrslur um mat sitt á þeim. Sama hugsun var að baki tillögu Íslands í Jóhannesarborg árið 2002, en þegar til kastanna kom lagðist sjávarútvegsráðherra harkalega gegn því að skýrslur vísindamanna um ástand fiskstofna yrðu teknar með.

39 Ræða forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, birt í íslenskri þýðingu í skýrslu umhverfisráðherra um niðurstöðu leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg. (Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)

40 The World Summit on Sustainable Development agreed (paragraph 36 (b) of the Johannesburg Plan of Implementation), to establish a Regular Process under the United Nations for global reporting and assessment of the state of the marine environment, including socio-economic aspects, both current and foreseeable, building on existing regional assessments. The United Nations General Assembly (UNGA) later endorsed that paragraph in paragraph 45 of its resolution 57/141. Sjá: http://www.unga-regular-process.org/inde…. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.

41 „Íslensk stjórnvöld hafa sem kunnugt er haft alvarlegar athugasemdir við það hvernig umræðan um stofnun GMA [Global Marine Assessment] hefur þróast. Það hafi ekki verið vilji íslenskra stjórnvalda í upphafi að upplýsingar um lifandi auðlindir sjávar [fiskstofna] yrðu hluti af matinu. Þessi afstaða Íslands er tilraun til að koma í veg fyrir að unnt verði að nota GMA sem tæki til að stjórna fiskveiðum á alþjóðlegum vettvangi. Sendinefnd Íslands á fundinum fyrir ári gerði ítarlega grein fyrir þessum sjónarmiðum, en talaði fyrir daufum eyrum. Fyrir fundinn í ár var ljóst að afstaða ríkja til þessa hafði ekki breyst. Var því ákveðið af hálfu íslenskra stjórnvalda að Ísland myndi ekki taka þátt í fundinum að þessu sinni. Þess í stað var skjali þar sem lýst er afstöðu Íslands til málsins dreift í byrjun fundarins sem opinberu skjali S.þ.“ Skýrsla fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um starfsemi 59. allsherjarþingsins 2004 / 2005 http://www.utanrikisraduneyti.is/media/S…. Vef­síða sótt 1. febrúar 2012.

42 Á vettvangi Sameinuðu þjóðannar er talað um Global Marine Assessment, eða Assessment of Assessment gefur ekki til kynna að matið takmarkist við mengun. Sjá: http://www.unga-regular-process.org/inde…. Vef­síða sótt 1. febrúar 2012.

43 Sjá http://www.utanrikisraduneyti.is/media/R…. ? Vef­síða sótt 1. febrúar 2012. Fram kemur að „The main recipients or end-users of the products of the regular process are national governments and intergovernmental organizations at the global and regional levels. M.ö.o. ekki frjáls félagasamtök. Ennfremur, segir að „… the aim of the process is to support existing governance mechanisms by providing information which is relevant to policymaking, but not prescriptive of what policies should be adopted. In other words, our objective in setting up the regular process is neither to supplant nor to complement existing governance mechanisms, but rather to reinforce them. For that reason, care should be taken not to encumber the institutional framework unnecessarily through the setting up of costly, complex and duplicative procedures.“ Í stuttu máli er átt við að hnattrænt mat á ástandi lífríkis sjávar skuldbindi ríki á engan hátt til að gera eitt eða annað.

44 Forystugrein Washington Post 3. desember 2006:

Blame Iceland

A tiny country that still hunts whales scuttles an effort to save the ocean bottom.

Sunday, December 3, 2006

IN A FORM of fishing known as bottom trawling, huge, weighted nets are dragged across the ocean floor, destroying corals and just about everything else in their path. In U.S. waters, the practice is tightly regulated — and forbidden in certain environmentally sensitive areas. On much of the high seas, however, it‘s open season. Delicate ecosystems get ravaged with nobody paying attention. The Bush administration, along with several other governments, has been pushing for a moratorium on unregulated trawling on the high seas. Last month, thanks in large part to Iceland, it failed to get that measure.

Iceland did not act alone in preventing a ban: Russia, Japan, China and South Korea joined in. Iceland‘s embassy, in a statement, said it „strongly objects to claims, made by some environmental organizations, that it was in the forefront of blocking consensus“ to ban deep-sea bottom trawling. The denial is disingenuous. In closed-door negotiations, Iceland, along with Russia, took a particularly vocal and aggressive stand against strong action.

Because the arcane rules of high-seas fishing are largely defined by consensus, even small countries that are genuine moral outliers in world attitudes toward oceans can prevent agreement. The result in this case was a mushy resolution that fell far short of what the administration and environmental groups wanted, which in turn is ominous for efforts to protect marine life in international waters. The world‘s oceans are heading toward environmental collapse, which only bold action will avert. It‘s hard to imagine that happening if a country that hunts whales and has a population smaller than Washington‘s can help block a common-sense proposal to safeguard the ecological health of the ocean floor.

45 The Future We Want – Zero draft of the outcome document,

Sjá: http://www.uncsd2012.org/rio20/index.php…. Vef­síða sótt 18. janúar 2012.

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða]]> http://www.savingiceland.org/?p=9142 2012-04-30T21:12:07Z 2012-04-29T09:24:53Z Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.
]]>
0
solskin <![CDATA[„Alþjóðlegir aðgerðasinnar gerðir að glæpamönnum“]]> http://www.savingiceland.org/?p=9109 2017-03-08T20:27:06Z 2012-04-04T08:36:34Z Jón Bjarki Magnússon, DV

Þýski þingmaðurinn Andrej Hunko segir evrópsk lögregluyfirvöld stefna leynt og ljóst að auknu eftirliti með aðgerðasinnum

Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina.

„Þó okkur hafi ekki ennþá tekist að breyta lögunum þá hefur okkur tekist að vekja athygli á málefninu, sem er mjög mikilvægt.“ Þetta segir þingmaðurinn Andrej Hunko sem hefur undanfarið barist gegn njósnum evrópskra lögregluyfirvalda um meðlimi í frjálsum félagasamtökum [e. social movements]. Hunko, sem er þingmaður Die Linke, systurflokks VG í Þýskalandi, hefur áhyggjur af því að slíkar njósnir séu að færast í aukana. Þá sérstaklega vegna þess að pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna virðast sífellt oftar vera settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ sem „þurfi“ að fylgjast grannt með.

„Ég hef áhyggjur af þróun þessara mála. Ég er algjörlega á móti því hvernig alþjóðlegir aðgerðasinnar eru kerfisbundið gerðir að glæpamönnum.“ Hunko sem situr í nefnd Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál, bendir meðal annars á að verið sé að vinna að því að samræma lög aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að lögreglunjósnarar eins aðildarríkis geti starfað í öðru án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi eins og verið hefur til þessa. Telur hann þetta grafa undan starfi frjálsra félagasamtaka í álfunni. „Allt er þetta að gerast mjög hratt og án þess að nokkur upplýst umræða fari fram um málið, hvorki á meðal þingmanna þjóðþinganna né heldur Evrópuþingsins, og hvað þá almennings þessara landa.“ Blaðamaður DV hitti Hunko á skrifstofu hans í þýska þinginu í upphafi marsmánaðar.

Heimilt að njósna á Íslandi

Blaðamanni var í fyrstu neitað um inngöngu í þýska þingið þar sem hann gleymdi vegabréfinu. Í móttökunni sat kona sem hristi höfuðið ströng á svip og sagðist ekkert geta gert til þess að hjálpa. Þar sem blaðamaður stóð áttavilltur í anddyri hússins mætti honum brosmildur, hávaxinn og síðhærður maður. Göngulag hans var lauflétt, hárið grátt en sítt, og fyrr en varði var búið að opna dyrnar og hann benti blaðamanni að ganga inn. Eftir viðkomu í gegnumlýsingartæki öryggisvarðanna var gengið af stað og Hunko sagði aðeins frá þinghúsinu, þessari víðu álmu sem gleypti hann sjálfan og blaðamann á meðan gengið var upp stigana í átt að skrifstofu hans.

Þeir lesendur DV sem fylgst hafa með umfjöllun blaðsins um mál breska njósnarans og undirróðurmannsins [e. agent provocateur] Mark Kennedy kannast ef til vill þegar við Andrej Hunko. Hann hefur ítrekað haldið máli Kennedys á lofti í Evrópu og knúið á um að fá svör, bæði í þýska þinginu sem og á Evrópuþinginu. Til upprifjunar má nefna að Mark Kennedy, sem kallaði sig Mark Stone, fór meðal annars huldu höfði á meðal umhverfisverndarsinna Saving Iceland við Kárahnjúkavirkjun. Þar sem hann fylgdist með skipulagningu þeirra, tók upp samræður, skrásetti og safnaði upplýsingum sem hann síðan kom til breskra lögregluyfirvalda og mögulega íslenskra.

Í umfjöllun DV um málið í maí í fyrra sem birt var undir fyrirsögninni „Heimilt að njósna um Saving Iceland“ kom fram að Kennedy hefði verið heimilt, samkvæmt íslenskum lögum, að njósna um Saving Iceland. Sú umfjöllun var aldrei hrakin af íslenskum lögregluyfirvöldum. Hunko er þeirrar skoðunar að lögreglan hér hafi, rétt eins og í Þýskalandi, vitað af Kennedy.

Skemmdarverkalögregla

Í símaviðtali við DV fyrir um ári sagði Hunko meðal annars að hann teldi mál Kennedys vera tákn um þá ógn sem nú stafaði að frjálsum félagasamtökum í álfunni. Þegar blaðamaður hitti hann nú ári síðar, ítrekaði hann að hann bæri ennþá sömu áhyggjur í brjósti. Lögregluyfirvöld í Þýskalandi og fleiri löndum hefðu í raun stuðlað að ólöglegum aðgerðum mótmælenda með því að notast við undirróðursmenn eins og Kennedy. Þingmaðurinn biðlaði í fyrra til íslenskra stjórnvalda um að komast til botns í starfsemi Kennedys hér á landi. Í bréfi hans kom fram að Kennedy hefði meðal annars framið skemmdarverk í mótmælum í Þýskalandi og þar með brotið lög sem og gegn þýskum lögreglusamþykktum. Mögulegt er að hann hafi gert slíkt hið sama hér á landi en slíkt hefur aldrei fengist staðfest.

Aðferðir eins og þessar eru þekktar á meðal undirróðursmanna og eru til þess gerðar að hafa áhrif á þróun mótmæla, oft til að ýta undir óróa á mótmælum og til að sverta málstaðinn. Umræða um slíka undirróðursmenn verður sífellt algengari hjá þeim sem taka þátt í samfélagslegri baráttu á Vesturlöndum en afar sjaldgæft er að það takist að sanna slíkt enda um hrein og klár lögbrot að ræða — eitthvað sem lögregla flestra ríkja vill helst ekki vera bendluð við. Hunko bendir hins vegar á að hér sé um staðfest tilfelli að ræða, og skjalfest, og með því að að skoða það sé hægt að átta sig á víðara samhengi hlutanna. „Það var í raun frábært að Kennedy-málið skyldi koma fram í dagsljósið því að núna erum við með staðfest dæmi um hvaða aðferðum sé beitt. Ég held hins vegar að það sé löng barátta fram undan.“

„Skrumskæling lýðræðisins“

„Með því að koma undirróðursmönnum fyrir í frjálsum félagasamtökum þar sem þeir hafa bein áhrif á aðgerðir hópanna eru viðkomandi ríki í raun komin í það að skipuleggja aðgerðir pólitískra andófshópa. Þannig geta þau haft áhrif á aðgerðirnar og til að mynda svert ímynd hópanna út á við með því að fremja lögbrot, eins og í tilfelli Kennedys. Þá erum við í raun farin að horfa upp á algjöra skrumskælingu lýðræðisins en það tel ég vera risastórt vandamál,“ segir Hunko sem hafði þegar miklar áhyggjur af þessari þróun áður en mál Kennedys komst í hámæli í upphafi síðasta árs. Það var ekki fyrr en í kjölfarið á þeim uppljóstrunum sem alþjóðlegir fjölmiðlar fóru að fjalla um slíkar lögreglunjósnir í víðara samhengi.

Hunko segist á sínum tíma hafa reynt að vekja athygli þýskra fjölmiðla á Kennedy-málinu en það hafi ekki verið fyrr en breska blaðið The Guardian byrjaði að fjalla um málið sem þýskir fjölmiðlar tóku við sér. „Þannig að við þurftum á bresku miðlunum að halda til þess að nálgast þýsku miðlana, sem er svolítið sérstakt,“ segir Hunko og bendir á að Kennedy-málið hafi í upphafi vakið fólk til alvarlegrar umhugsunar um njósnir lögreglunnar í lýðræðissamfélögum. Nú séu hins vegar flestir orðnir værukærir á nýjan leik. Í kjölfar Kennedy-skandalsins kom meðal annars fram að deildin sem hann starfaði hjá innan bresku lögreglunnar hefði verið leyst upp.

Þetta segir Hunko dæmi um hvernig ryki sé slegið í augun á almenningi. Í kjölfarið hafi einfaldlega verið sett upp önnur deild innan lögreglunnar sem sinni nákvæmlega sama hlutverki.

Upplýsingjagjöf ábótavant

„Þrátt fyrir að mál Kennedy hafi farið hvað hæst þá er það engan veginn eina dæmið um slíkar lögreglunjósnir,“ segir Hunko jafnframt og tekur fram að sambærileg tilfelli hafi þegar komið fram í Þýskalandi. Þá hafi Kennedy sjálfur viðurkennt að hann vissi um fleiri njósnara að störfum víðs vegar um Evrópu. Hunko segir að skýrar reglur um upplýsingagjöf á þýska þinginu hafi hjálpað honum og samflokksmönnum hans að nálgast upplýsingar um málið. Þannig hafi meðal annars verið hægt að opinbera það að Mark Kennedy starfaði í Þýskalandi með fullri vitneskju þýskra lögregluyfirvalda.

„Vandinn er hins vegar sá að það er mun erfiðara að nálgast slíkar upplýsingar úr Evrópuþinginu,“ segir Hunko og bætir við að þar sé nú verið að undirbúa smíði nýrrar reglugerðar um samstarf evrópskra lögregluembætta á sviði sambærilegra njósna. „Ég álít eitt af mínum hlutverkum vera að koma þessum upplýsingum fyrir sjónir almennings.“

Þingmaðurinn er þeirrar skoðunar að allt útlit sé fyrir að íslensk lögregluyfirvöld hafi – rétt eins og þau þýsku – vitað af veru Kennedys hér á landi og starfi hans við að afla upplýsinga um aðgerðasinna. Þessu hafa íslensk lögregluyfirvöld ekki hafnað en í skýrslu ríkislögreglustjóra sem birt var í maí í fyrra kom meðal annars fram að lögregluyfirvöldum væri „ekki kleift, út frá þeim gögnum“ sem væru til staðar, að skera úr um hvort njósnarinn hefði verið hér á landi „í samvinnu eða með vitund íslensku lögreglunnar.“

Þá var í skýrslunni ítrekað að lögreglunni væri heimilt að notast við flugumenn í rannsóknum sakamála. Með skýrslunni, sem átti að þjóna þeim einfalda tilgangi að vera svar við fyrirspurn innanríkisráðherra, tókst þannig hvorki að svara spurningum ráðherra né almennings. „Það er ekkert í henni, þetta er bara einhver froða,“ sagði Birgitta Jónsdóttir, þingkona Hreyfingarinnar, um skýrsluna. Fór hún fram á frekari skýringar á því hvort íslensk lögregluyfirvöld hefðu vitað af veru Kennedys hér á landi. Engin skýr svör hafa borist.

Ögmundur vill rýmri rannsóknarheimildir

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í kjölfar þess að skýrslan var birt að lagabreytingar væru nauðsynlegar í þessum málaflokki. Sagði hann að breyta þyrfti lögum á þann veg að ekki væri hægt að senda njósnara inn í hópa pólitísks andófsfólks. Með því að viðurkenna að lagabreytingar væru nauðsynlegar var hann í raun að viðurkenna að hingað til hefði verið til staðar glufa sem heimilaði lögreglu að notast við flugumenn og njósnara í pólitískum hópum. Þann 22. mars síðastliðinn hélt innanríkisráðherra svo viðteknum hætti þegar hann ræddi um „rýmri rannsóknarheimildir lögreglu“ á Alþingi.

Staðfest hefur verið að þegar umhverfisverndarsinnar mótmæltu stíflugerð á Kárahnjúkum var erlendur flugumaður sendur þeirra á meðal. Því hefur verið haldið fram að sá lögreglumaður hafi brotið lög og reglur í starfi sínu hér og víða um Evrópu […] Flugumaðurinn gat starfað á Kárahnjúkum vegna þess að afar óskýrar reglur giltu um rannsóknaraðferðir lögreglu. Löggjöfin var fjarri nógu traust, en auk hennar voru í gildi nokkrar reglugerðir sem aldrei komu fyrir almannasjónir. Þessu hefur nú verið breytt. Fyrir rúmu ári síðan var sett ný reglugerð um sérstakar rannsókn-araðferðir og rannsóknaraðgerðir lögreglu. Með þeirri reglugerð er tekið fyrir hvers konar forvirkar lögreglurannsóknir á grasrótarhópum eða pólítískum samtökum. Þannig má nefna að ekki væri heimild fyrir flugumann að starfa á Kárahnjúkum í dag.

Samkvæmt þessu er það mat innanríkisráðherra að ný lög um forvirkar rannsóknarheimildir komi í veg fyrir njósnir af þessu tagi. Hunko er hins vegar þeirrar skoðunar að á meðan pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna séu kerfisbundið settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ verði slíkar heimildir notaðar til að njósna um slíkar hreyfingar rétt eins og aðra „hryðjuverkahópa.“ Þetta sé því einungis spurning um skilgreiningaratriði.

Alþekkt aðferðafræði

Þegar talið berst að því hversu ótrúlegt þetta mál hafi verið frá upphafi til enda, líkast James Bond-mynd frá áttunda áratugnum, eða því sem átti sér stað í Sovétríkjunum sálugu, segir Hunko hinn rólegasti: „Það er ekkert sér-sovéskt við þetta. Vestræn lögregluyfirvöld notuðust við njósnara og undirróðursmenn alla 20. öldina til þess að hreiðra um sig í pólitískum hreyfingum sem talin voru ógna ákveðnum hagsmunum. Það liggur beinast við að nefna Gladio-verkefnið sem skipulagt var af NATO eftir seinna stríð og miðaði að því að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnisma á Ítalíu.“

Fjallað hefur verið ítarlega um Gladio-verkefnið í hinum ýmsu ritum en þar var um að ræða leynilegan her sem stýrt var af CIA, leyniþjónustu Bretlands, Pentagon og NATO. Herinn starfaði á Ítalíu frá seinni heimsstyrjöld og allt til ársins 1990. Markmiðið var fyrst og fremst að berjast gegn uppgangi kommúnisma í Vestur-Evrópu með öllum tiltækum ráðum. Í þeim tilgangi störfuðu bandarískir og breskir hermenn til dæmis náið með hægrisinnuðum hryðjuverkamönnum, að því er fram kemur í bókinni NATO‘s Secret Armies: Operation GLADIO and Terrorism in Western Europe eftir Daniele Ganser.

„Best geymda og mest eyðileggjandi pólitíska og hernaðarlega leyndarmál síðan í seinni heimsstyrjöld,“ sagði meðal annars í umfjöllun Observer um Gladio-verkefnið þegar upp um það komst árið 1990, en í umfjöllun The Times sagði: „Sagan er eins og tekin úr handriti að pólitískri spennusögu.“ Í kjölfarið á uppljóstrununum um Gladio-verkefnið á Ítalíu árið 1990 kom í ljós að slíkir herir höfðu verið starfræktir í vel flestum löndum Vestur-Evrópu á tímum kalda stríðsins.

„Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina,“ segir Hunko áður en hann kveður blaðamann og heldur svo áfram að undirbúa fyrirspurnir sem hann ætlar að leggja fyrir þingið.

]]>
0
solskin <![CDATA[Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu]]> http://www.savingiceland.org/?p=9053 2012-02-25T15:26:01Z 2012-02-25T15:26:01Z Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Eins og Einar bendir á eru Norðmenn í siðferðislegri kreppu. Þeir vita af skaðanum sem heimsbyggðin verður fyrir sé haldið áfram að nýta jarðefnaeldsneyti með sama hætti og gert hefur verið undanfarna öld, en það gæti leitt til alvarlegra umhverfisáhrifa. Þeir reyna því að friða samviskuna m.a. með því að dæla koltvísýringi aftur niður í berggrunninn neðansjávar og leggja fram háar upphæðir til verndunar regnskógum í Suður-Ameríku.

Nú er nær útilokað að þjóðir heims komi sér saman um aðgerðir sem tryggi að hlýnun jarðar verði undir 2°C markinu. Rahmsdorf, sem Einar nefnir, varaði einnig við þeirri hættu á umræðufundi á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn að stjórnmálamenn litu á 2°C hlýnun sem metnaðarfullt markmið en sættu sig svo bak við tjöldin við 3°C hlýnun. Rahmsdorf bendir líka á það að þótt hlýnunin héldi sig innan 2°C marksins gæti það hæglega leitt til alvarlegra breytinga á lífríki jarðar eins og sjáist glögglega af þeim áhrifum sem 0,7°C aukning hefur þegar valdið: „Af þessum sökum tel ég 2°C hlýnunina ekki örugga. Í morgun dró John Schellnhuber þetta fram með því að spyrja hvort „rússnesk rúlletta væri ekki hættuleg?“ Í rússneskri rúllettu eru líkurnar á því að eitthvað hræðilegt gerist einn á móti sex. Ef við förum upp í 2°C eru líkurnar á mjög alvarlegum afleiðingum líklega meiri.“4

Fræðilegar forsendur 2°C marksins hafa víða verið gagnrýndar. Slíkt gerði t.d. landfræðingurinn og umhverfissérfræðingurinn Joni Seager í fyrirlestri sem hún flutti um femínisma og loftslagsbreytingar, en þar benti hún á að 2°C mörkin hafi nánast verið dregin upp úr hatti, enginn geti gefið ásættanlega skýringu á því hvers vegna þessi mörk voru valin fremur en önnur. Seager færir fyrir því sannfærandi rök að hagfræðilegar fremur en vísindalegar ástæður liggi þar að baki.5 Að sama skapi gagnrýnir loftslagsvísindamaðurinn heimsþekkti James Hansen harðlega 450 ppm losunarviðmiðið sem hefur um nokkurt skeið verið hin ,metnaðarfulla‘ forsenda alþjóðlegra samningaviðræðna, en Hansensegir nauðsynlegt að ná losuninni aftur niður fyrir 350 ppm markið eigi að vera hægt að forða lífríki jarðar frá alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Í september 2011 var magn koltvísýrings í andrúmsloftinu tæplega 40 einingum yfir þessu marki eða í 389 einingum á milljón.6

Áhyggjur Rahmsdorfs eru skiljanlegar. Um það virðist vera almenn sátt meðal vestrænna stefnumótenda að óraunhæft sé að miða við að heildarlosun koltvísýrings haldist innan 450 ppm markanna, þótt slíkt sé nauðsynlegt eigi hlýnunin ekki að fara yfir 2°C. Siðfræðingurinn Clive Hamilton telur að stefnumótendur hafi í raun sæst á þetta svo snemma sem árið 2005. David King, ráðgjafi breskra stjórnvalda, lýsti því yfir í september 2005 að 450 ppm markið væri „pólitískt óraunhæft“. Sama skoðun var sett fram af hagfræðingnum Nicholas Stern sem árið 2006 skrifaði í frægri skýrslu sinni að alþjóðasamfélagið ætti fremur að horfa til 550 ppm sem efri marka. Eins og Hamilton hefur réttilega bent á er nú þegar svo stutt í 450 ppm mörkin að hagsmunaaðilar og kjósendur munu aldrei taka í mál að gangast inn á þær ströngu aðhaldsaðgerðir sem óhjákvæmlega felast í 450 ppm viðmiðinu.7 Því er nánast útséð um að hægt verði að stemma stigu við hlýnuninni nálægt þeim mörkum jafnvel þótt þau geti engan veginn talist vistfræðilega ásættanleg. Sé ekki farið í róttækar aðgerðir á allra næstu árum verður sífellt erfiðara að snúa af þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð með aðgerðaleysi ráðamanna og almennings.

Loftslagsumræðan er gríðarlega flókin. Þar er í einni bendu ólíkur hugsunarháttur og tjáningarmáti vísinda, stjórnmála og markaðar. Afleiðingin er sú að skilaboðin til almennings verða afskaplega misvísandi. Hér er að finna eina skýringuna á því hvers vegna vísindasamfélaginu hefur gengið svo illa að koma vandanum til skila. Lítið hefur miðað í rétta átt á síðasta áratug og sums staðar beinlínis orðið afturför. Svo dæmi sé tekið hefur þeim Bandaríkjamönnum sem trúa fréttum af hlýnun jarðar fækkað á undanförnum fimm árum, en þeir voru 79% árið 2006 en aðeins 59% á síðasta ári.8 Ekki bætir úr skák að valdamiklum hagsmunaöflum í viðskiptalífinu er mikið í mun að koma í veg fyrir að farið verði út í aðgerðir sem ógnað geti stöðu þeirra, t.d. á orkumörkuðum heimsins. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið í að draga vísindalegar niðurstöður í efa og eru slíkar aðgerðir dyggilega studdar af einstaklingum yst á hægri kanti stjórnmálanna sem berjast gegn hvers kyns takmarkandi stjórnvaldsaðgerðum á sviði loftslagsmála, þar sem þær myndu líklega leiða til aukinna ríkisafskipta.9 Almenningur á líka afskaplega erfitt með að gera sér í hugarlund umhverfisvanda sem smám saman safnast upp og hefur fyrst sýnilegar afleiðingar löngu eftir að lífríkinu hefur verið stofnað í hættu með aðgerða- og fyrirhyggjuleysi. Áhættumat samfélaga byggist ekki alltaf á röklegum forsendum eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á.10

Síðast en ekki síst má ekki gera of lítið úr stundarhagsmunum sem ýta iðulega langtímasjónarmiðum úr vegi. Í samfélagi þar sem orkusóun er til marks um auð og velgengni getur verið erfitt fyrir almenning að horfast í augu við sérhverjar þær kringumstæður sem ógnað geta neyslunni. Í slíku umhverfi vekja kröfur um hófsemi upp tilfinningu um vanefni, en eins og ég hef áður bent á fylgja alls kyns áfellisdómar hugmyndum um niðurskurð eða ,fátæktarbrag‘ í kapítalískum ríkjum.11

Neysla sem trúarleg innræting

Vandinn snýst ekki síst um það að hagvaxtarkrafan og neysluhyggjan hafa nánast trúarlegar skírskotanir í huga Vesturlandabúa eftir aldalanga innrætingu. Kristindómurinn hafði mikil áhrif á hugmyndir Adams Smith og kenningar um frjálsa verslun, en hún átti að vera samræmanleg vilja Guðs.12 Þó að iðulega sé reynt að fela þennan trúarlega þátt, eðaklæða hann í röklegan búning, birtist hann stundum ómengaður eins og sannaðist nýverið hér á landi þegar bók Jays W. Richards, Peningar, græðgi og Guð var gefin út, en þýðingin var kostuð af hópi íslenskra íhalds- og frjálshyggjumanna fyrir tilstilli Skafta Harðarsonar.13 Í bók sinni setur Richards fram þá skoðun að uppspretta efnislegs auðs sé andleg; auður verði til „með því að veita sköpunarkrafti okkar frelsi til að blómstra innan ramma frjáls markaðar sem byggður er á grunni laga og sterku siðferði“.14 Af þessum sökum þrjóti hráefni aldrei. Nýjar náttúrulegar auðlindir finnist alltaf vegna þess að tækninni við að ná til þeirra fleygi fram og það sem er mikilvægara: nýir orkugjafar komi í stað gamalla þegar nauðsyn krefji. Þannig hafi hvalaolíu verið skipt út fyrir steinolíu og þaðan farið yfir í jarðolíu, rétt eins og kolanotkun stöðvaði skógareyðingu á Bretlandi á nítjándu öld. Nánast sé útilokað að spá um hvað leysi olíuna af hólmi en Richards efast ekki um að nýir orkugjafar taki smám saman við af gömlum á nýrri öld.15 „Maðurinn, ekki efnið, er hin sanna auðlind“, segir hann: hann hafi getu til þess að „umbreyta auðlindum og skapa nýjar“.16

Það er í þessu samhengi sem tilsvör Ari Fleischer á fréttamannafundi í maí 2001 í Hvíta húsinu verða einvörðungu skilin, en hann lýsti yfir nánast helgum rétti Bandaríkjamanna til þess að nýta auðlindir jarðar án nokkurra ytri takmarkana, annarra en þeirra sem markaðurinn setur.17 Fleischer, sem var á þessum tíma fréttafulltrúi George W. Bush Bandaríkjaforseta, var spurður á blaðamannafundi um það orkubruðl sem einkenndi bandarískan lífsstíl og hvort ekki væri brýnt fyrir Bandaríkjamenn að breyta hegðun sinni í ljósi þess að hvergi á byggðu bóli væri sóað meiru hlutfallslega en þar í landi. Svar Fleischers gat vart verið skýrara: „Það kemur ekki til greina. Forsetinn lítur svo á að þetta snúist um amerískan lífsstíl og að það eigi að vera markmið stjórnvalda að vernda ameríska lífsstílinn. Ameríski lífstíllinn nýtur blessunar. Við höfum líka nóg af auðlindum í þessu landi“.18

Í merkingarkerfi Fleischers og Richards eru allsnægtir „merki um velþóknun Guðs“ og jafnvel „forboðar gæðanna sem við munum njóta í Guðs ríki, landinu sem „flýtur í mjólk og hunangi“, þar sem við munum að líkindum aldrei þurfa að hafa áhyggjur af því að lifa af“.19 Markaðurinn er kraftbirting guðdómsins í veröldinni. Richards segir:

Adam Smith, hinn mikli hugsuður átjándu aldar, leit á þetta sem hina „ósýnilegu hönd“ markaðarins sem lyfti takmörkuðum manninum á æðra stig, eins og í birtingarmynd af gæsku Guðs og forsjá hans fyrir mannkyninu, vegna þess að hún skapaði meiri og samstilltari reglu en við hefðum mátt vænta.20

Dulmagn markaðarins felst í því að hann virkar og það þrátt fyrir að enginn „mannlegur máttur [geti] skipulagt efnahagskerfi“. Richards telur að kristnir menn ættu að greina markaðinn „sem leið Guðs til að stjórna með forsjá sinni athöfnum milljarða frjálsra manna í syndugum heimi“.21 Í markaðnum sjáum við hönd Guðs, rétt eins og í sólarupprásinni, fjalllendi, lögmálum eðlisfræðinnar og svipmyndum af jörðinni utan úr geimnum.

Breski heimspekingurinn John Gray rekur hvernig síðari tíma hagfræðingar reyndu með takmörkuðum árangri að afneita trúarlegum uppruna hagfræðikenninga Adams Smith. Segir Gray það hafa leitt til kreddufastari túlkunar á pólitísku hagkerfi skoska heimspekingsins, en trúarlegar kenningar um frjálsan markað verði sérlega viðsjárverðar eftir að trúarlegum rótum þeirra hefur verið hafnað. Hin trúfræðilega staðleysa víki fyrir annarri sem færð hefur verið í röklegan búning.22

Burtséð frá því hvort horft er til trúfræðilegra skýringa eða ekki er sjálf hagvaxtarhugmyndin sem kapítalískt hagkerfi hverfist um nánast hafin yfir gagnrýni. Rétttrúnaðurinn er slíkur að allir þeir sem vilja svo mikið sem draga lögmálið í efa dæma sig úr leik í pólitískri umræðu og skiptir þá litlu hvort menn kenna sig við vinstristefnu eða hægri.

Stoppum þessa sturluðu stefnu!

Hvað eru raunhæf pólitísk markmið? Í samfélögum þar sem orkusóun er sjálfgefinn réttur þegnanna og hagvöxtur eina ásættanlega viðmiðið eru allar stjórnvaldsaðgerðir pólitískt óraunhæfar sem í alvöru miða að róttækri takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Orsökin er einföld. Nánast er útilokað að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn loftslagsbreytingum leiði ekki til efnahagssamdráttar, jafnvel þó að í þeim felist forsendurnar fyrir tækifærum framtíðarkynslóða. Almenningur á Vesturlöndum vill að stjórnmálamenn setji sér ýmiskonar háleit markmið í umhverfisvernd, en slíkar stjórnvaldsákvarðanir mega þó ekki skerða eftirsóknarverðan lífsstílinn sem kjósendur hafa vanist. Þetta vita stjórnmálamennirnir og tala því gjarnan fjálglega en framkvæma lítið. Engin hætta er síðan á því að almenningur mótmæli þegar markmiðunum er ekki náð. Fólk fylkir sér ekki undir merki efnahagssamdráttar og ,meinlæta’.23

Pólitískir hagsmunir og ábyrg stefna á sviði loftslagsmála fara því illa saman. Líklega hafa þessi sannindi aldrei komið skýrar fram en í aðdraganda Alþingiskosninganna í apríl 2009. Aðeins þremur dögum fyrir kosningarnar birtust fréttir af því í flestum íslenskum fjölmiðlum að vinstri grænir legðust gegn olíuleit á Drekasvæðinu, en þá biðu margir Íslendingar þess í ofvæni að sjá hvaða olíufélög myndu hugsanlega hefja olíuvinnslu í íslenskri lögsögu á næstu árum. Kvöldið 22. apríl 2009 var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 að Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra hefði kallað Drekaútboðið „óðagotsaðgerð“ í ljósi þess að „olíuvinnsla samrýmist hvorki stefnu um sjálfbæra nýtingu orkulinda né skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi“.24 Innan við klukkutími leið frá því að ummæli umhverfisráðherra fóru í loftið þar til komin var yfirlýsing frá þingflokki vinstri grænna þar sem var áréttað að flokkurinn hefði „ekki lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu“. Sama kvöld lýsti Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra því yfir í umræðuþætti á Stöð 2 að enginn ágreiningur væri um olíuleitina í ríkisstjórninni.25

En skaðinn var skeður. Aðeins nokkrum mínútum eftir frétt Stöðvar 2 hafði Morgunblaðið vitnað í hana á vef sínum: „Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2, að Vinstrihreyfingin grænt framboð leggðist [svo] gegn olíuleit á Drekasvæðinu svonefnda enda sé olíuvinnsla í andstöðu við stefnu flokksins.“26

Frétt Morgunblaðsins skapaði talsvert fár í bloggheimum, en alls birtust 18 blogg um fréttina og voru flestir höfundanna afar gagnrýnir á Kolbrúnu. Í þeim anda sagði Haukur Nikulásson: „Ég kýs ekki flokk sem vinnur svo stórkostlega gegn þjóðarhag að vilja ekki olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er mér óhugsandi. Hvers konar hálfvitaútspil er þetta hjá Kollu svona rétt fyrir kosningarnar?“ Í athugasemdakerfinu er almennt tekið undir vandlætingarsjónarmið Hauks, en Haukur er minntur á að ekki hugsi allir vinstri grænir á þennan hátt. Sóley Björk Stefánsdóttir segir nýju andlitin „mun sveigjanlegri og ekki jafn „fasísk“ og Kolbrún Halldórs“ og Þór Jóhannesson hvetur menn til þess að hafa ekki „áhyggjur af bulludollunni hún hefur ekkert fyrir sér og sameinumst um að strika hana út“. Ólafur B. Ólafsson segir yfirlýsingu Kolbrúnar vera stærsta fíflaskapinn „korter í kostningar“ [svo] á meðan Gunnar Th. Gunnarsson segir „Þetta fáið þið!“ við pólitíska andstæðinga sína. „Á að fara aftur í fjallagrasafarið?“ spyr Guðmundur Ragnar Björnsson og segir fólk finnast í vinstri grænum sem ekki hafi „neitt jarðsamband“. Björn Indriðason segir flokkinn „[á] móti öllu!“ og „Framtíðarsýn VG [vera] sem sagt að við dönsum úti á túni skít blönk [svo] með blóm í hárinu“. Jóhann Elíasson spyr hvort „fólk í Norðausturkjördæmi [ætli] virkilega að kjósa þetta yfir sig?“, á meðan Jens Sigurðsson segir Kolbrúnu Halldórsdóttur vera veruleikafirrta og einhvern hinn mesta kjána „sem hefur tekið sæti á hinu há [svo] Alþingi“. Rósa Aðalsteinsdóttir tekur undir orð Jens í athugasemdum við færslu hans og segir Íslendinga hafa „leyfi frá almættinu að nýta náttúruna“.27 Þeir örfáu sem taka upp hanskann fyrir þingkonuna eru umsvifalaust kveðnir í kútinn. Magnús Bergsson, sem bloggar á vefnum Náttúra og hrósar Kolbrúnu fyrir skynsemina, er hvattur til að „hugsa aðeins út fyrir húsvegginn hjá [sér]“ og Kristinn Svanur Jónsson segir „þetta nákvæmlega lýsandi fyrir þá öfgastefnu sem er innan raða vinstri grænna. Drepa atvinnulífið, drepa vonina, drepa metnað fólks til að standa sig og fæla alla skynsama Íslendinga af landinu“. Hann hvetur fólk til þess að stoppa „þessa sturluðu stefnu, kjósum EKKI vinstri græna!“28

Í fréttaskýringu sem birtist á vefritinu vinstrisinnaða Smugunni um málið nokkrum dögum eftir kosningar kallar blaðamaðurinn Elías Jón Guðjónsson málið „Storm í olíutunnu“.29 Áhugavert er hvernig Elías, sem er fyrrverandi varaformaður ungliðahreyfingar vinstri grænna, víkur sér undan því að taka á meginforsendunum fyrir því að ekki eigi að fara í olíuleit á Drekasvæðinu, þótt hann vísi vissulega til hugmynda um sjálfbærni. Hann leggur fremur áherslu á ýmsa óvissuþætti sem tengjast olíuvinnslu á svæðinu, t.d. það hvort olíu sé þar yfirhöfuð að finna og hvort hægt sé að ná til hennar. Olíuvinnsla verði því ekki „stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála á næstu árum“.

Svo vandræðaleg var yfirlýsing Kolbrúnar fyrir flokkinn að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, átti í mesta basli með að snúa sig út úr málinu. Kristján Már Unnarsson fréttamaður Stöðvar 2 þurfti að „ítreka spurningu sex sinnum áður en svar fékkst við því hvort flokkurinn styddi olíuvinnslu á svæðinu og hvort hún samrýmdist hugmyndafræði flokksins.“ Steingrímur var að lokum þvingaður til þess að lýsa því yfir að „eftir því sem verður unnin olía í heiminum, eftir 15–25 ár, þegar mögulega á þetta reynir á Drekasvæðinu, þá útiloki okkar umhverfisstefna ekki það að Ísland verði aðili að olíuvinnslu, frekar en önnur lönd“.30

Þessum vandræðagangi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs gerir Gísli Marteinn Baldursson góð skil í bloggfærslu um málið þar sem hann dregur fram mótsagnirnar í viðbrögðum flokkssystkina Kolbrúnar. Eins og Gísli Marteinn bendir réttilega á er ekki hægt að mæla frekari olíuvinnslu og olíuleit bót á sama tíma og varað er við alvarlegum loftslagsbreytingum:

Með öðrum orðum, þeir sem raunverulega telja að jörðin sé að hlýna vegna brennslu olíu, setja sig í mjög einkennilega stöðu með því að berjast fyrir því að Ísland bori eftir meiri olíu til að brenna, og hiti jörðina því enn meira.31

Gísla Marteini lætur vel að ræða hræsni íslenskra græningja, en um skeytingarleysi eigin flokkssystkina um þessi mál fer hann ekki mörgum orðum. Ekki lætur hann því heldur svarað hvort hann sjálfur styðji olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Gísli Marteinn, sem er einn af fáum fulltrúum umhverfisverndar á hægri armi íslenskra stjórnmála, veit líklega jafn vel og Steingrímur J. Sigfússon hversu varhugaverðar slíkar yfirlýsingar kunna að reynast ætli menn sér frama í pólitík.

Yfirlýsing Kolbrúnar Halldórsdóttur var byggð á traustum vísindalegum forsendum. Þó kostaði yfirlýsingin hana að öllum líkindum þingsætið þremur dögum seinna. Í ljós kom að enginn þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður hlaut eins margar útstrikanir og hún. Tæplega fjórðungur kjósenda VG strikaði yfir nafn hennar eða færði niður á atkvæðaseðlinum, eða alls 1.990.32 Jafnframt var stofnuð Facebook-síða gegn þingkonunni fyrrverandi eftir kosningarnar undir yfirskriftinni: „Nálgunarbann á Kolbrúnu Halldórsdóttur“ og skráðu 305 félagar sig í hópinn. Þar segir:

Í kosningunum 2009 átti sá gleðilegi atburður sér stað að Kolbrún Halldórsdóttir féll af þingi.

Til að hindra það að nokkurntíman [svo] aftur í sögu lýðveldisins Íslands komist hún aftur á þing skorum við á forseta Alþingis að fá á hana sett nálgunarbann svo hún geti ekki komið nær þinghúsinu en 100 metra.

Hér er um hagsmunamál þjóðarinnar allrar að ræða!33

Sú staðreynd að kjósendur eindregnasta umhverfisverndarflokks Íslands skyldu refsa þingmanni sínum með svo afgerandi hætti sýnir glögglega hversu vonlaust það er fyrir stjórnmálamann að fylgja eftir ábyrgri stefnuskrá á sviði loftslagsmála. Þetta er öruggasta leiðin til þess að tapa kosningum eins og Steingrímur J. Sigfússon vissi fullvel þegar hann færðist fimm sinnum undan að svara því hvort flokkurinn styddi olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Viðbrögð íslenskra kjósenda sýna einnig hversu flóknir allir pólitískir samningar um losunarheimildir eiga eftir að reynast. Stjórnmálamenn sem ætla sér að bregðast við vandanum á ábyrgan hátt munu að öllum líkindum ekki hafa nauðsynlegt bakland til þess að hrinda slíkum ákvörðunum í framkvæmd. Ef vinstrisinnaðir kjósendur í velmegunarsamfélagi bregðast á ofangreindan hátt við yfirlýsingu um að þeir verði sviptir óvissum framtíðargróða ætti að vera ljóst að ekkert verður gert í samfélögum sem nú þegar eiga beinna hagsmuna að gæta í vinnslu jarðefnaeldsneytis og þar sem efnahagurinn reiðir sig beinlínis á slíkan iðnað. Íslenska dæmið sýnir að líklega er óvinnandi vegur að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda nógu fljótt til þess að forða jörðinni frá alvarlegum veðurfarsbreytingum.

Hversu mörg ppm þarf til að vekja sofandi dreka?

Hversu óraunhæft er 450 ppm markið? Góð leið til þess að átta sig á því er að kynna sér grein Kevins Anderson og Alice Bows, „Reframing the climate change challenge in light of post-2000 emission trends“, en siðfræðingurinn Clive Hamilton hefur kallað hana mikilvægasta texta sem hann hafi lesið um loftslagsmál. Hvergi sé jafn skýrt dreginn fram vandinn sem mannkyn standi frammi fyrir í glímunni við loftslagsvána.34 Því er jafnframt erfitt að neita eftir lestur greinarinnar að pólitísku viðmiðin sem ráða ferðinni eru ekki byggð á vísindalegum forsendum og það þrátt fyrir að stjórnmálamönnum þyki þau of metnaðarfull til þess að um þau náist nokkur sátt. Í grein sinni skoða Anderson og Bows þær forsendur sem lágu fyrir á loftslagsráðstefnunni á Bali 2007, en nú hafa þau uppfært rannsókn sína í ljósi umræðna á Kaupmannahafnarfundinum 2009.35

Í greininni frá 2008 velta Anderson og Bows fyrir sér því heildarmagni gróðurhúsalofttegunda sem losað verði í andrúmsloftið á næstu áratugum og flokka losunina eftir þremur meginþáttum: 1) Losun tengd brennslu jarðefnaeldsneytis í almennri neyslu og iðnaði; 2) losun tengd eyðingu skóglendis; og 3) losun annarra gróðurhúsalofttegunda en koltvísýrings, aðallega metans og níturoxíðs, en þessi losun tengist fyrst og fremst landbúnaði. Eins og komið hefur fram er tiltölulega auðvelt að reikna út hvaða áhrif aukning koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda hefur á meðalhitastig jarðar. Í stuttu máli sagt gáfu Anderson og Bows sér að verulega yrði dregið úr losun sem tengist eyðingu skóglendis og landbúnaði á næstu áratugum og að heildarmagnið sem losnaði út í andrúmsloftið á þessari öld samsvaraði 1100 milljörðum tonna af koltvísýringi (þegar búið er að umreikna í CO2).36 Hér var komið afskaplega jákvætt spáferlisviðmið sem hægt var að nota til þess að reikna út hver samdrátturinn í brennslu jarðefnaeldsneytis yrði að vera með hliðsjón af því hvenær losunarhámarki (e. emission peak) yrði náð og því hversu hratt yrði dregið úr losuninni þar á eftir. Anderson og Bows gerðu ráð fyrir losunarhámarkinu 2020. Frá þeim tíma yrði dregið úr losun að meðaltali um 3% á ári og iðnvæddu samfélögin tækju á sig 6–7% niðurskurð. Slíkan niðurskurð yrði aldrei hægt að skilgreina öðruvísi en sem neyðarákvörðun en til samanburðar má geta þess að eftir hrun Sovétríkjanna dró úr losun gróðurhúsalofttegunda í ríkjasamsteypunni fyrrverandi um 5,2% á ári í heilan áratug en samdráttinn mátti rekja til þeirrar djúpstæðu kreppu sem einkenndi efnahaginn allan tíunda áratug síðustu aldar. Þetta spáferli rætist aðeins ef heildarviðbótarlosun er haldið innan 3000 milljarða tonna á öldinni sem nú er nýhafin.

Það er fátt sem gefur tilefni til að ætla að alþjóðasamfélagið grípi til jafn róttækra aðgerða og spáferli Andersons og Bows gengur út frá. Hver vill demba efnahagnum í gegnum jafn djúpstæðar þrengingar og almenningur í ,nýfrjálsum‘ löndum Sovétríkjanna mátti þola? En hver yrði árangurinn af svo róttækum aðgerðum? Myndu þær duga til þess að snúa þróuninni við og halda hlýnuninni innan 2°C markanna, undir 450 ppm? Clive Hamilton segir réttilega að útreikningar Andersons og Bows gefi ekki tilefni til bjartsýni.37 Niðurstaðan af ofangreindu spáferli sem virtist svo ,jákvætt‘ við fyrstu sýn er ekki 450 ppm eða jafnvel 550 ppm, heldur 650 ppm, eða hlýnun um 4°C við lok aldarinnar.38 Slík hlýnun er langt fyrir ofan ýmsa náttúrulega hvarfpunkta (e. tipping points) og hefði því keðjuverkandi áhrif sem orsakaði enn frekari hlýnun með svo alvarlegum afleiðingum fyrir lífríki jarðar að erfitt er að gera sér þær í hugarlund.39

Grein Andersons og Bows frá þessu ári er í samræmi við þá fyrri. Lítill vilji er meðal stjórnmálamanna til að endurskoða viðmiðin og vísindasamfélagið hefur í raun brugðist.40 Þau ítreka að senn sé nánast útilokað að halda sig innan 2°C markanna og að þau séu langt í frá þau ákjósanlegu viðmiðunarmörk sem menn vilji vera láta – ekki hættuleg heldur stórhættuleg.41 Tilgangurinn með rannsókn þeirra sé samt sem áður ekki sá að hvetja til uppgjafar heldur fremur að vekja menn til umhugsunar um hversu fáránleg viðmiðin og stefnumörkunin hafi fram að þessu verið. Kominn sé tími til að horfast í augu við raunveruleikann og bregðast við vandanum með ábyrgum hætti.42

„Stoppum þessa sturluðu stefnu“ brýndi einn af andstæðingum Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir samlöndum sínum í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Sá kýs væntanlega að taka ekkert mark á öllum þeim losunarspáferlum sem nú birtast í virtum vísindatímaritum um allan heim og draga upp mjög myrka framtíðarsýn ef svo fer fram sem horfir. Eða kannski hefur hann einfaldlega ekki kynnt sér niðurstöðurnar fremur en aðrir þeir sem ráku upp ramakvein eftir yfirlýsingu umhverfisráðherra.

Frammi fyrir gögnunum er líklega aðeins tvennt í stöðunni ætli menn að halda áfram á sömu háskabrautinni. Vera hræsnari sem segir eitt og gerir annað. Tala fjálglega um hættur loftslagsbreytinga en breyta svo nákvæmlega eins og afneitararnir, allir þeir sem hafna því að bera nokkra ábyrgð á veðurfarsbreytingunum eða taka ekki mark á niðurstöðum þúsunda loftslagsrannsókna. Jay W. Richards er einmitt einn af afneiturunum, en hann velur að vefengja niðurstöður vísindasamfélagsins með alls kyns óígrunduðum rökum.43 Hann veit að guðleg forsjárkenning hans fellur um sjálfa sig ef óheft notkun eins orkugjafa hefur svo hrikalegar afleiðingar að framtíðarlausnirnar mega sín lítils andspænis framtíðarvandanum. Hann velur því leið afneitarans og hafnar alvarleika loftslagsbreytinga eftir gamalkunnum leiðum sem allar er búið að hrekja ótal sinnum af sérfræðingum á sviðinu.44

Hvar liggja endimörk græðginnar?

Annar og merkilegri trúarheimspekingur en Jay W. Richards var rússneski rithöfundurinn Leo Tolstoj. Hann fjallaði víða um sérkennilegar þversagnir græðginnar en líklega hvergi á eins eftirminnilegan hátt og í smásögunni um bóndann Pákhom sem er aldrei ánægður með hlutskipti sitt og vill alltaf meira ræktarland fyrir sig og sína. Þörf Pákoms fyrir meira pláss leiðir hann sífellt lengra frá upphaflegum heimkynnum sínum. Fyrst heldur hann til Neðri-Volgu þar sem hann eignast strax „þrisvar sinnum eins stórt land og áður“ og „getur eftir því haft margfalt betri afkomu“.45 Þar unir hann þó ekki lengi. Brátt fer að þrengja að honum og hann kemst að því að í landi Basjkirarana sé hægt að fá mikil landflæmi fyrir tíunda hlutann af því sem jarðir kosta í Neðri-Volgu. Basjkirarnir bjóða Pákhom allt það land sem hann geti gengið umhverfis á einum degi fyrir aðeins eitt þúsund rúblur og Pákhom hugsar sér gott til glóðarinnar. Kaupunum fylgir aðeins eitt skilyrði. Pákom verður að vera kominn aftur á upphafsstaðinn fyrir sólsetur. Lesendur sem þekkja til frásagnarlistar Tolstojs fara nærri um örlög rússneska bóndans. Pákom leggur af stað í gönguna rétt fyrir sólarupprás en græðgin leiðir hann alltaf lengra: „Hann skokkaði ennþá nokkurn spöl beint áfram og sneri sér svo við: Hæðin var nú varla sjáanleg, Basjkirarnir sýndust eins og maurflugur, og á vagnhjólin blikaði naumast nú orðið“.46 Vitanlega ætlar hann sér um of. Þegar loks rennur upp fyrir honum að hann nái vart að snúa aftur fyrir sólarlag tekur hann á sprett og sprengir sig á hlaupunum. Rétt áður en sólin sest snýr Pákom aftur á hæðina þar sem Basjkirarnir bíða hans og hnígur örendur til jarðar:

Húskarl Pákoms flýtir sér að til þess að hjálpa húsbónda sínum á fæturna. Pákom liggur þarna með blóð fyrir vitunum – dauður.

Svo tók húskarlinn hakann, gróf gröf, nákvæmlega jafnlanga líkama Pákoms – þriggja álna langa, hvorki meira né minna – og jarðaði húsbónda sinn.47

Dæmisögu Tolstojs er auðvelt að heimfæra upp á veruleika alþjóðlegra loftslagssáttmála og sinnuleysi almennings. Við sannfærum sjálf okkur um að enn sé tími til stefnu, að enn sé hægt að snúa aftur á upphafsstaðinn þótt við höldum aðeins lengra. Allt verður að lokum í lagi og á meðan ekkert er gert eignumst við enn meira land. Þó verður með hverju árinu sem líður enn erfiðara að ná aftur á hæðina okkar í tíma. Fæst þeirra sem lögðu í gönguna um sólarupprás hafa þó enn svo mikið sem litið um öxl. Þau vilja púla aðeins lengur, hamast aðeins meira, ganga aðeins nær sjálfum sér. Aðeins þannig verður raunverulega reynt á mörkin. Aðeins þannig köstum við ekki því lífi á glæ sem lifa verður til fulls.

Hér er þó einn munur á. Pákom galt fyrir græðgi sína með lífinu. Gröfin sem við gröfum er handa afkomendum okkar.

______________________________________________________

Tilvísanir

Grein þessi er liður í rannsóknaklasa EDDU – öndvegisseturs í gagnrýnum samtímarannsóknum
við Háskóla Íslands.

1 Sjá „24 þúsund milljarða olíufundur“, mbl.is, 30. september 2011: http://www.mbl.is/vidskipti/ frettir/2011/09/30/24_thusund_milljarda_oliufundur/ [sótt 30. september 2011].

2 Ásdís Sigurðardóttir: „Eigum við leynda sjóði á hafsbotni?“, 30. september 2011. Sjá einnig athugasemd Axels Jóhanns Hallgrímssonar við bloggfærslu Ásdísar: http://asdisomar.blog.is/ blog/asdisomar/entry/1194790/ [sótt 30. september 2011].

3 Einar Sveinbjörnsson: „Siðferðisleg þversögn í loftslagsmálum“, 10. október 2011: http://esv. blog.is/blog/esv/entry/1196974/ [sótt 11. október 2011].

4 „Transcription of closing plenary. IARU Climate Congress, Copenhagen, Denmark 12 March,2009“. Fundargerð ritaði Paul Baer: http://sites.google.com/site/mtobis/cope… [sótt 19. október 2011]. Rahmsdorf segir: „I’m well aware that scientists and politicians and the general public often use language in a different way, there’s a lot of communication problems sometimes arising from that, and I want to just express a concern that I have that when politicians talk about the ambition of two degrees as you did, that that’s considered an ambition, and in the end, if all goes reasonably well, we actually end up with three degrees of warming. Whereas I think, I want to emphasize that when as scientists we talk about those two degrees, that really is a kind of upper limit that we really should not cross. I personally as a climate scientists, I could not honestly go and tell the public that two degrees warming is safe. We’re already seeing a lot of impacts of the 0.7 degrees warming that we’ve had so far. So I consider two degrees not safe, and John Schellnhuber this morning asked about the question „Is Russian Roulette dangerous?“ and in RR you have a one in six chance of something terrible happening, I think that when we go to two degrees we probably have more than a one in six chance of really bad impacts occurring.“

5 Joni Seager: „Feminism and Climate Change“, The Scholar & Feminist Conference, 27. febrúar 2010. Seager er auk þess mjög gagnrýnin á hagfræðilegar réttlætingar. Þeim sé fyrst og fremst ætlað að mismuna þjóðum heims. Vesturlönd móti sér stefnu sem sé ætlað að takmarka tjónið heima fyrir, án tillits til þess hvaða afleiðingar stefnumörkunin hafi víða í þriðja heiminum.
Fyrirlesturinn má finna í heild sinni á netinu: http://vimeo.com/10189134 [sótt 19. október 2011]. Seager flutti fyrirlestur á Íslandi um sama efni 5. nóvember 2011 á vegum RIKK (Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands), en hún var einn af heiðursfyrirlesurum á 20 ára alþjóðlegri afmælisráðstefnu rannsóknastofunnar. Joni Seager: „Death by Degrees: Making Feminist Sense of the 2° Climate Change Target“: https://rikk.hi.is/?p=1448 [sótt 23. október 2011, staðfest 6. nóvember 2011].

6 Um þróun magns koltvísýrings í andrúmsloftinu má t.d. lesa hér: http://co2now.org/ [sótt 23. október 2011]. Sjá einnig James Hansen o.fl.: „Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim?“, The Open Atmospheric Science Journal 2008, 2. hefti, bls. 217–231: http://arxiv.org/abs/0804.1126 [sótt 25. október 2011]. Hansen dregur helstu rökin einnig saman í 8. kafla bókar sinnar, Storms of My Grandchildren: The Truth About the Coming Climate Catastrophe and Our Last Chance to Save Humanity. New York, Berlin og London: Bloomsbury 2009, bls. 140–171.

7 Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 26–27.

8 Sjá m.a. grein í The New York Times eftir Elizabeth Rosenthal frá 15. október 2011, „Where Did Global Warming Go?“: http://www.nytimes.com/2011/10/16/sunday… [sótt 19. október 2011].

9 Ég hef m.a. rætt þetta í grein minni „Efahyggja og afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, Ritið 2/2008, bls. 77–114, hér bls. 93–94.

10 Mikið hefur verið skrifað um áhættumat út frá menningarlegum, viðtökufræðilegum og hugrænum forsendum. Hér má nefna frægt rit Mary Douglas og Aarons Wildavsky: Risk and Culture. Berkeley, Los Angeles og London: University of California Press 1983. Einnig má nefna Richard A. Posner: Catastrophe: Risk and Response. Oxford: Oxford University Press 2004; og
Eliezer Yudkowsky: „Cognitive biases potentially affecting judgement of global risks“, Global Catastrophic Risks, ritstj. Nick Bostrom og Milan M. Cirkovic. Oxford: Oxford University Press 2008, bls. 85–105.

11 Guðni Elísson: „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, Ritið 1/2011, bls. 91–136, hér bls. 92–93.

12 Sjá t.d. Guðni Elísson: „Þegar vissan ein er eftir: Um staðlausa stafi og boðunarfrjálshyggju“, TMM 2010, 4. hefti, bls. 17–25, sérstaklega bls. 20–22.

13 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, þýð. Elín Guðmundsdóttir. Reykjavík: Bókafélagið Ugla ehf. 2011.

14 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 17.

15 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 241–248.

16 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 264.

17 Um svör Fleischers er víða fjallað í bókum um loftslagshlýnun, sjá t.d. Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 34; og Peter Singer: „Climate Change as an Ethical Issue“, Climate Change and Social Justice, ritstj. Jeremy Moss. Melbourne University Press: Carlton, Victoria 2009, bls. 46–47.

18 „Press Briefing by Ari Fleischer“, 7. maí 2001: http://georgewbush-whitehouse.archives.g… news/briefings/20010507.htm [sótt 16. október 2011]. „That’s a big no. The President believes that it’s an American way of life, and that it should be the goal of policy makers to protect the American way of life. The American way of life is a blessed one. And we have a bounty of
resources in this country.“

19 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 208–209. Ég fjalla um aðrar trúarlegar hliðar loftslagsumræðunnar í grein minni „Þið munuð öll deyja! Lita dómsdagsspár hugmyndir manna um loftslagsvísindi?“ Lesbók Morgunblaðsins, 19. apríl 2008, bls. 8–9.

20 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 273–274. Richards fer ofan í saumana á hagfræði Hayeks á næstu síðum og ræðir þar sérstaklega hugtök eins og reglu og tilgang. Richards túlkar hugmyndir Hayeks sem „hreina efnishyggju“ (bls. 281) fremur en dulbúna trúfræði, en dregur í lokin fram frumforsendurnar í hugmyndum Hayeks: „Hann gat ekki skírskotað til Guðs, eilífs alheims eða einhvers tilgangs æðri alheiminum og þess vegna valdi hann þann kost sem eftir stóð: Markaðurinn hlaut að vera dæmi um reglu sem spratt úr glundroða“ (bls. 281).

21 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 270–271.

22 John Gray: Black Mass: Apocalyptic Religion and the Death of Utopia, bls. 123. (London: Penguin Books, 2008). Um trúarlegar skírskotanir frjálshyggju má einnig lesa á bls. 116–117, 122–123, 150–169.

23 George Monbiot bendir á þessi sannindi í bók sinni Heat: How to Stop the Planet From Burning, Cambridge, Mass.: South End Press 2007, bls. 41–42. Sjá einnig greinar mínar „Nú er úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, Ritið 1/2007, bls. 5–44, hér bls. 42–44; og „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 128–136.

24 „Á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu“, 22. apríl 2009: http://www.visir.is/a-moti-oliuvinnslu-a… [13. október 2011].

25 „Iðnaðarráðherra: Ekki ágreiningur um olíuvinnslu í stjórninni“, 22. apríl 2009: http://www. visir.is/idnadarradherra–ekki-agreiningur-um-oliuvinnslu-i-stjorninni/article/2009139100484; „VG ekki á móti olíuleit á Drekasvæðinu“, 22. apríl 2009: http://www.visir.is/ vg-ekki-a-moti-oliuleit-a-drekasvaedinu/article/2009219138542 [13. október 2011].

26 „VG gegn olíuleit á Drekasvæði“, 22. apríl 2009: http://www.mbl.is/frettir/kosning/2009/0… vg_gegn_oliuleit_a_drekasvaedi/ [sótt 14. október 2011].

27 Rósa bætir því við að mannkyni beri „að halda öllu í jafnvægi“ og sýna „visku“ í auðlindanýtingu, en það virðist ekki eiga við um olíuvinnslu í Drekasvæðinu.

28 Haukur Nikulásson: „Þar fór hugsanlega atkvæðið mitt á VG“, 22. apríl 2009: http://haukurn. blog.is/blog/haukurn/entry/860755/; Ólafur B. Ólafsson: „Þetta er stærsti fíflaskapurinn korter í kostningar [svo]!!!“, 22. apríl 2009: http://1kaldi.blog.is/blog/1kaldi/entry/…; Gunnar Th. Gunnarsson: „Þetta fáið þið!“, 22. apríl 2009: http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/8607…; Guðmundur Ragnar Björnsson: „Á að fara aftur í fjallagrasafarið?“, 22. apríl 2009: http:// gudmbjo.blog.is/blog/gudmbjo/entry/860779/; Björn Indriðason: „Á móti öllu!“, 22. apríl 2009: http://bjorni0.blog.is/blog/bjorni0/entr…; Jóhann Elíasson: „Ætlar fólk í Norðausturkjördæmi virkilega að kjósa þetta yfir sig??????“, 22. apríl 2009: http://johanneliasson.blog.is/ blog/johanneliasson/entry/860810/; Jens Sigurðsson: „Veruleikafyrtur [svo] stjórmálamaður [svo]“, 22. apríl 2009: http://jenni-1001.blog.is/blog/jenni-100…; Magnús Bergsson: „Gott hjá Kolbrúnu“, 22. apríl 2009: http://mberg.blog.is/blog/mberg/entry/86… [sótt 14. október 2011].

29 Elías Jón Guðjónsson: „Stormur í olíutunnu?“, Smugan. Vefrit um pólitík og mannlíf, 5. maí 2009: http://smugan.is/2009/05/stormur-i-oliut… [sótt 18. október 2011]. Elías Jón varð aðstoðamaður Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra í febrúar 2010.

30 „Treglega gekk að draga út svar frá Steingrími um olíuvinnslu“, 23. apríl 2009: http://www. visir.is/treglega-gekk-ad-draga-ut-svar-fra-steingrimi-um-oliuvinnslu/article/2009695293528; sjá einnig „Ósammála Kolbrúnu um Drekasvæðið“, Ríkisútvarpið vefur, 23. apríl 2011: http:// www.ruv.is/frett/osammala-kolbrunu-um-drekasvaedid [sótt 30. september 2011].

31 „G-blettur Steingríms J.“, 23. apríl 2009: http://www.gislimarteinn.is/?p=181 [sótt 18. október 2011].

32 „Guðlaugur Þór niður um sæti“, 29. apríl 2009: http://www.mbl.is/frettir/kosning/2009/0… gudlaugur_thor_nidur_um_saeti/; og „Kolbrún Halldórsdóttir með flestar útstrikanir“, 29. apríl 2009: http://www.amx.is/stjornmal/6715/ [sótt 18. október 2011].

33 „Nálgunarbann á Kolbrúnu Halldórsdóttur“, FACEBOOK http://www.facebook.com/group. php?gid=77008399207 [sótt 18. október 2011].

34 Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 16; og Kevin Anderson og Alice Bows: „Reframing the climate change challenge in light of post-2000 emission trends“, Philosopical Transactions of the Royal Society, Royal Society 2008, 13. nóvember, 366/1882, bls. 3863–3882. Greinina má nálgast á netinu: http://files.uniteddiversity.
com/Climate_Change/Reframing_the_climate_change_challenge.pdf [sótt 10. október 2011].

35 Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, Philosopical Transactions of the Royal Society, Royal Society 13. janúar 2011, 369/1934, bls. 20–44. Greinina má nálgast á netinu: http://rsta.royalsocietypublishing.org/ content/369/1934/20.full.pdf+html?sid=f64a0504-2d45-4e58-a158-d04248acbd5c; sjá einnig Andrew Macintosh: „Keeping warming within the 2°C limit after Copenhagen“. Energy Policy 2010, 38, bls. 2964–2975. Greinina má nálgast á netinu: http://www.sciencedirect.com/ science?_ob=MiamiImageURL&_cid=271097&_user=713833&_pii=S0301421510000595&_ check=y&_origin=&_coverDate=30-Jun-2010&view=c&wchp=dGLzVlS-zSkWb&md5=32281
a7be0cabcc4316b76496aa1d6f8/1-s2.0-S0301421510000595-main.pdf [sótt 24. október 2011].

36 Hér styðst ég við samantekt Clives Hamilton í Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change (bls. 18), en hann dregur afbragðsvel fram meginatriði þessarar flóknu en merkilegu greinar. Ég bæti þó inn viðbótarupplýsingum þegar þörf þykir.

37 Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 16.

38 Hvarfpunktarnir gera jafnframt 550 ppm og 650 ppm mörkin merkingarlaus þar sem sú ákvörðun að fara upp í þau hefur keðjuverkandi áhrif og svo getur farið að styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp endi að lokum í 1000 ppm með tilheyrandi hitaaukningu. Joni Seager lýsir rökvillunni um hitamörkin skemmtilega í fyrirlestri sínum „Feminism and Climate Change“, en eins og hún bendir á getum við ekki stýrt hitastigi jarðar eins og hita í bökunarofni.

39 Grein V. Ramanathans og Y. Fengs, „On avoiding dangerous anthropogenic interference with the climate system: Formidable challenges ahead“, sýnir hversu erfitt er að ná tökum á loftslagsvandanum. Þar er bent á að losunin sem er orðin að veruleika 2005 leiði óhjákvæmilega til 2,4°C hlýnunar verði ekkert að gert (PNAS, 23. september 2008, 105/38, bls. 14245–14250:
 http://www.pnas.org/content/105/38/14245…). Hans Joachim Schellnhuber gagnrýnir þessar niðurstöður í svargreininni „Global warming: Stop worrying, start panicking?“ sem birtist í sama hefti PNAS (bls. 14239–14240: http://www.pnas.org/content/105/38/14239. full.pdf+html). Schellnhuber gerir ráð fyrir að takast muni að helminga losun koltvísýrings fyrir 2050, og færa hana niður fyrir 2005-mörkin. En svo að tryggja megi að jörðin hlýni ekki um a.m.k. 2,4°C verður hámarkslosun að eiga sér stað milli 2015 og 2020 og þróunarlöndin mega ekki koma sér upp jafnöflugum lofthreinsibúnaði og tíðkast á Vesturlöndum því að mengunin vegur upp á móti áhrifum gróðurhúsalofttegundanna í lofthjúpnum. Clive Hamilton dregur fram hætturnar í rökum Schellnhubers í bók sinni Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 28–29.

40 James Hansen gagnrýnir sérstaklega hversu varfærnir vísindamenn séu í yfirlýsingum í bók sinni Storms of My Grandchildren (bls. 87–89) og bendir á að naumur tími sé til stefnu. Þrátt fyrir það kjósi vísindamenn fremur að humma fram af sér allar hættur en tapa trúverðugleika um stundarsakir. Ég kem inn á þennan vanda í grein minni „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing
og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 119.

41 Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, bls. 40.

42 Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, bls. 41–42.

43 Ég flokka niður vísindalegu falsrökin í grein minni „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 107–119.

44 Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 252–256.

45 Leo Tolstoj: „Land, land!“ Húsbóndi og þjónn og fleiri sögur, þýð. Sigurður Arngrímsson. Seyðisfirði: Prentsmiðja Austurlands H/F 1949, bls. 94.

46 Leo Tolstoj: „Land, land!“, bls. 102.

47 Leo Tolstoj: „Land, land!“, bls. 105.

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Er HS Orka á heljarþröm?]]> http://www.savingiceland.org/?p=8953 2011-12-22T16:03:34Z 2011-12-20T17:34:30Z Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur.

Samningurinn var undirritaður í júní 2007 og síðan er liðin 4½ ár. Á þessum tíma hefur HS Orku ekki tekist að útvega eitt einasta megavatt af raforku. Fyrir lá í upphafi að erfitt yrði að fá leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun en leyfið fékkst þó frá Orkustofnun sl. haust. Lengi hefur verið vitað að jarðhitasvæðin í Svartsengi og Eldvörpum fá orkuna úr sama pottinum og ekkert bendir til annars en að svæðið sé fullnýtt. Allt tal um frekari orkuöflun í Eldvörpum er því ábyrgðarlaust. Og svo er það rúsínan í pylsuendanum, Krýsuvíkursvæðið. Boranir við Trölladyngju hafa reynst árangurslausar en ókunnugt er mér um árangur af grunnri rannsóknarholu við Sandfell. Meginjarðhitinn í Krýsuvík er við Seltún og Austurengjar í landi Hafnarfjarðar. Þar hefur HS Orka fengið rannsóknarleyfi en nýtingarrétturinn tilheyrir Hafnarfirði. Þar er allt óvíst um orkuöflun. HS Orka hefur heimild til að stækka Reykjanesvirkjun um 80 MW en til þess vantar reyndar allmarga milljarða króna og enginn vill lána. Hvar er bjargvætturin Ross Beaty núna? Eru möguleikar á skyndigróða á Suðurnesjum uppurnir?

En hvað ef HS Orka getur ekki útvegað umsamda orku? Norðurál segist hafa eitt um 20 milljörðum í undirbúning álbræðslu í Helguvík nú þegar. Fær Norðurál skellinn eða gæti HS Orka verið skaðabótaskyld. Það blasir ekki við að niðurstöðuna frá Svíþjóð eigi að túlka sem gleðitíðindi líkt og Kristján Már Unnarsson fréttamaður gerði í fréttum Stöðvar 2 í gær.

Að lokum. Hvernig datt fulltrúum lífeyrissjóðanna í hug að kaupa 25% hlut í HS Orku af Ross Beaty? Keyptu þeir köttinn í sekknum?

Fyrst birt á Smugan.is

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005]]> http://www.savingiceland.org/?p=8928 2016-11-11T14:59:11Z 2011-12-18T23:11:29Z Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009.

Guðmundur á Vaði á orðið:

„Búsáhaldabyltingin byrjaði á heimatúninu okkar í ágúst 2005 en ekki á Austurvelli í Reykjavík snemma árs 2009! Munurinn var hins vegar sá að lögreglan hafði undirtökin í átökum hér eystra en andófsfólkið hafði undirtökin fyrir sunnan,“ segir Guðmundur Ármannsson, bóndi á Vaði í Skriðdal, einn þekktasti andstæðingur stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi. Þau hjón á Vaði, Gréta Ósk Sigurðardóttir og Guðmundur, voru meðal annars mjög í fréttum sumarið 2005 eftir að hafa boðið hópi umhverfisverndarsinna að tjalda hjá sér þegar lögregla lét til skarar skríða gegn mótmælatjaldbúðum á landi Prestsetrasjóðs á framkvæmdasvæðinu. Guðmundur segir þau hafa brugðist við svona annars vegar vegna þess að þau hafi verið andvíg stóriðjuframkvæmdunum og hins vegar vegna afstöðu kirkjunnar manna til andófs gegn Kárahnjúkavirkjun. „Vissulega var fólk þarna í hópnum sem fór land úr landi til að mótmæla kröftuglegar en menn hérlendis voru vanir og það hafði dálítið þrönga sýn en sjóndeildarhringur stjórnar Prestsetrasjóðs var enn þrengri. Ráðamenn sjóðsins höfðu greinilega ekki tileinkað sér andann í orðum krists: „Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guð ríki.“

Þegar svo lögreglumenn mættu nokkrum dögum síðar hingað heim á tún og ætluðu að handtaka fólk í tjaldbúðunum fyrir meint skemmdarverk á jarðstreng RARIK í Skriðdal brást ég hart við og sagði að þeir gætu tekið sjálfan mig fastan en aðra ekki nema fyrir lægi dómsúrskurður þar að lútandi. Lögreglan hvarf þá á braut og lét ekkert frá sér heyra frekar um strengsmálið. Tjaldbúar tóku þarna á móti laganna vörðum með því að berja potta og pönnur og láta í sér heyra líkt og síðar gerðist á Austurvelli. Þar með held ég að Búsáhaldabylting hafi byrjað á Vaði!“

Lifðum eins og við værum síðasta kynslóðin

„Sjálfur er ég ekki svo vitlaus að mæla gegn því að stóriðjan skapi atvinnu; það er augljóst. Framkvæmdin hefur hins vegar breytt miklu og flestu til hins verra. Atvinnumynstrið er gjörbreytt á Austurlandi og mörg fyrirtæki farin á hausinn, sem rekja má til stóriðjunnar. Þetta verkefni var hluti af því rugli að spila með fjármuni sem ekki voru til og er sem slíkt harmleikur fyrir þjóðina að súpa seyðið af. Því miður lendir vitleysan á komandi kynslóðum og þær þurfa að borga brúsann. Framsýnina skortir; við lifðum eins og við værum síðasta kynslóðin á Íslandi. Þetta er orðinn hlutur og það verður að taka því þótt erfitt sé. Menn mega ekki vera í skotgröfum heldur lifa með því sem orðið er. Margir harðir stuðningsmenn stóriðjuframkvæmdanna voru og eru góðir vinir mínir og það breytist ekki. Náttúran hefnir sín alltaf ef mennirnir misbjóða henni. Ég skammast mín ekkert fyrir að berjast fyrir því að varðveita ættlandið mitt handa komandi kynslóðum svo þær eigi val um hvað þær vilji gera. Hins vegar er búið að grípa fram fyrir hendur afkomenda okkar á margan hátt og þrengja framtíðarvalið, til dæmis með vatnaflutningum í tengslum við virkjunina. Flutningur Jöklu yfir í Lagarfljót er skemmd á náttúrunni og mér þótti Héraðsbúar alltaf undarlega andvaralausir gagnvart þeim ósköpum öllum.“

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara]]> http://www.savingiceland.org/?p=8907 2017-03-08T20:28:06Z 2011-12-18T18:33:44Z Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós.

_________________________________

Sjá nánar:

Frétt Guardian af málsókn kvennanna
Yfirlýsing Saving Iceland um veru og störf Mark Kennedy innan hreyfingarinnar
Yfirlýsing Saving Iceland um skýrslu Ríkislögreglustjóra

 

]]>
0
friendoficeland <![CDATA[Eftirlit með neysluvatni íbúa á vegum stóriðju]]> http://www.savingiceland.org/?p=8814 2012-04-21T11:49:22Z 2011-11-21T13:40:13Z

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að draga megi í efa hreinleika neysluvatns sem fengið er af yfirborði Akrafjalls og hvetur bæjaryfirvöld á Akranesi til að vera á verði gagnvart mengun þess. Eftirlitsmenn á vegum stóriðjuveranna sjálfra sjá um mælingar á gæðum vatnsins.

Jóhanna Þorgrímsdóttir formaður Umhverfisvaktarinnar segir að í drögum að nýrri vöktunaráætlun sem nú er í meðferð Umhverfisstofnunar, leggi forsvarsmenn iðjuveranna á Grundartanga til að dregið verði úr mælingum ferskvatns þannig að í Berjadalsá fari mælingar fram einu sinni að sumri, um miðjan ágúst en þær hafa verið gerðar tvisvar á ári og alltaf yfir sumartímann. Hún segir fáránlegt ef það verði látið viðgangast þegar um er að ræða neysluvatn íbúanna, að stóriðjan sjálf sjái um að mæla einu sinni á ári, og á þeim tíma þegar hættan af mengun sé minnst. Þarna sé í húfi neysluvatn þúsunda íbúa og vatn sem sé notað við framleiðslu matvæla. Það hljóti að vera sjálfsagt að mengunarmælingar fari fram allan ársins hring.

Útblástur nemur þúsund tonna

Umhverfisvaktin telur útblástur mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga nema þúsundum tonna árlega. Við ákveðnar aðstæður svo sem í suðaustan átt, við útsleppi úr reykhreinsivirkjum, þegar mengunarslys eiga sér stað og þegar snjóa leysir sé sérstök ástæða er til að hafa varann á.

Í ályktun frá  Umhverfisvaktinni er skorað á Umhverfisráðherrra að hefja nú þegar undirbúning þess að flytja ábyrgð á umhverfisvöktun vegna mengunar frá iðjuverunum á Grundartanga frá forsvarsmönnum iðjuveranna, í hendur til þess bærrar opinberrar stofnunar.

Umhverfisvaktin er náttúruverndarsamtök Hvalfjarðar og nágrennis en Ragnheiður Þorgrímsdóttir segir að augu samtaka beinist að sjálfsögðu að stóriðjunni á svæðinu enda séu það brýnasta verkefnið. Fyrsti aðalfundur samtakanna var haldinn 15.nóvember en þar var samþykkt að skora á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að falla frá frekari stækkun iðnaðarsvæðisins á Grundartanga og bent á þá ,,óhugnanlegu staðreynd að innan þynningarsvæðis fyrir flúors og brennistein sé starfrækt fóðurframleiðsla fyrir landbúnaðarframleiðslu og öll aukning á mengandi efnum í kælilofti fóðurstöðvarinnar stefni rekstri hennar í enn frekara óefni.“

Sjá einnig:

Frumvinnsla áls – Lýsing á hinni mengandi og orkufreku framleiðslu ábarra

Hjálmar Sveinsson og Paul Watson

Believes Aluminium Plant is Poisoning Sheep

More Fluoride in Animals Around Aluminium Factories than Elsewhere – Environmental Agency Refuses to Investigate

Elkem’s Icelandic Alloys Year Round “Human Errors”


]]>
1
friendoficeland <![CDATA[Samningsstaða Landsvirkjunar anno 2002]]> http://www.savingiceland.org/?p=8805 2011-11-21T13:19:16Z 2011-11-17T13:07:43Z Árni Finnsson

Í kjölfar yfirlýsinga forstjóra Landsvirkjunar, Harðar Arnarsonar, um laka arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafa tveir skýringar verið gefnar sem ástæða: Í fyrsta lagi að þáverandi stjórnendur fyrirtækisins og landsins hafi staðið sig illa í samningagerð við Alcoa. Í öðru lagi að stjórnvöld hafi rekið stóriðjustefnu til að skapa atvinnu, verkefni fyrir byggingariðnaðinn og um leið landsbyggðastefnu en látið nægja að orkuverðið stæði undir afborgunum.

Hörður vildi lítið segja um fyrri skýringuna. Á hinn bóginn lagði hann þunga áherslu á að til lengri tíma væri viðunandi arðsemi langmikilvægust fyrir áhrif fyrirtækisins á efnahag landsins. Framkvæmdaáhrifin væru vissulega góð, ekki síst í þeirri kreppu sem nú hrjáir landsmenn en þau áhrif væru tímabundin.

Ófullnægjandi arðsemi Landsvirkjunar skýrði hann fyrir lesendum Morgunblaðsins þann 15. nóvember s.l.: „Árið 2010 var hagnaður Landsvirkjunar um 73 milljónir dollara en til að ná 11% arðsemiskröfu hefði fyrirtækið átt að ná um 180 milljóna dollara hagnaði.“ Hér munar mjög miklu og ljóst að töluverðan tíma mun taka fyrir Landsvirkjun að skila eigendum sínum viðunandi arði. Þar munar mest um að verð fyrir orku frá nýjum virkjunum er of lágt segir Hörður Arnarson. Les: Kárahnjúkavirkjun. Raforkuverð verður að hækka umtalsvert og það mun taka langan tíma vegna þess hve samningarnir við Alcoa voru lélegir.

Um hvað er maðurinn eiginlega að tala? Af hverju er ekki nóg að byggja virkjanir, skapa atvinnu og láta álverið borga byggingarkostnaðinn? Svarið við  þessum spurningum felst í því að öll viljum við að sparifé okkar skili jákvæðum vöxtum. Þannig er lífeyrissjóðum lögskylt að ávaxta sparnað sjóðsfélaga sinna sem allra best. Fjárfesting í virkjun sem bara gefur 3,5% ávöxun felur í sér umtalsvert tap ef unnt er að fjárfesta í hátæknifyrirtæki sem gefur 11% ávöxtun með sömu áhættu. Að mati Landsvirkjunar og alþjóðlegra matsfyrirtækja verður arður fyrirtækisins að ná 11%. Ella er tap af rekstri þess. Þessi staðreynd birtist þegar fjármálaráðherra eyrnamerkti Landsvirkjun drjúgan hluta þess fjár sem AGS lánaði Íslandi í kjölfar hrunsins. Lánadrottnar Landsvirkjunar kröfðust þess að fyrirtækið hefði ávallt mörg hundruð milljóna bandaríkjadala í handbæru fé. Ella myndi fjármagnskostnaður hækka umtalsvert. Að auki veitti fjármálaráðherra fyrirtækinu frí frá arðgreiðslum til eigenda sinna. Kárahnjúkavirkjun er þungur baggi á Landsvirkjun.

Í skýringu Harðar má lesa þá gagnrýni að stjórnvöld hafi um langan tíma rekið Landsvirkjun til að skaffa verktökum og verkfræðistofum verkefni tímabundið en þess ekki gætt að langtímaáhrif virkjanaframkvæmda yrðu jákvæð fyrri efnahagslífið; að fyrirtækið geti greitt arð til eigenda sinna. Benti hann á að allt frá stofnun hefði Landsvirkjun greitt sáralítinn arð og gjald fyrir nýtingu auðlinda.

Afstaða forstjóra Landsvirkjunar fær stuðning í nýútkominni skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál, sjá greiningu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands,  Þjóðhagsleg þýðing áætlaðra framkvæmda á bls. 42. Hagfræðistofnun bendir á að langtímaáhrif af stóriðjufjárfestingum eru miklu óvissari en skammtímaáhrifin (framkvæmdaáhrifin). Fyrirfram er yfirleitt erfitt að fullyrða um hver þau gætu verið. Hagfræðistofnun telur þó að langtímaáhrif stóriðjuframkvæmda á atvinnuleysi séu lítil.

Hugum nú að fyrri skýringunni, sem Hörður vildi sem minnst um tala þótt hann viðurkenndi að í dag hefði hann ekki gert orkusölusamninga eins og Alcoa fékk. Forverar sínir hefðu gert eins vel og þeim var unnt við erfiðar markaðsaðstæður.

En hverjar voru aðstæðurnar?

Í kjölfar þess að Skipulagsstofnun lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun þann 1. ágúst 2001 vegna verulegra og varanlegra náttúruspjalla, auk ófullnægjandi upplýsinga, fylltust ráðmenn fádæma einurð. Forsætisráðherra, Davíð Oddsson, atyrti skipulagsstjóra opinberlega og landgræðslustjóri var tekin á teppið hjá þremur ráðherrum. Halldór Ásgrímsson sagði að ríkisstjórnin væri nú ákveðnari en nokkru sinni fyrr að ráðast þessa framkvæmd. Lög um Kárahnjúkavirkjun skyldu samþykkt á Alþingi fyrir þinglok vorið 2002.

Úrskurður Skiplagsstofnunar endurspeglaði að nokkru efasemdir Norsk Hydro um Kárahnjúkavirkjun. Norsk Hydro hafði upphaflega afþakkað boð stjórnvalda um þátttöku í fjármögnun og byggingu Fljótsdalsvirkjunar vegna þess að arðsemi verkefnisins var ábótavant. Þá hafði Norsk Hydro miklar efasemdir um að samfélagsleg áhrif væru jafn jákvæð og af var látið, náttúrueyðileggingin yrði veruleg, auk þess sem afstaða iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar til náttúruverndarsamtaka einkenndist af óvild og ofstopa í garð þeirra sem leyfðu sér að hafa aðra aðra skoðun en stjórnvöld á málinu. Fram hafði komið hörð gagnrýni í Noregi og sú gagnrýni myndi skaða fyrirtækið sem sagði sig frá verkefninu í mars 2002. Nokkrum vikum síðar hófust viðræður við Alcoa sem vissulega jesúsaði sig yfir framkomu ráðamanna gagnvart almenningi en taldi litlar líkur á hörðum mótmælum fyrir utan skrifstofur fyrirtækisins á Manhattan. Samningar voru undirritaðir 11 mánuðum eftir að viðræður hófust.

Af framansögðu má ljóst vera að samningamenn Landsvirkjunar voru í vonlausri samningsstöðu gagnvart Alcoa. Ríkisstjórn og Alþingi höfðu skrúfað upp væntingar um framkvæmdir. Hvers kyns hik yrði túlkað sem eftirgjöf við vaxandi gagnrýni af hálfu náttúruverndarsamtaka heima og erlendis. Alcoa vissi að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson vildu fyrir alla muni byrja að sprengja í Dimmugljúfrum fyrir kosningar vorið 2003. Samningsstaða þeirra var álíka afleit og Indjána 19. aldar í Norður Ameríku gagnvart alríkisstjórninni í Washington. Síðar gerði forstjóri Alcoa gys að samningahæfni Íslendinga. Munurinn á Indjánum Norður Ameríku forðum tíð og ríkisstjórn Íslands var hins vegar sá að samningsstaða íslenskra ráðamanna var sjálfskaparvíti.

Hreinskilni nýrra stjórnenda Landsvirkjunar helgast af algerri nauðsyn þess að komast hjá því að lenda í sömu samningsstöðu gagnvart orkukaupa og fyrirtækið lenti í gagnvart Alcoa.

Greinin birtist fyrst á Smugunni.

]]>
0
solskin <![CDATA[Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu]]> http://www.savingiceland.org/?p=8564 2013-12-14T20:56:54Z 2011-11-09T08:43:15Z Sérstök samantekt fyrir Saving Iceland, eftir Dónal O’Driscoll

Formáli

Fyrirtækið Glencore er aðaleigandi Century Aluminum sem á eitt starfandi álver á Íslandi og annað hálfbyggt. Ísland er þannig aðalframleiðsluland áls fyrir Century. Hverjir standa að baki Glencore og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland? Í þessari grein er fjallað um þennan stærsta hrávörumiðlara heims síðan Enron var og hét. Myndin sem dregin er upp sýnir bæði umfang og eðli áhrifa Glencore á heimsmörkuðum fyrir málma, korn, kol og olíu – fyrirtækið getur stjórnað verðmyndun svo að fáir útvaldir hagnast gríðarlega meðan almenningur tapar. Greinin varpar ljósi á þéttriðið tengslanet milli Glencore og nokkurra stærstu námufyrirtækja heims, tengsl sem felast í sameiginlegu eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum og því að sömu aðilar eiga sæti í stjórnum fyrirtækjanna. Sagt er frá helstu hluthöfum í Glencore, sem sumir hverjir eiga stærri hlut persónulega en stofnanafjárfestar. Meðal þessara hluthafa má nefna fjárfestinn Nathaniel Rothschild sem á rúmar 40 milljónir dala í Glencore og er auk þess persónulegur vinur þeirra Peter Mandelson (breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins) og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Í greininni er ennfremur lýst mannréttindabrotum og umhverfisspjöllum sem skrifa má á reikning Glencore. Þar má fremst telja morðið á leiðtoga Maya indíána í Guatemala, Adolfo Ich Chamán, árið 2009. Adolfo hafði mótmælt framkvæmdum Glencore í Guatemala meðan Peter Jones var framkvæmdastjóri fyrirtækisins (Jones situr enn í stjórn Glencore). Færð eru rök fyrir því að Glencore hafi fleiri umhverfisspjöll og mannréttindabrot á samviskunni en flest önnur námafyrirtæki, enda hikar fyrirtækið ekki við að eiga í viðskiptum þar sem aðrir halda sig fjarri, t.d. í Kongó og Mið-Asíu ríkjum. Sem dæmi má nefna að Glencore stundaði viðskipti við Írak í tíð Saddam Hussein og við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar – bæði löndin voru undir alþjóðlegu viðskiptabanni. Marc Rich, stofnandi Glencore, átti í viðskiptum með íranska olíu þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjamanna á landið. Þessi viðskipti urðu til þess að Rich var ásakaður um innherjaviðskipti og skattsvik og flúði hann því Bandaríkin árið 1983. Hann var fyrir vikið eftirlýstur af FBI og var á tímabili einn af 10 mest eftirsóttum glæpamönnum Bandaríkjanna, eða þar til Bill Clinton náðaði hann. Glencore er enn rekið af tveimur helstu samstarfsmönnum Richs.

Inngangsorð

Frá Kazakhstan til Ástralíu, um þvera Zambíu, stríðshrjáð Kongó og Angóla, frá Síberíu til Íslands má finna net námu- og jarðefnafyrirtækja sem valda umhverfisspjöllum og samfélags vandamálum. Á Íslandi er Century Aluminum andlit þessa nets, en í hjarta þess er að finna svissneska hrávörumiðlarann Glencore International. Glencore er í þann mund að halda hlutafjárútboð þar sem til stendur að auka hlutafé um 10 milljarða Bandaríkjadollara. Þessi gjörningur mun gera marga vellauðuga og að honum loknum mun virði félagsins vera um 60 milljarðar Bandaríkjadollara. Í þessari grein er ætlunin að varpa ljósi á hvernig Glencore græðir peninga og sýna að Ísland er aðeins eitt af mörgum fórnarlömbum þessa fyrirtækis sem er byggt á grímulausri græðgi og arðráni.

Við fyrstu sýn virðist auður Glencore vera til kominn fyrir viðskipti með hrávörur (sjá frekari útskýringar neðar), aðallega þó kornvörur og málma. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að Glencore er óvenjulegur hrávörumiðlari að því leyti að fyrirtækið fjárfestir mikið í þeim fyrirtækjum sem framleiða vörurnar sem Glencore stendur í viðskiptum við. Þessa viðskiptahagsmuni er að finna víðsvegar um heiminn: í „brauðbelti“ Rússlands, í sink-námum í Kasakhstan, í kopar- og kóbaltnámum í Kongó og Angóla og í álverum á Íslandi.

Álverin tengja Glencore við Ísland, enda á fyritækið 44% hlut í Century og á fulltrúa í framkvæmdastjórn þess. Century er eigandi álversins á Grundartanga og stendur auk þess fyrir byggingu annars álvers í Helguvík – en fyrir það álver þyrfti að ráðast í byggingu umdeildra varma- og vatnsorkuvera. Það er líka alls óvíst að næg virkjanleg orka sé yfir höfuð fyrir hendi til að knýja fyrirhugað álver í Helguvík. Glencore stjórnar 38% af heimsmarkaði með ál. Helmingur þessa áls er framleitt af Century og rússneska álrisanum UC Rusal, sem Glencore á 8.8% hlut í.

Af framansögðu má greina þéttriðið net persónulegra- og viðskiptatengsla: Hagsmunir Century skarast greinilega mikið við hagsmuni Glencore. Þó ríkisstjórn Íslands sitji að nafninu til við samningaborðið með Century eru hagsmunir Glencore aldrei langt undan, og setja óhrjálegan svip á samvinnuna. Mörgum spurningum um fjárfestingastefnu Glencore er enn ósvarað. Ekki þarf annað en að líta á helstu viðskiptavini fyrirtækisins til að sjá að þar á bæ er ekki hikað við að arðræna stríðshrjáð lönd og eiga í viðskiptum við aðila sem hafa auðgast fyrir tilstilli spillingar og kúgunar. Almennt séð ríkir ánægja með Glencore á fjármálamörkuðum vegna hins mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilar, en einstaka blaðamenn og aðilar innan fjármálageirans velta nú fyrir sér hvort ráðlegt sé að fara með meiri gát, þar sem svo lítið sé vitað um innra starf fyrirtækisins og hvernig það fari að því að ná jafngríðarlega arðvænlegum samningum og raun ber vitni.

Í þessu samhengi sakar ekki að rifja upp að síðast þegar hrávörumiðlari náði jafnsterkri markaðsráðandi stöðu og Glencore hefur nú fóru hlutirnir mjög illa. Umrætt fyrirtæki var Enron.

Hvað með Century Aluminum?

Century-fyrirtækið sérhæfir sig í álbræðslu. Það var stofnað árið 1995 við samruna nokkurra smærri fyrirtækja sem Glencore hafði yfirtekið og var sett á almennan markað ári síðar.1

Enn er Glencore stærsti eigandi Century, með 44% eignarhluta. Megnið af hinum 56% er í eigu bandarískra stofnanafjárfesta, svo sem vogunarsjóða.2 Á vefsíðu Century má glöggt sjá að Ísland er lykilhluti af starfsemi fyrirtækisins og þrír framkvæmdastjórar hjá íslenska hluta Century teljast til lykilaðila í framkvæmdastjórn félagsins.

Lykilaðilar

Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri hjá Norðuráli á Grundartanga

Gunnar hóf störf hjá Norðuráli árið 2008 eftir að hafa starfað í álverinu í Straumsvík, nú í eigu Rio Tinto Alcan, í rúmlega tíu ár.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls

Norðurál er eignarhaldsfélag utan um/fyrir íslenska starfsemi Century. Ragnar var áður fjármálastjóri hjá Básafelli og þar áður forstöðumaður innanlandsflutninga og hagdeildar Samskipa.

Wayne R. Hale, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

Gekk til liðs við Century í 2007 eftir að hafa áður starfað fyrir Sual í Rússlandi (Sual, Rusal og ál-interests Glencore í Rússlandi mynduðu UC Rusal við samruna sinn). Hann hefur einnig starfað fyrir Kaiser og Rio Tinto.

Peter Jones, forstjóri

Forstjóri og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fyrirtækisins Inco Ltd. á árunum 2001-2006. Fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri Hudson Bay Mining & Smelting Co. Jones fór á eftirlaun í lok árs 2009.

David J. Kjos, forstjóri Norðuráls á Grundartanga

Fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins Cygnus Inc. sem framleiðir geimtæknibúnað. Þar áður vann Kjos fyrir United Development Co og Kaiser Aluminium & Chemical Co.

Logan W. Kruger, framkvæmdastjóri, aðalforstjóri Century Aluminum

Kruger gekk til liðs við Century í nóvember 2005. Milli 2003 og 2005 var hann háttsettur hjá námafyrirtækinu Inco og leiddi starfsemi þess í Asíu og í Kyrrahafinu. Þar á meðal var Goro nikkel-náman á Nýju-Kaledóníu og fleiri námur í Indónesíu. Kruger er enn framkvæmdastjóri indónesíska dótturfyrirtækisins P.T. Inco (brasilíska nikkel-námufyrirtækið Vale hefur í millitíðinni eignast Inco). Kruger starfaði einnig sem yfirmaður hjá Anglo American’s í Chile (2002-03) og sem framkvæmdastjóri Hudson Bay náma- og málmbræðslufyrirtækisins í Kanada (1998-2002).3 Hann er einnig framkvæmdastjóri hjá Amcoal, sem hefur umsjón með kolanámum námarisans Anglo American í Suður-Afríku.

Andrew Michelmore, forstjóri

Síðan 2009 hefur Michelmore gegnt stöðu framkvæmdastjóra Minerals and Metals Group, áður var hann framkvæmdastjóri hjá OZ Minerals. Bæði fyrirtækin eru meðal stærstu námafyrirtækja Ástralíu. Minerals & Metals Group er dótturfyrirtæki Minmetals Resources Ltd. Minmetals Resources Ltd., staðsett í Hong Kong, á umtalsverðra hagsmuna að gæta á álmarkaðinum í Kína.

John P. O’Brien, stjórnarformaður

Hefur gegnt stöðu stjórnarformanns síðan í janúar 2008. Bakgrunnur hans er á sviði framkvæmdastjórnunar og endurskipulagningar fyrirtækja.

Willy R. Strothotte, forstjóri

Stjórnarformaður hjá Glencore og Xstrata (sjá að neðan í kaflanum um Glencore).

Jack E. Thompson, forstjóri

Gegnir einnig starfi stjórnarmeðlims fjölmargra annarra námufyrirtækja, þar á meðal Anglo-American og Centerra Gold, sem er stærsti vestræni framleiðandi gulls í Mið-Asíu.

Fjórir aðrir stjórnarmeðlimir vernda hagsmuni almennra hluthafa, en það er ljóst af ofansögðu að framkvæmdastjórnin samanstendur að mestu leyti af stjórnendum úr námaiðnaðinum sem þekkjast vel. Slík tengsl geta verið vel falin og þurfa ekki að blasa við út frá upptalningunni að ofan. Til dæmis keyptu Century og Noranda báxítnámuna St. Anns á Jamaica og álverið í Gramercy, Louisiana, af Kaiser Aluminium (síðar keypti Noranda Century út). Noranda er dótturfyrirtæki Xastra, sem eignaðist Noranda árið 2006 sem hluta af yfirtökunni á Falconbridge námufyrirtækinu.

Önnur athyglisverð tengsl eru meðal annars:

Xstrata og Anglo-Americal Chile eiga í sameiningu Callahuasi koparnámuna, þriðju stærstu koparnámu veraldar. Hatrömm átök brutust út við námuna árið 2010 vegna verkfalls námamanna.4

Hudson Bay námafyrirtækið hefur verið ákært vegna morðsins á Adolfo Ich Chamán, leiðtoga Maya indjána, sem mótmælti gjörðum fyrirtækisins í Guatemala. Ich Chamán var skotinn til bana af öryggisvörðum árið 2009.5 Þegar morðið var framið var Peter Jones, núverandi stjórnarmeðlimur Century, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Einnig er vert að minnast þess að Logan Kruger, núverandi aðalforstjóri Century, var framkvæmdastjóri HB fram til ársins 2002.

Centerra Gold keypti Kumtor námuna í Kyrgyzstan af stjórnvöldum. Almenningur naut lítils góðs af kaupsamningnum og olli það pólitískum titringi í landinu.6 Jack Thompson, stjórnarmeðlimur í Century og Anglo-American, situr einning í stjórn Centerra.

Innfæddir réðust árið 2006 inn í námu í eigu Inco í Goro á Nýju-Kaledóníu vegna áhyggja af umhverfisáhrifum námunnar.7 Á þeim tíma var Peter Jones framkvæmdastjóri hjá Inco. Logan Kruger hafði stjórnað umsvifum við þessa námu á árunum 2002-2005 og gegnir hann enn stöðu forstjóra hjá móðurfélaginu P.T. Inco.

UC Rusal er stærsti einstaki álframleiðandi í heimi og er stjórnað af rússneska ólígarkanum Oleg Deripaska gegnum En+ Group, sem hann stjórnar. En+ á ráðandi hlut í fjölmörgum öðrum námavinnslu- og orkufyrirtækjum sem flest er að finna í Síberíu.8

Meðstjórnandi hans er fjárfestirinn Nathaniel Rothschild, sem stjórnar námufjárfestingarfélaginu Vallar, á 40 milljón dollara hlut í Glencore og er auk þess mikill stuðningsmaður yfirtöku Glencore á Xstrata.9,10 Rothschild er einnig persónulegur vinur bæði Peter Mandelson, fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins, og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Xstrata á mikilla hagsmuna að gæta í Ástralíu. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt harðlega fyrir óprúttnar viðskiptaaðferðir11, og fyrir óvægna meðferð á innfæddum við McArthur-námuna.12 Einnig er í gangi herferð gegn fyrirtækinu vegna umhverfisspjalla við ofanjarðarnámu fyrirtækisins í Mangoola.13

Það er erfitt að sjá að eitthvert eitt námufyrirtæki í þessu neti sé betra en annað. Öll fyrirtækin hafa átt í stormasömum samskiptum við innfædda og við verkalýðsfélög, auk þess að hafa valdið umtalsverðum umhverfisspjöllum. Það segir sitt hve auðvelt er að finna dæmi um þetta á ferilskrám þeirra aðila sem í dag eru lykilstjórnendur Century.

Glencore International AG

Marc Rich & Co

Upphaf Glencore má rekja til verðbréfafyrirtækis hins umdeilda hrávörubaróns Marc Rich. Rich byggði upp hrávöru-viðskiptaveldi sitt með því t.d. að eiga í viðskiptum við fólk eins og Ayatollah Khomeini með olíu frá Íran þrátt fyrir viðskiptabann á Íran af hálfu Bandaríkjamanna. Á sama tíma átti hann einnig í samskiptum við ísraelsku leyniþjónustuna Mossad.

Árið 1983 voru hann og Pincus Green, samstarfsmaður hans, ásakaðir um innherjasvik, skattsvik og ólögleg viðskipti við Írak á sama tíma og viðskiptabann á landið var í gildi. Í framhaldi af því flýðu þeir báðir land og Rich varð einn af tíu efstu á lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir eftirlýsta glæpamenn. Hann var síðar náðaður af Bill Clinton á síðasta degi þess síðarnefnda í embætti forseta Bandaríkjanna. Athyglisvert er að staðgengill Rich í Washington á fimmtán ára tímabili (1985-2000) var Lewis “Scooter” Libby, sem síðar varð alræmdur sem starfsmannastjóri Dick Cheney.

Rich settist að í Sviss þar sem hann stofnaði fyrirtækið Mark Rich & Co. Undir merkjum þessa fyrirtækis hélt hann áfram með hrávöruviðskipti og sérhæfði sig í olíu, gasi og málmum. Á árunum 1993-4 mistókst honum tilraun til að ná stjórn á heimsviðskiptum með sink. Í kjölfar þess missti hann stjórn á fyrirtæki sínu, en hann er eftir sem áður milljarðamælingur.

Á sama tíma var fyrirtækinu skipt upp og til varð fyrirtækið Trafigura, sem hefur verið síst minna umdeilt en forveri þess. Trafigura komst í fréttirnar þegar fyrirtækið losaði sig á ólöglegan hátt við eitraðan úrgang á Fílabeinsströndinni og lét svo setja lögbann á fréttaflutning af athæfinu. Þetta er ekki eina hneykslismálið sem upp hefur komið í sambandi við störf Trafigura.

Glencore

Mark Rich & Co. var tekið yfir af aðilum nákomnum Rich og gefið nafnið Glencore. Margir hluthafar, 485 talsins, munu verða mjög ríkir þegar fyrirtækið verður sett á markað. Daglegur rekstur fyrirtækisins er að mestu leyti í höndum tveggja fyrrverandi starfsmanna Richs, þeirra Ivan Glasenberg og Willy Strothotte. Glasenberg er framkvæmdastjóri, einrænn og forðast fjölmiðla. Strothotte var fyrsti framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Glencore. Undir stjórn þeirra hefur Glencore vaxið og náð yfirburðastöðu á mörgum mörkuðum. Fyrirtækið þróaði þá taktík að fjárfesta í hráefnisframleiðendum, gera samninga sem gáfu fyrirtækinu einkaleyfi á aðgengi að vörunni sem framleidd var og selja hana svo á mörkuðum. Á þennan hátt hefur Glencore orðið að hálfgerðu heimsveldi með ítök á mörgum mörkuðum, einkum olíu, málmum og korni. Óvægnar og ágengar samningaaðferðir, þróaðar undir stjórn Mark Richs, eru enn mikið notaðar af fyrirtækinu, sem að öðru leyti er hjúpað töluverðri leynd.

Velgengni Glencore má að stórum hluta skýra með því hve viljugt fyrirtækið er að eiga viðskipti við aðila og á stöðum sem flestir kapítalistar með sjálfsvirðingu forðast, t.d. í Kongó og í Mið-Asíu. Fyrirtækið hefur heldur aldrei vílað fyrir sér að brjóta viðskiptabönn, t.d. við Saddam Hussein og við Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Einnig gerir það stóra samninga við námubaróna í Mið-Asíu, sem spruttu upp eftir fall Sovétrikjanna og hafa sterk tengsl við spillingu í heimalöndum sínum. Enn þann dag í dag heyrast ásakanir á hendur fyrirtækinu og dótturfyrirtækja þess um mannréttindabrot og umhverfisspjöll.

Glencore hefur gríðarleg áhrif á mörkuðum heimsins. Fyrirtækið stjórnar stórum hluta heimsmarkaðsviðskipta með kopar (50%), sink (60%), ál (38%), blý (45%), kóbalt (23%), járn-króm málmblendi (16%), kol (til orkuframleiðslu) (28%) og hveiti (10%). Auk þess stjórnar það um fjórðungi heimsmarkaðsins með bygg, sólblóm og repjufræ. [14,15] Þetta þýðir að fyrirtækið getur í raun stjórnað heimsmarkaðsverði á þessum vörum. Athugið að þarna er ekki um að ræða hlutfall af heildar-heimsframleiðslu á þessum vörum, heldur hlutfall af því magni sem er til reiðu á mörkuðum. Margar námur eru t.d. í eigu stórra fyrirtækja sem hafa keypt námuna til að nýta allt sem úr henni er unnið. Framleiðsla slíkra náma er ekki talin með að ofan.

Helstu viðskiptahagsmunir Glencore16

Glencore á mikilla hagsmuna að gæta um allan heim. Hér á eftir fer stutt lýsing á þeim helstu og þeim vandamálum sem þeim fylgja. Listinn er engann veginn tæmandi. Margar námur sem fyrirtækið stjórnar eru ofnajarðar, með öllum þeim vandamálum sem slíkum námum fylgja, svo sem mengun og röskun búsvæða.

Argentína

AR Zinc Group, sem Glencore eignaðist árið 2005, rekur Aguilar-námuna, Palpala-álbræðsluna og auk þess brennisteinssýruverksmiðju, Sulfacid S.A., í einu helsta námuhéraði Argentínu, Jujuy, sem er í norðaustur-hluta landsins. Þessi fyrirtæki eru dæmi um starfsemi sem hefur valdið umtalsverðum umhverfisspjöllum og heilsufarsvandamálum hjá innfæddum í héraðinu. Veru þessara fyrirtækja, þar á meðal AR Zinc Group, í héraðinu hefur verið mótmælt.17, 18, 19

Ástralía

Glencore á 40% hlut í Minara Resources (áður Anaconda), sem rekur Murrin Murrin-námuna. Willy Strothotte, Ivan Glasenberg og aðrir aðila tengdir Glencore sitja í stjórn Minara.20 Murrin Murrin-náman, og Mt. Isa náman sem er rekin af Xstrata, voru útnefndar sem mest mengandi starfsemi í Ástralíu árið 2009.21

Bólivía

Glencore á Sinchi Wayra námufyrirtækið, sem rekur fimm námur. Deilur hafa staðið yfir lengi við starfsmenn um lengingu vinnutíma og um laun. Starfsmenn námunnar hafa sent stjórnvöldum ákall um að þjóðnýta námuna.22 Áður hefur Glencore verið gagnrýnt fyrir að nota fjöldauppsagnir til að skera niður rekstrarkostnað.23

Kólumbía

El Cerrejon Norte námunni, sem Glencore á í félagi við Anglo American og BHP Billiton, hefur verið lýst sem hryllingssögu um nauðungarflutninga innfæddra, mannréttindabrot, umhverfisspjöll og ýmiss konar annað órétti, einkum gegn Wayuu-ættbálknum. Verkalýsðforingjum hefur verið hótað lífláti af öryggissveitum.24 Svipaðar ásakanir hafa heyrst vegna La Jagua-námunnar, sem dótturfyrirtæki Glencore, Prodeco, keypti af Xstrata.25,26,27 Prodeco rekur einnig ofnajarðar kolanámu í Calenturitas, La Loma.

Kongó

Árið 2008 eignaðist Glencore ráðandi hlut í Katanga Mining, einum stærsta kopar- og kóbaltframleiðanda í Afríku.28 Fyrirtækið hafði átt í fjárhagsörðugleikum. Í Katanga-héraði hafa einkaherir selt land og auðlindir til að fjármagna sig. Frést hefur af menguðu drykkjarvatni og slæmum vinnuskilyrðum í námunum.29 Svissnesk félagasamtök hafa gagnrýnt Katanga námufyrirtækið harðlega, og hafa Bread for All og Swiss Catholic Lenten Fund gefið út skýrslu þar sem fyrirtækið er ásakað um mannréttindabrot, barnaþrælkun, mengun og skattsvik.30 Hefur þetta leitt til herferðar gegn fyrirtækinu á svæðinu.31 Glencore á einnig nýju námuna í Mutanda, sem er einnig í Katanga-héraði. Ísraelski auðmaðurinn Dan Getler, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í Kongó, er minnihlutaeigandi í Katanga námufyrirtækinu á móti Glencore. Getler tengist bæði blóðdemöntum og ísraelskum hægrisinnuðum stjórnmálamönnum, einkum Avigdor Lieberman.32

Kazakhstan

Glencore er í samstarfi við kazakhstanska einkafjárfestingafélagið Verny Capital um að taka yfir Kazzinc, sem á fjölmargar námur og málmbræðslur í landinu. Eins og er á Glencore um 51% hlut í fyrirtækinu, en búist er við að þessi hlutur muni aukast í 93% þegar fyrirtækið verður sett á markað. Verny Capital er stjórnað af hinni umdeildu Utemuratov-fjölskyldu, sem er nákomin Nazarbayev forseta, sem er talinn vera einn af hluthöfum.33 Stór hluti af jarðefnaauðlindum landsins hefur verið einkavæddur undir stjórn Nazarbayev, og hefur Glencore komið þar mjög við sögu.

Perú

Glencore á Iscaycruz og Yauliyacu námurnar í Los Quenualos. Eftir að fregnir bárust af því að öryggismál í námunum væru í ólestri var gripið til aðgerða gegn verkalýðsfélögum á staðnum.34

Filippseyjar

Fyrirhuguð Sagittarius-náma Xstrata í Tampakan, Mindanao, ógnar búsvæðum innfæddra og einnig mikilvægum regnskógum. Einn helsti baráttumaðurinn á móti námunni, Eliezer “Boy” Billanes, var myrtur þann 9. mars 2009.35 Sambærilegar námur á Filippseyjum hafa einnig verið gagnrýndar fyrir neikvæð áhrif á fæðuöryggi, ekki síst vegna þess hve vistkerfin á þessum svæðum eru sérstök.36

Rússland

UC Rusal37, rússneski álrisinn, stjórnar stærstu báxítnámu í heimi (súrál er unnið úr báxíti) og er næststærsti framleiðandi súráls í heimi (súrál verður að áli með rafgreiningu í álverum), með 14% heimsframleiðslu. Fyrirtækið, sem er stjórnað af ólígarkanum Oleg Deripaska, var stofnað við samruna Rusal við SUAL og önnur álfyrirtæki í eigu Glencore. Enn eru sterk tengsl milli Glencore og UC Rusal – Glencore á 8.7% hlut í UC Rusal og Deripaska og Glasenberg eru persónulegir vinir.38

Glencore er með mörg önnur járn í eldinum í hinu jarðefnaríka Rússlandi. Í sumum tilfellum er um að ræða fyrirtæki og auðlindir sem Glencore komst yfir strax við fall Sovétríkjanna. Glencore hefur reyndar verið bolað út úr sumum þessara fyrirtækja, sem vilja frekar selja beint til viðskiptavina í t.d. Kína. Engu að síður á Glencore enn í miklum viðskiptum við rússnesk olíu-, gas- og kornfyrirtæki, að hluta til í gegnum En+, fyrirtæki Deripaska. Orðrómur er á kreiki um að Glencore sé þar að auki að reyna að ná til sín viðskiptum með sink, nikkel og blý. Það hefur reynst erfitt að afla áreiðanlegra upplýsinga um aðra viðskiptasamninga Glencore í Rússlandi39, en vitað er að annar stór viðskiptafélagi fyrirtækisins er óháða olíuhreinsifyrirtækið Russneft.40

Zambia

Glencore á ráðandi hlut í Mopani Mines, sem hefur sætt gagnrýni fyrir umhverfisspjöll (talið er að námavinnslan valdi súru regni vegna útblásturs brennisteinssýru).41 Tuttugu námuverkamenn fórust við störf í námunni á árinu 2005; hluti skýringarinnar er talinn vera niðurskurður í starfsþjálfun fyrir verkamenn.42 Rannsókn gerð af dagblaðinu Daily Mail komst að þeirri niðurstöðu að Glencore stundi umfangsmikil skattsvik með verðlagsaðgerðum og hafi þannig skatttekjur af zambíska ríkinu, sem sárlega þarf á þeim að halda.43

Zimbabwe

Árið 2011 undirritaði Glencore samning við Mwana Africa um kaup á nikkeli úr Trojan-námunni í Bindura í Zimbabwe, sem þekkt er fyrir tengsl sín við Morgan Tsvangirai. Mwana er suður-afrískt námafyrirtæki sem rekur koparnámur í Katanga í Kongó og gullnámur í Ghana.

Aðrar eignir og viðskiptahagsmunir Glencore víðsvegar um heiminn

Glencore á PASAR koparbræðsluna á Filippseyjum, Sherwin álverið í Texas (sem hefur fengið áminningar og sektir fyrir að hleypa spilliefnum út í umhverfið44,45) og Portovesme blý- og sink-bræðsluna á Sardiníu. Það á einnig 70% í suður-afríska kolanámufyrirtækinu Shanduka. Sem eigandi Moreno sólblómafyrirtækisins, sem er einn stærsti framleiðandi sólblómaolíu í heimi, tekur Glencore stóran þátt í framleiðslu og sölu erfðabreyttra matvæla.46 Auk þess á Glencore um 270 þúsund hektara af akurlendi víða um heim og nokkrar kornvinnslustöðvar. Þessar eignir eru lykillinn að ítökum og áhrifum Glencore á heimsmarkaði með korn.

]]>
1
friendoficeland <![CDATA[Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra]]> http://www.savingiceland.org/?p=8578 2011-11-21T12:14:25Z 2011-11-03T18:28:01Z Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi.

Fólk haft að ginningarfíflum

Jafnvel þótt álbræðslu á Bakka hafi nýlega verið sópað út af borðinu er sami söngurinn ennþá sunginn af þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum. Og verkalýðshreyfingin tekur undir. Þetta er svo fráleit og ósanngjörn framkoma við íslenskan almenning að ég finn mig knúinn til að halda áfram tilraunum til að skýra fyrir landsmönnum hvernig í málinu liggur, frá mínum bæjardyrum séð. Það er ótækt að saklaust fólk sé árum saman haft að ginningarfíflum líkt og Húsvíkingar og Suðurnesjamenn hafa mátt reyna. Og hvernig í dauðanum getur staðið á því að Halldór Blöndal leyfir sér, líkt og forstjóri Norðuráls, í fjölmiðlun að nota mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana til að telja megavött? Þar er alls ekki sjáfsagt samhengi á milli, því miður, annars væri til heilmikil orka.

Yfirmenn orkumála hafa undanfarin misseri vísað umræðu um orkumál frá sér og bent á að beðið sé eftir niðurstöðu rammaáætlunar. Stundum hefur virst sem rammaáætlun sé ætlað að leysa allan vanda og að henni lokinni verði hægt að hefjast handa og þá fari margnefnd hjól atvinnulífsins að snúast. Hefur þetta fólk virkilega enga ábyrgðartilfinningu? Ég á bágt með að trúa að það sé svona illa upplýst.

Um vinnslugetu háhitasvæða

Um miðjan desember 2009, rúmum tveimur mánuðum eftir birtingu greinar minnar í Smugunni, gaf Orkustofnun út skýrsluna „Mat á vinnslugetu háhitasvæða“ eftir Jónas Ketilsson o.fl. Þar er beitt nokkuð öðrum aðferðum við slíkt mat en áður hafði verið gert í skýrslu Guðmundar Pálmasonar o.fl. frá 1985 og grein Sveinbjörns Björnssonar frá 2006 sem ég hafði tekið mið af í mínum skrifum.

Í skýrslu Orkustofnunar frá 2009 segir að þar sé „lagt fram gróft mat á vinnslugetu þekktra háhitasvæða á Íslandi til raforkuframleiðslu. Matið er byggt á einfaldri aðferðafræði en ekki flóknum útreikningum eða öllum þeim upplýsingum sem fyrir liggja í dag og skal skoðast með þeim fyrirvara.“  Og síðar: „Þegar afkastageta svæðanna var metin 1985 var miðað við nýtingu til 50 ára og er í þessari skýrslu miðað við sama árafjölda til samanburðar. Sjálfbær nýting á jarðhita gengur hinsvegar út frá nýtingu til 100-300 ára og til að fá mat á afkastagetu svæðanna þarf aðeins að deila með 2 upp í niðurstöðurnar fyrir 100 ára nýtingartíma og 6 fyrir 300 ára nýtingartíma.“  Þessi skýrsla Orkustofnunar verður að teljast opinbert mat á vinnslugetu jarðhitasvæðanna meðan annað liggur ekki fyrir

Í meðfylgjandi töflu eru dregnar saman niðurstöður mats framangreindra þriggja aðila á vinnslugetu háhitasvæðanna. Fyrstu þrír dálkarnir sýna vinnslugetu einstakra svæða miðað við 50 ára nýtingu (MW50).  Notað er svonefnt miðgildi úr nýlegri skýrslu Orkustofnunar. Af tölunum má sjá að þrátt fyrir ítarlegri gögn hefur matið aðeins breyst um tæplega 25% frá 1985. Fjórði og fimmti dálkur sýna vinnslugetuna miðað við 100 og 300 ára nýtingu (MW100 & MW300) sem Orkustofnun segir vera sjálfbæra nýtingu. Næst aftasti dálkurinn sýnir hve mikið hefur þegar verið virkjað en aftasti dálkurinn sýnir mitt eigið mat á því hve mikið er unnt að virkja miðað við að svæði endist í 100 ár sem þó er fjarri því að vera viðunandi endingartími ef nýtingin á að teljast sjálfbær.

Einföld túlkun á skýrslu Orkustofnunar frá 2009 er að virkjanleg orka háhitasvæðanna sé 4255 MW sem miðast við að orkan geti klárast á 50 árum. Ef dregin eru frá þau 666 MW sem þegar eru virkjuð standa eftir um 3600 MW. Það eru slíkar tölur sem sitja fastar í kolli þeirra manna sem enn halda því fram að grundvöllur sé fyrir byggingu álbræðslu á Bakka og annarrar í Helguvík.

Um einstök háhitasvæði

Í greininni sem sem ég skrifaði um orkulindirnar fyrir tveimur árum lét ég nægja að miða við 50 ára nýtingartíma og komst samt að því að ekki væri til næg orka fyrir tvær nýjar álbræðslur. Hér á eftir fylgir mat á vinnslugetu einstakra háhitasvæða miðað við 100 ára endingartíma sem er mun raunhæfara. Þetta mat er að mestu byggt á skýrslu Orkustofnunar frá 2009 en einnig almennum upplýsingum um fyrirætlanir orkufyrirtækjanna svo og minni eigin reynslu og þekkingu (sem orkugeirinn virðist reyndar ekki hafa mikla trú á). Svæðin eru talin upp í sömu röð og þau koma fyrir í töflunni og mitt mat er þar í aftasta dálki.

Reykjanes: Samkvæmt töflunni er jarðhitasvæðið á Reykjanesi talið líklegt til að standa undir 25 MW vinnslu í 100 ár. Þar hafa þegar verið virkjuð 100 MW og Orkustofnun hefur nýlega gefið leyfi fyrir 50 MW stækkun! Svæðið er ofnýtt nú þegar og upplýsingar í nýlega útgefnu leyfi til stækkunar breyta engu þar um.

Svartsengi-Eldvörp: Samkvæmt töflunni er svæðið fullnýtt miðað við 100 ára nýtingu. HS-Orka hefur þrátt fyrir það sett fram hugmyndir um 10 MW stækkun í Svartsengi og 50 MW virkjun í Eldvörpum! Verði af slíkri stækkun vaknar spurningin um það hvaða orku eigi að nota til húshitunar á Suðurnesjum eftir 50 ár!

Krýsuvík: Samkvæmt mati Orkustofnunar ætti að vera unnt að virkja meira en 200 MW á Krýsuvíkursvæði til 100 ára. Tvær djúpar borholur við Trölladyngja hafa gefið afar óhagstæðar vísbendingar. Ég tel afar ólíklegt er að þar sé unnt að virkja meira en 60 MW til 100 ára (eða 120 MW í 50 ár) og hef fært rök fyrir þeirri skoðun minni í grein hér í Smugunni (Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?).

Brennisteinsfjöll: Svæðið er trúlega helst til lítið til virkjunar og reyndar eina sæmilega stóra ósnortna hraunasvæðið á Suðvesturlandi.

Hengill: Svæðið er nú þegar fullvirkjað miðað við 100 ára nýtingu og gott betur. Að auki er áætlað að bæta við 135 MW virkjun við Bitru, 90 MW við Hverahlíð og 50 MW við Gráhnúka, alls 275 MW. Hvar á að fá heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið eftir 50-100 ár?

Geysir: Svæðið er lítið og verður væntanlega aldrei virkjað þó ekki væri nema vegna hagsmuna ferðaþjónustu.

Kerlingarfjöll: Hér benda tölur til 100 MW vinnslugetu í 100 ár. Svæðið er í 950–1100 m hæð og ytri aðstæður erfiðar.

Hveravellir: Friðað svæði. Jarðhitasvæðið er líkast til of lítið og of afskekkt til virkjunar.

Torfajökull: Svæðið er friðað að mestu og stór hluti þess er vart aðgengilegur til borana. Orkufyrirtæki hafa einkum sýnt Reykjadölum áhuga en þeir eru í 800–1000 m hæð. Hugsanlega væri hægt að ná þar allt að helmingi af orku svæðisins og þá gætu fengist um 300 MW í 100 ár. Hugmyndir um 1000-2000 MW orkuver eru óralangt út úr korti.

Hágöngur: Tölur Orkustofnunar frá 2009 benda til 110 MW vinnslugetu í 100 ár.

Vonarskarð: Svæðið er friðað. Vinnslugeta í 100 ár er um 75 MW. Svæðið er mjög afskekkt og liggur í 950–1100 m hæð.

Kverkfjöll: Svæðið er friðað að hluta. Miðað við tölur Orkustofnunar er vinnslugeta þess í 100 ár um 80 MW en varla er hægt að koma tækjum á svæðið.

Askja: Svæðið er friðað. Vinnslugeta í 100 ár er metin um 70 MW. Líklega væri hætta á náttúruhamförum talin of mikil til að réttlæta virkjun.

Fremrinámar: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 25 MW. Vafasamt er hvort slík nýting teldist hagkvæm þar sem svæðið er nokkuð afskekkt.

Hrúthálsar: Vinnslugeta í eina öld er metin um 10 MW. Svæðið er mjög afskekkt og nær örugglega of lítið til virkjunar.

Krafla-Námafjall: Samkvæmt mati Orkustofnunar er vinnslugetan 155 MW. Nú er í undirbúningi 90 MW virkjun í Bjarnarflagi til viðbótar við 60 MW virkjun við Kröflu. Þar með yrði svæðið fullnýtt til 100 ára. Hugmyndir hafa verið uppi um verulega aukna orkuvinnslu á Kröflusvæðinu en treglega hefur gengið að afla orkunnar.

Gjástykki: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 30 MW. Svæðið er ekki vænlegt til vinnslu og margt sem bendir til að þar sé ekki eftir miklu að slægjast.

Þeistareykir: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 120 MW. Nú er í undirbúningi um 100 MW virkjun á svæðinu og verður það þá langt til fullvirkjað.

Niðurlag

Sjálfbær vinnsla á háhitasvæðum landsins er ekki raunhæfur möguleiki. Líta ber á svæðin sem námur sem hafa að geyma endanlegt magn af varma. Við varmanámið gengur orkan smám saman til þurrðar og því er grundvallaratriði að hún sé nýtt skynsamlega og af varkárni. Mikilvægt er að horfa til nýtingar í langan tíma líkt og dæmið um nýtingu Hengilssvæðisins sýnir berlega.

Ótækt er að horft sé til nýtingar í 50 ár líkt og orkufyrirtækin gerðu þegar gerðar voru áætlanir um útvegun raforku frá háhitasvæðum bæði norðan lands og sunnan til að fullnægja orkuþörf fyrir álbræðslur á Bakka og í Helguvík, samtals yfir 1100 MW.

Ef aftasti dálkur töflunnar er skoðaður kemur í ljós að á suðvesturhorni landsins má hugsanlega vinna 60 MW í Krýsuvík, annað er fullnýtt. Á norðausturhorninu má líklega fá um 200 MW úr Þeistareykjum og Kröflu-Námafjalli. Önnur háhitasvæði eru inni á hálendinu þar sem mun erfiðara er um vik. Þar er óvissan mun meiri, ekki síst vegna veðurfars.

Það er hlutverk Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins að halda þjóðinni upplýstri um þessi mál og sjá til þess að fram fari skynsamleg umræða um nýtingu orkunnar. Framkoma iðnaðarráðherra á Húsavík sýnir að ráðherrann hefur hreint ekki skilið hlutverk sitt í orkumálum. Og orkumálastjóra, lögboðnum ráðgjafa ráðherrans, verður seint brigslað um lausmælgi þegar kemur að upplýstri umfjöllun um orkumál.

Helstu heimildir

Guðmundur Pálmason, Gunnar V. Johnsen, Helgi Torfason, Kristján Sæmundsson, Karl Ragnars, Guðmundur I. Haraldsson & Gísli K. Halldórsson 1985. Mat á jarðvarma Íslands. Orkustofnun, OS-85076. http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-1985/O…

Jónas Ketilsson, Héðinn Björnsson, Sæunn Halldórsdóttir & Guðni Axelsson 2009. Mat á vinnslugetur háhitasvæða. Orkustofnun, OS-2009/09. http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-2009/O…

Sigmundur Einarsson 2009. Hinar miklu orkulindir Íslands. Smugan, 1. okt. 2009. http://smugan.is/2009/10/hinar-miklu-ork…

Sigmundur Einarsson 2009. Er HS-Orka í krísu í Krísuvík? Smugan, 13. nóv. 2009. http://smugan.is/2009/11/er-hs-orka-i-kr…

Sveinbjörn Björnsson 2006. Orkugeta jarðhita. Orkuþing 2006. Reykjavík 12-13. október 2006. Samorka. http://samorka.is/Apps/WebObjects/SW.woa…

Greinin var fyrst birt á Smugan.is

]]>
0